Í tilefni af 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision blés FÁSES til allsherjarkosningar meðal félagsmanna sinna um hvað þeim fannst um hitt og þetta í Söngvakeppni Sjónvarpsins og þátttöku Íslands í Eurovision. Kosningin var í tveimur hlutum. Við hverja spurninga voru gefnir nokkrir möguleikar en einnig var valmöguleiki að setja eigið svar. Fyrri hlutinn fjallaði um Söngvakeppni Sjónvarpsins og sá seinni um þátttöku Íslands í Eurovision. Spurt var meðal annars um bestu og verstu búningana í keppninni, eftirminnilegasta flytjandann, herra og frú Söngvakeppni sjónvarspins og bestu íslensku þulina.
Nú er komið að því að afhjúpa besta lagið sem keppt hefur fyrir Íslands hönd í Eurovision og besta lagið sem keppt hefur í Söngvakeppni sjónvarpsins. Þetta reyndist vera sama lagið eða Is it true frá 2009 í flutningi Jóhönnu Guðrúnar. Lagið er eftir Óskar Páll Sveinsson en texti er eftir Óskar Páll Sveinsson, Christopher Neil og Tinatin Japaridze. Is it true var auðvitað sigurlag í Söngvakeppninni hér heima 2009 og lenti eftirminnilega í 2. sæti í Moskvu á eftir Alexander Rybak. Lagið fékk 33% atkvæða í kosningunni yfir besta lagið sem keppt hefur í Söngvakeppni sjónvarpsins og 29% atkvæða yfir besta lagið sem keppt hefur fyrir Íslands hönd í Eurovision. Við fengum alla keppendur í Söngvakeppni sjónvarpsins 2016 til að syngja brot úr laginu og þetta hér er útkoman:
En nú skulum við aðeins kíkja nánar á niðurstöður kosningarinnar fyrir besta lagið sem keppt hefur í Söngvakeppni Sjónvarpins. Í öðru sæti þar á eftir Is it true var auðvitað Draumur um Nínu (í flutningi Stefáns Hilmarssonar og Eyjólfs Kristjánssonar, lagið er eftir Eyjólf), sem fékk 24% atkvæða. Í þriðja sæti var Þér við hlið eftir Trausta Bjarnason og Magnús Þór Sigmundsson frá 2006 í flutningi Regínu Óskar með rúmlega 9% atkvæða. Í fjórða sæti var svo Ég lifi í draumi eftir Eyjólf Kristjánsson frá 1986 í flutningi Björgvins Halldórssonar með tæp 6% atkvæða. 26 önnur lög voru nefnd til sögunnar undir “Annað”. Það sem var nefnt oftast var This is my life (4 sinnum) en þau lög sem fengu 2-3 atkvæði voru Aftur heim, Eitt lag enn, Í síðasta skipti, Mundu eftir mér, Fjaðrir, Hægt og hljótt og Andvaka.
https://www.youtube.com/watch?v=dtPuHFB9MOo
Ef við vindum okkur yfir í nánari niðurstöður kosningarinnar fyrir besta lagið sem keppt hefur fyrir Íslands hönd í Eurovision var jafntefli í 2-3. sæti á eftir Jóhönnu Guðrúnu! Lögin Draumur um Nínu og All out of luck (í flutningi Selmu, lag eftir Þorvald Bjarna en texti eftir Sveinbjörn I. Baldvinsson) voru bæði með 12,4% atkvæða. Í 4. sæti kom svo This is my life (í flutningi Regínu Óskar og Friðriks Ómars, lag eftir Örlyg Smára en texti eftir flytjendurna) með 10,6% atkvæða. Í 5. sæti var lagið Never forget (í flutning Grétu Salóme og Jónsa, lag og texti eftir Grétu Salóme) með 5% atkvæða en önnur fengu undir 5% atkvæða.
Þess má geta að sex lög fengu engin atkvæði sem besta lagið sem keppt hefur fyrir okkar hönd en það voru lögin Það sem enginn sér (1989), Þá veistu svarið (1993), Sjúbídú (1996), Angel (2001), Heaven (2004), Congratulation (2006).