FÁSES.is settist niður með sérfræðingunum Steinunni, Kristján og Ísak og spáði í spilin fyrir kvöldið. Nú hefur röð stigagjafa, þ.e. í hvaða röð löndin munu gefa stigin sín, verið gefin upp og getur það gefið góðar vísbendingar um hvernig kvöldið í kvöld mun fara. Þessi röð stigagjafa byggir á svokölluðu dómararennsli sem var í gærkveldi þar sem dómnefndir landanna gefa stig (gildir 50% á móti símakosningunni í kvöld). Síðan er raðað upp til að gera stigagjöfina sem mest spennandi fyrir okkur Júró-nördana!
Í fyrra var nokkuð augljóst eftir að röð stigagjafa hafði verið að kynnt að Conchita Wurst var að fara vinna. Stigagjöfin byrjaði á Austur-Evrópuþjóðum, færðist síðan yfir til þeirra landa sem eru þekkt fyrir að vera kaþólskari en páfinn og lauk síðan með frjálslyndu ríkjunum, t.d. Norðurlöndunum.
Um leið og við settumst fjögur niður og lásum upp röðina sögðu allir upp yfir sig að nú væru Svíar að fara taka þetta. Kristján bætti við að keppnin í kvöld verði sterk keppni milli fjögurra landa; Rússlands, Ítalíu, Svíþjóð og Noregs. Steinunn Björk segir að keppnin sé meira spennandi núna en hún hefur verið í langan tíma. Ísak hefur verið á þeirri skoðun frá því að Måns vann Melodifestivalen að hann myndi einnig taka Eurovision með trompi. Samt sé röð stigagjöf nú mjög tilviljanakennd og þá sé spurning hvort Ísrael sé að fara ná góðu sæti.
Þetta er röðin sem löndin munu gefa stig sín í kvöld:
- Svartfjallaland
- Malta
- Finnland (Krista Siegfrids sem keppti fyrir Finnland 2013 kynnir stigin)
- Grikkland (Helena Paparizou margreynd Júró-stjarna kynnir stigin)
- Portúgal (Suzy sem keppti í fyrra fyrir Portúgal kynnir stigin)
- Rúmenía
- Hvíta-Rússland (ostaköku-Teo kynnir stigin)
- Albanía
- Moldóvía
- Azerbaídjan
- Lettland
- Serbía
- Eistland
- Danmörk (Basim sem keppti fyrir Danmörku í fyrra kynnir stigin)
- Sviss
- Belgía
- Frakkland
- Armenía
- Írland
- Svíþjóð (Mariette Hanson kynnir stigin, hún var í 3. sæti í Melodifestivalen í ár)
- Þýskaland
- Ástralía
- Tékkland
- Spánn
- Austurríki
- Makedónía
- Slóvenía (Tinkara Kovač sem keppti fyrir Slóveníu í fyrra kynnir stigin)
- Ungverjaland
- Bretland (Nigella Lawson sjónvarpskokkur kynnir stigin)
- Georgía
- Litháen
- Holland
- Pólland (Cleo sem keppti fyrir Pólland í fyrra kynnir stigin)
- Ísrael
- Rússland
- San Marínó (Valentina Monetta kynnir stigin – það þekkja hana nú allir!)
- Ítalía
- Ísland (Sigríður Halldórsdóttir sjónvarpskona á RÚV kynnir stigin)
- Kýpur
- Noregur
Spennandi keppni í kvöld – góða skemmtun kæru landar!