FÁSES-liðar vilja velja þá keppendur sem höndla það best að vera Eurovision stjarna í Stokkhólmi í tvær vikur og þá sem verða landi og þjóð til sóma. Hvernig munu keppendur Söngvakeppninnar höndla lélega tæknimenn, trítilóða Eurovision aðdáendur og hina fáranlega ströngu tímadagskrá Jónatans Garðarssonar? Til að ganga úr skugga um það fór FÁSES.is á stúfana og lagði hraðaspurningapróf fyrir keppendur.
Nú er komið að Ernu Hrönn Ólafsdóttur og Hirti Traustasyni en þau munu syngja Hugur minn er eftir Þórunni Ernu Clausen í Söngvakeppninni annað kvöld. Það var alveg ferlega gaman að hitta þetta skemmtilega þríeyki sem er svo sannarlega tilbúið að heilla landsmenn upp úr skónum á laugardaginn og fara alla leið.
Hér er að sjálfsögðu um reynsluboltateymi að ræða: Þórunn fór með Coming home til Dusseldorf 2011. Erna Hrönn er sannkallaður Söngvakeppnisgúru (við bara getum ekki byrjað að telja upp lögin sem hún hefur sungið í keppninni!) og hefur m.a. verið bakrödd hjá Jóhönnu Guðrúnu í Moskvu 2009 og Heru Björk í Osló 2010. Hjörtur Traustason kemur svo sjóðheitur úr The Voice sem hann sigraði fyrir tveimur mánuðum síðan. Okkur þótti sérlega áhugavert að heyra hjá Þórunni að textinn við lagið, sem spilar á allan tilfinningaskalann, varð til áður en lagið sjálft var til. Þórunn er sjálf mikill Eurovision aðdáandi og við gleymdum okkur næstum í spjalli um Júróheima og Júrógeima áður en viðtalið sjálft hófst!
Við verðum svo endilega að segja ykkur frá því að Hugur minn er hefur verið gefið út á ensku sem I promised you then – endilega kíkið á það á youtube.