Rússland vinnur – að minnsta kosti samkvæmt Advania!

Advania stóð fyrir skemmtilegum morgunverðarfundi í morgun. Ástæðan fyrir því að við fjöllum um morgunverðarfundi hjá upplýsingatæknifyritækjum hér hjá okkur í FÁSES er auðvitað sú að fundurinn fjallaði um Eurovision!

Á mælendaskrá fundarins voru þrír, þeir Kristinn Jón Arnarson ritstjóri vodafone.is, Felix Bergsson og Gunnar Steinn Gunnarsson hjá Advania. Fundarstjóri var svo Sigrún Eva Ármannsdóttir sem við munum auðvitað öll eftir þegar hún söng Nei eða já með Siggu Beinteins 1992.

Mæting á fundinn var sérdeilis góð og var mikið hlegið. Sigrún Eva sagði dásamlegar sögur frá undirbúning þeirra fyrir keppnina 1992 og sýndi búningana þeirra. Meðal annars kom fram að það hefði tekið þær Siggu þrjá mánuði að jafna hæðina á handahreyfingunum í dansinum því Sigrún Eva vildi alltaf fara með hendurnar allt of hátt en Sigga of lágt. Þá sagði Sigrún frá því að hún hefði alls ekki vilja láta klippa af sér sítt hárið sem hún var með þessum tíma og til þess að samræma útlit þeirra Siggu var því tekið upp á því að krulla á henni hárið á hverjum morgni og setja það upp.

Aðalástæða fundarins var þó ekki að heyra sögur frá Sigrúnu Evu heldur að fjalla um myllumerkið #12stig og tölfræðilegar spár í keppninni. Kristinn Jón frá Vodafone fór yfir sögu #12stig og sagði frá því hvað Vodafone hafði í huga þegar var verið að leita eftir góðu myllumerki til að halda utan um íslenska eurovision umræðu á twitter. Niðurstaðan var svo hið margfræga #12stig enda uppfyllti það öll þau markmið sem þeir settu sér, það er stutt, ekki tengt fyrirtæki eða keppendum, tímalaust og auðvelt í stafsetningu. Þá kom fram í máli hans að alls höfðu tístin undir #12stig í gærkvöldi verið 13.500 og  átti Ari Eldjár vinsælusta tístið.

Fyrir þá sem vilja vera góðir í tíst bauð Kristinn Jón upp á nokkur tístheilræði í boði Péturs Jónssonar ofur eurovision tístara! Þau eru eftirfarandi:

  1. Ekki mógða neinn eða níða flytjendur. Gerðu ráð fyrir því að þeir séu fyrir framan þig þegar þú tístir.
  2. Þetta er partí, settu hlutina í samhengi!
  3. Endurtístu (e. retweet) því sem þér finnst skemmtilegt.

Hann sagðist þó oft brjóta fyrstu regluna þegar um önnur atriði en Ísland væri að ræða en við bendum á að það er alltaf gott að vera nærgætin!

Gunnar Steinn Gunnarsson fór svo yfir hvernig hægt er að nota interntið til að spá fyrir um gengi laga. Setti hann upp reikningsdæmi út frá upplýsingum á Youtube og reiknaði sig svo áfram. Úrslitin voru kannski ekki alveg nákvæm en ansi nálægt því samt! Þættinir sem endurðu í formúlunni voru youtube áhorf, like á youtube, dislike á youtube, hlutfall like af heildaráhorfi. Samkvæmt þessari formúlu sem og  trendum á google sem Gunnar fór líka yfir er spá Advania fyrir topp 5 á morgun eftirfarandi:

  1. sæti – Ástralía
  2. sæti – Armenía
  3. sæti – Ísrael
  4. sæti – Albanía
  5. sæti – Rússland

Sannarlega áhugaverð spá og verður gaman fyrir tölfræðióða að sjá hversu nálægt úrslitunum hún verður.

Að lokum var rætt við Felix Bergsson á skype. Felix var í miklu stuði og sagði að áhorfendur mættu búast við miklu fjöri á laugardaginn og bætti við að hann gæti nú verið aðeins andstyggilegri í umfjöllun sinni fyrst Ísland væri ekki með. Aðspurður um gærkvöldið sagðist hann líta svo á að Ísland hefði ekki tapað heldur hefðu aðrir unnið og við ættum endilega að gleðjast með þeim og nefndi Letta og Kýpverja sem dæmi sem komust áfram en hafa ekki komist lengi.

Öllu þessu lauk svo með því að Advania óskaði eftir að fá mynd með fulltrúum FÁSES, Sigrúnu Evu, Kristni og Gunnar!

Kristinn Jón birti þessa dásamlega mynd af okkur FÁSES félögum og fór alveg hárrétt með nafnið okkar í fullri lengd!

Kristinn Jón birti þessa dásamlega mynd af okkur FÁSES félögum og fór alveg hárrétt með nafnið okkar í fullri lengd!

Sigrún Eva var á svo mikllli ferð að við náðum bara hreyfrið mynd!

Sigrún Eva var á svo mikllli ferð að við náðum bara hreyfrið mynd!