Partývaktin, vol III: Partý í þriðja veldi á Euroclub

Partývakt FÁSES.is lét ekki sitt eftir liggja í gær í partýstandinu enda var búið að bjóða í fjöldann allann af partýum þetta mánudagskvöldið. Við byrjuðum á því að detta óvart inn í lagahöfundapartý á Euroclub þar sem allir helstu höfundar Melifestivalen og Melodi Grand Prix voru á staðnum. Partývaktin var sérdeilis ánægð með fínu veitingarnar sem þarna var boðið upp á og skemmtilega spjallið við fólkið á bak við tjöldin, sem svo oft vill gleymast í keppandaæsingnum og glimmerinu.

Emma var svo mikið með þetta!

Emma var svo mikið með þetta!

Þar næst var haldið á tónleika með Emmu Marrone sem ítalska sendinefndin hélt. Emma er vel þekkt í sínu heimalandi og sungu Ítalirnir á svæðinu hástöfum með þegar hún tók sín vinsælustu lög. Þarna er á ferðinni hörku söngkona sem er með sviðsframkomuna á hreinu. Í einu laginu tók hún hendi eins áhorfanda og renndi niður með líkama sínum – úlalala! Hún endaði kvöldið á framlagi Ítala í ár og kvaddi alla með orðunum „This year I wanna win“!

Loks var haldið í hið árlega ísraelska partý sem haldið var til að fagna þjóðhátíðardegi þeirra. Það var augljóst af röðinni fyrir utan Euroclub að þarna var um að ræða vinsælasta partýið!

Langa langa röðin.

Langa langa röðin.

Eins og hefð hefur verið til var boðið upp á hefbundinn ísraelskan mat, falafel, hummus og hvaðeina. Eftir að menn höfðu gætt sér á veitingunum hófst dagskráin með látum. Twin Twin voru mættir með svona líka hressandi og skemmtilega sviðsframkomu sem má líkja við Retro Stefson okkar Íslendinga. Þeir tóku eitt af sínum eigin lögum og partývaktin var sammála um að það væri miklu betra en framlag Frakka í ár. Virkilega skemmtileg uppákoma hjá Moustache-mönnum og greinilegt að álit margra í salnum breyttist í garð Frakka þetta árið.

Herra yfirvaraskegg.

Herra yfirvaraskegg.

Næstar á svið voru pólsku stelpurnar með þennan undarlega mann í eftirdragi (hvað í ósköpum gerir hann eiginlega á sviðinu?). Þær tóku framlag sitt í ár We are slavic ásamt ísraelsku þjóðlagi.

Conchita átti kvöldið.

Conchita átti kvöldið.

Austuríska dívan Conchita var næst á svið og Euroclub gjörsamlega trylltist! Drottningin tók tvö lög, framlag sitt í austurísku söngvakeppninni frá 2012, That’s what I am og síðan lag sitt í ár, Rise like a Phoenix. Skemmst er frá því að segja að sungið var með hverju orði og partývaktin skilur núna tilfinningasemina í kringum Conchitu – hún snertir mjög við manni og ekki laust við eitt og eitt sandkorn læddist í augnhvarmana.

The Shin and Mariko frá Georgía, Tijana frá Makedóníu og Firelight frá Möltu stigu einnig á stokk en ekki er hægt að segja að eitthvert þeirra hafi verið eftirminnilegt. Allir tóku eitthvað ísraelskt númer og virkaði það pínulítið þvingandi á listamennina en var mjög skemmtilegt fyrir viðstadda sem tóku vel undir.

Mei Finegold frá Ísrael lokaði síðan kvöldinu með algjörum stjörnuperformance þar sem hún tók syrpu með sínu framlagi í ár, These Boots are Made for Walkin’ og Sweet Dreams. Partývaktin velti fyrir sér, í ljósi allra þessa skemmtilegu tónleika, hvort þetta sé árið þar sem mjög margir góðir flytjendur stíga á Eurovision-sviðið en eru kannski ekki allir með nógu góð lög til að skara framúr.

Mei Finegold.

Mei Finegold.

Þetta partý var greinilega ísraelskt!

Þetta partý var greinilega ísraelskt!