Í tilefni af 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision blés FÁSES til allsherjarkosningar meðal félagsmanna sinna um hvað þeim fannst um hitt og þetta í Söngvakeppni Sjónvarpsins og þátttöku Íslands í Eurovision. Kosningin var í tveimur hlutum. Við hverja spurningu voru gefnir nokkrir möguleikar en einnig var valmöguleiki að setja eigið svar. Fyrri hlutinn fjallaði um Söngvakeppni Sjónvarpsins og sá seinni um þátttöku Íslands í Eurovision. Spurt var meðal annars um besta og versta lagið sem keppt hefur í Söngvakeppninni, bestu og verstu búningana í keppninni, eftirminnilegasta íslenska flytjandann í Eurovision ásamt fleiru eins og besta kynninn og bestu þulina.
Nú er komið að því að kryfja niðurstöður kosningarinnar fyrir lagið sem átti að vinna Söngvakeppnina en vann ekki.
Kosningin var nokkuð spennandi en Friðrik Dór með lagið Í síðasta skipti eftir StopWaitGo marði þetta að lokum með tæp 24% atkvæða.
Í 2. sæti með tæp 19% atkvæða var lagið Hugarró eftir Svein Rúnar Sigurðsson við texta Þórunnar Clausen í flutningi Magna Ásgeirssonar. Í 3. sæti var Eldur eftir Grétar Örvarsson og Kristján Grétarsson í flutningi Friðriks Ómars en það var í 2. sæti í Söngvakeppninni 2007 á eftir Ég les í lófa þínum. Í 4. sæti var Eurovísa Botnleðju frá 2003 og í 5. sæti var Lífið er lag Gunnlaug Briem, Friðrik Karlsson og Birgi Bragason í flutningi Módels frá 1987.
Tæp 19% aðspurðra nefndu reyndar annan möguleika en gefinn var upp í kosningunni. Þar voru tvö lög sem fengu afgerandi kosningu en það eru lögin Þér við hlið sem Regína Ósk flutti (8 sinnum) og Karen sem Bjarni Ara flutti (7 sinnum). Tvö lög til viðbótar voru nefnd oftar en einu sinni en það voru lögin Fjaðrir (3 sinnum) og Andvaka (2 sinnum).
Þessar niðurstöður FÁSES meðlima eru nokkuð frábrugnar niðurstöðum álitsgjafa Vísis sem birtist á dögunum. Þar var Eurovísa með Botnleðju frá 2003 í fyrsta sæti og Karen með Bjarna Arasyni frá 1992 í öðru sæti. Þrjú lög skipuðu þriðja sæti listans en það voru lögin Hvar ertu nú frá 2008 í flutningi Dr.Spock, Sólarsamba frá 1988 með Magnúsi Kjartanssyni og Ég lifi í draumi frá 1986 með Björgvini Halldórssyni.