Mikilvægar upplýsingar fyrir Stokkhólmsfara frá FÁSES

stokkhólmur 2016Eins og undanfarin ár fær FÁSES margar fyrirspurnir frá þeim sem hyggja á jómfrúarferð í Eurovisionlandið – nú til Stokkhólms í Svíþjóð. Því er tilvalið að taka saman á einn stað þetta helsta sem þarf að huga að til að ferðin verði sem ánægjulegust.

Gott að vera með við höndina

  • Miðana á Eurovision!
  • OGAE skírteinið með 2016 límmiða
  • F2/OGAE/Euroclub Accrediation (hafir þú pantað svoleiðis)
  • Íslenska fánann og nóg af honum (fólk er alltaf að betla af manni fána og mörgum finnst gaman að skiptast á fánum, barmmerkjum og fleiru). Einnig gaman ef fólk fílar andlitsmálningu að taka hana með!
  • Síma og myndavél nema hvor tveggja sé. Mælum með notkun kassamerkisins #fáseshjartað og síðan er það klassíkerinn #12stig.

Staðir

Globen arena er höllin í ár eins og allir vita. Eins og alltaf er mikilvægt að fólk leggi tímanlega af stað á keppnirnar til að forðast langar biðraðir (mjög gott að vera kominn 2 tímum fyrir keppni). Athugið að öryggisleit fer fram áður en fólk kemst inn í höllina og það getur tekið drjúgan tíma. Einnig er gott að fylgjast með tölvupóstinum sínum því að þangað gætu borist mikilvæg skilaboð um þetta. Athugið einnig að fara að fánareglunum sem EBU hefur birt.

  • Til að komast í höllina er best að taka metróið á grænu línunni og stoppa á Globen arena. Gæti ekki verið auðveldara!

Eurovision village. Hefð hefur myndast fyrir því í gegnum árin að hafa Eurovision þorp í borginni þar sem er útisvið og viðburðir yfir daginn. Nú verður Eurovision þorpið á Kungsträdgården og verður m.a. hægt að horfa á keppnirnar þar í beinni útsendingu. Svíar lofa viðburðum á hverjum degi frá 6. maí nk. frá hádegi fram á kvöld.

  • Frekari upplýsingar er að finna á facebook viðburði Eurovision village.
  • Dagskrá Eurovision þorpsins er að finna hér.
  • Greta Salóme kemur fram í Eurovision þorpinu miðvikudaginn 11. maí kl. 17.45. Allir þangað með íslenska fánann!

Kungsträdgården--Photo-by-Lennart-Johansson

Euroclub er opinber skemmtistaður keppninnar – þar sem stjörnurnar djamma! Euroclub í Stokkhólmi verður í sérbyggðu 3.000 fm húsi á Skeppsbron við vatnið og fyrir framan Konungshöllina. Til að komast inn á Euroclub verður að vera með passa og í ár bauðst öllum meðlimum OGAE klúbba að kaupa sérstakan aðdáendapassa til að geta verið með í öllu fjörinu. Opið verður á Euroclub frá kl. 20 á kvöldin fram á nótt og í síðari viku Eurovision alveg til 5 á morgnanna! Dagskráin er mjög fjölbreytt – margir þátttakendur Eurovision koma fram á stóra sviðinu, Eurovision karaoke verður auðvitað á dagskrá, Melodifestivalen partý og fleira og fleira.

  • Frekari upplýsingar er að finna á facebook viðburði Euroclub.
  • Dagskrá Euroclub er að finna hér.
  • Við mælum með rauða teppinu fyrir framan Euroclub sunnudaginn 8. maí kl. 19. Þar gefst tækifæri til að hitta þáttakendur Eurovision áður en þeir halda til opnunarhátíðar Eurovision.
  • Stóra OGAE parýtið verður haldið á Euroclub miðvikudaginn 11. maí frá miðnætti. Viðburður sem enginn FÁSES-liði má missa af – fullt af listamönnum koma fram, þar á meðal hin eina sanna Sanna Nielsen!

Euro Fan Café er sérstakur skemmtistaður aðdáenda Eurovision sem OGAE klúbbarnir í viðkomandi landi skipuleggja (“the home of OGAE members”). Euro Fan Café verður haldið á sama stað og Euroclub í ár á Skeppsbron fyrir framan Konungshöllina. Euro Fan Café verður opið frá 11 til 20 frá 2.-14 maí. Þar verður hægt að sjá æfingar frá Globen á skjá og njóta fallegs umhverfis á Skeppsbron.

  • Frekari upplýsingar er að finna á facebook viðburði Euro Fan Café.
  • Dagskránna má svo nálgast hér.
  • Fimmtudaginn 5. maí verður Greta Salóme á Euro Fan Café kl. 19-19.30 að hitta aðdáendur. Allir að mæta með fánana!
  • Þriðjudaginn 10. maí verður Flosi okkar úr FÁSES með Eurovision Zumba með Gil frá OGAE Israel. Endilega skellið ykkur í æfingabuxurnar og hristu saman rassana við Eurovision tónlist frá kl. 13-14. Sjá facebook viðburð hér.

kort fyrir eurovision þorf og euroclub

Sérstakir viðburðir sem við mælum með

queenOkkar eina sanna Hera Björk frumsýnir stórskemmtilegt kabarettshow sem hún hefur unnið í samvinnu við Jonathan Duffy (einn úr Grétu-teyminu) laugardaginn 7. maí. Við fréttum síðan að óvæntir gestir myndu bætast í hópinn og nú hefur verið tilkynnt að Greta Salóme kemur fram með henni – tveir Eurovision dívur – við getum bara ekki beðið um meira. Meiri upplýsingar hér: Hera Björk / The Queen of Effing Everything.

Þriðjudaginn 10. maí verður nú aldeilis prógramm fyrir FÁSES meðlimi! Við byrjum á Eurovision Zumba á Euro Fan Café með Flosa okkar frá FÁSES og Gil frá OGAE Israel. Þau eru bæði þekktir Zumbakennarar í heimalöndum sínum og þá sérstaklega fyrir Zumbarútínur við Eurovisionlög (hver elskar ekki svoleiðis!). Sjá facebook viðburð hér.

Eftir að menn hafa skolað af sér svitann eftir Zumba ætla FÁSES liðar að hittast á Mosebacken í Södermalm til að fá sér einn eða tvo drykki fyrir fyrri undankeppnina, bera saman bækur, bíta í skjaldarendur fyrir Gretu Salóme og leggja lokahönd á fánalúkkið fyrir keppni. Sjá facebook viðburð hér.

Allir þekkja alþjóðlegu aðdáendasíðuna Wiwibloggs. Þeir munu halda svokallað Wiwi-Jampartý með fullt fullt af Eurovision listamönnum miðvikudaginn 11. maí hér á Hard-Rock í Stokkhólmi. Meðal annarra sem munu koma fram Greta Salóme, Sergey frá Rússlandi og Amir frá Frakklandi.

Eftir Wiwi djammið á miðvikudaginn halda að sjálfsögðu allir á Euroclub í stóra OGAE International partýið sem venjan er að hafa á miðvikudeginum í Eurovision vikunni. Í ár koma margir þekktir Eurovision þáttakendur fram, m.a. Sanna Nielsen frá Svíþjóð, Krista frá Finnlandi, Suzy frá Portúgal og Hungry Hearts sem sigruðu Eurovision aðdáendaheiminn í norsku undankeppninni í ár án þess að vinna. Það er nú aldeilis line-upið!