Mikið er um dýrðir þessa dagana hjá Ríkisútvarpi landsmanna. Í tilefni 30 ára þátttökuafmælis Íslands í Eurovision eru nú sýndir hinir stórgóðu heimildaþættir Árið er… Söngvakeppnin í 30 ár á laugardagskvöldum og fyrir jólin kom út fjögurra diska DVD safn um sama efnið (við Eurovision aðdáendur erum svo sannarlega dekruð um þessar mundir!). Nú nálgast einnig Söngvakeppni sjónvarpsins 2016 en fyrra undankvöldið verður haldið 6. febrúar og síðara undankvöldið 13. febrúar, hvorutveggja haldið í Háskólabíói. Úrslit Söngvakeppninnar verða haldin 20. febrúar næstkomandi og nú í Laugardalshöll þar sem menn hafa meira við vegna afmælisársins. Ragnhildur Steinunn, kynnir keppninnar í ár, hefur meira segja lofað erlendri stórstjörnu hingað til lands sem treður upp í Laugardalshöll (við erum að vona að það verði Conchita eða Loreen eða Mans eða…).
Tólf lög keppa um farmiðann til Stokkhólms í maí, þau eru:
- Kreisí. Lag: Karl Olgeirsson. Texti: Sigríður Eyrún Friðriksdóttir. Flytjandi: Sigga Eyrún. Sigga Eyrún keppti sælla minninga í súperfinalinum á móti Pollapönki árið 2014.
- Óvær. Lag og texti: Karl Olgeirsson. Flytjandi: Helgi Valur Ásgeirsson.
- Ótöluð orð. Lag, texti og flytjendur: Erna Mist og Magnús Thorlacius.
- Hugur minn er. Lag og texti: Þórunn Erna Clausen. Flytjendur: Erna Hrönn Ólafsdóttir og Hjörtur Traustason (nýkrýndur sigurvegari söngkeppninnar The Voice á Skjáeinum).
- Spring yfir heiminn. Lag: Júlí Heiðar Halldórsson. Texti: Júlí Heiðar Halldórsson og Guðmundur Snorri Sigurðarson. Flytjendur: Guðmundur Snorri Sigurðarson og Þórdís Birna Borgarsdóttir.
- Augnablik. Lag: Alma Guðmundsdóttir og James Wong. Texti: Alma Guðmundsdóttir, James Wong og Alda Dís Arnardóttir. Flytjandi: Alda Dís Arnardóttir.
- Óstöðvandi. Lag: Kristinn Sigurpáll Sturluson, Ylfa Persson og Linda Persson. Texti: Ylfa Persson, Linda Persson og Alma Rut Kristjánsdóttir. Flytjandi: Karlotta Sigurðardóttir.
- Fátækur námsmaður. Lag, texti og flytjandi: Ingólfur Þórarinsson.
- Á ný. Lag og texti: Gréta Salóme Stefánsdóttir. Flytjandi: Elísabet Ormslev.
- Raddirnar. Lag, texti og flytjandi: Gréta Salóme Stefánsdóttir.
- Ég sé þig. Lag, texti og flytjendur: Sigríður Eir Zophoniasardóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir. Lagið ku vera um flóttamenn svo það smellpassar í samfélagsumræðuna.
- Það er líkt og himinguðirnir hafi dálæti á FÁSES-liðum, sem óskuðu þess ekkert heitar á aðalfundi félagsins haustið 2015 en að Icy Tríóið tæki höndum saman fyrir Söngvakeppnina 2016 því hér er enginn annar en Pálmi Gunnarsson mættur sem flytur Ég leiði þig heim. Lag og texti: Þórir Úlfarsson.
Föstudaginn 15. janúar nk. hefst spilun laganna á miðlum RÚV og við getum svo sannarlega ekki beðið! Almenn miðasala á söngvakeppnina hefst á hádegi sama dag. FÁSES-liðar fá tölvupóst um forsölu miða á keppnina áður en almenn miðasala hefst.