Júró-Gróa Vol. III

Júró-Gróa Babsan

Hver er betri Júró-Gróa en hin sænska Babsan sem keppti í Melodifestivalen 2011?

Það verður ekki sagt annað en að íslenski hópurinn er í Vín er skrýddur stórstjörnum. Friðrik Ómar er mættur á svæðið og hann ásamt Heru Björk og Selmu í öðru veldi hafa rakað inn samtals 303 stigum í Eurovision.

Meira af íslenskum Eurovision stjörnum. Því var fleygt hér í blaðamannahöllinni að Páll Óskar væri búin að taka frá tiltekna viku í febrúar – hvað ætli hann sé að gera þá? Við höldum allavega að hann verði þátttakandi í Söngvakeppni Sjónvarpsins á 30 ára þátttökuafmæli Íslands í Eurovision 2016!

Að öðrum æðibita. Menn eiga mjög erfitt með að átta sig á að Nadav frá Ísrael sé í alvörunni 16 ára. Júró-Gróa tók stutt spjall við formann OGAE Ísrael og hann kom með stutta dæmisögu til að reyna sannfæra Gróuna. OGAE Ísrael voru með aðalfund félagsins um daginn og þar sem ísraelsk lög banna að ungmenni 16 og yngri séu úti eftir kl. 23 á kvöldin þurfti að græja alla dagskrá upp á nýtt! Nadav þurfti auðvitað að vera kominn heim klukkan ellefu!

Þá á neikvæðari nótum: Myndatakan hjá ORF, austurríska ríkissjónvarpinu, er að misheppnast hjá öllum – nema Svíþjóð og Ástralíu. Það er á hreinu að ORF er ekki að fara eftir þeim handritum sem þjóðirnar hafa sent inn vegna myndatöku fyrir löngu, löngu síðan. Júró-Gróa veltir fyrir sér hvort jafnræðis sé í raun gætt þegar augljóst er að tvö lönd njóta ákveðins forgangs og fá það sem þeir biðja um. Gróa hvetur íslenska hópinn til dáða og láta leikstjórann heyra það!

Íslenski hópurinn drakk Partývakt FÁSES undir borðið. Uss uss þetta má nú alls ekki fréttast!

Og þetta var að berast Júró-Gróunni: Grískir fjölmiðlar segja að blaðafulltrúi Eurovision.tv, Jarmo Siim, hafi þrýst á grískan blaðamann, sem var að skrifa á neikvæðum nótum um Heroes, að halda áfram skrifum sínum í þeim tilgangi að fá Måns dæmdan úr keppni! Eurovision.tv neitar ásökunum en við sjáum hvað setur.