Hvað er að gerast á Íslandi í Eurovision vikunni? Eurovision karókí Símans!

vinirsjonna1

Vinir Sjonna. Mynd: Eurovision.tv

Nóg komið af fréttum frá Eurovision í Vín í bili – hvað er að gerast heima á klakanum? Síminn byrjaði með Eurovision karókí í fyrra (eins og FÁSES-meðlimir sáu í Fréttabréfinu sínu 2014) og nú er Júró-karókíð víst að slá allt hitt karókið út (öhhh við erum ekkert hissa!). Nú er víst búið að troðfylla Júró-karókið af djúsí lögum svo ykkur er ekki til setunnar boðið!

Lagið Aftur heim trónir nú á toppi vinsældalistans í karókíi Sjónvarps Símans. Sigurlag Svía frá árinu 2012, Euphoria, er í öðru sæti. Átta af tíu vinsælustu lögunum í karókíinu eru úr Eurovision. Aldrei hefur mánuður farið eins vel af stað og þessi maímánuður í karókíinu. Þegar hafa lögin þar verið spiluð 25 þúsund sinnum sem er örugglega eitthvað karókí met!

Bestu Eurovision-lög síðustu ára auk gamalla slagara úr keppninni bættust í safnið í byrjun mánaðarins. Finnsku tröllin Lordi með Hard Rock Hallelujah sitja í sautjánda sæti. Hollendingarnir í The Common Linnets eru í 25. sæti og svo virðist sem fáir treysti sér í spor sjálfrar drottningarinnar frá því fyrra; Conchita Wurst, því sigurlag hennar, Rise Like a Phoenix, nær ekki inn á topp 25 (af augljósum ástæðum!).

Ríkjandi drottning. Mynd: Eurovision.tv

Ríkjandi drottning. Mynd: Eurovision.tv

Framlag okkar Íslendingar frá því í fyrra, sem hefur verið vinsælast í karókíinu til þessa, er komið í sjöunda sæti.

„Eurovision-lögin slá öllu við, sem er afar skemmtilegt og greinilegt að fjöldi landsmanna hitar nú upp fyrir undankeppnirnar í Austurríki og aðalkeppnina á laugardag,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

„Við fórum varlega af stað með fjórtán íslenskum Eurovision lögum í karókíútgáfu í Sjónvarpi Símans fyrir ári síðan. Nú eru lögin í  karókíinu orðin 170, íslensk og erlend; partýsöngvar, ættjarðarlög og ballöður, og hafa þau verið spiluð nærri 275 þúsund sinnum.“

Eurovision á væntanlega eftir að spila stórt hlutverk hjá mörgum næstu dagana og samfélagsmiðlarnir loga þegar keppnirnar standa yfir á morgun, fimmtudag og laugardag.

„Þeir sem vilja fylgjast með Twitter-tístunum mega því ekki gleyma að ýta á bláa takkann á fjarstýringunni til að varpa þeim beint upp á sjónvarpsskjáinn.“