Allt að gerast í Eurovision.


Það er ekki allt búið enn. Júróvertíðin er á fúll svíng og nú ætlum við að glugga aðeins í hvað Svartfjallaland, Búlgaría, Hvíta Rússland og Ítalía hafa upp á að bjóða í ár.

Svartfjallaland – Inje – Vanja Radovanovic

Árin 2004 og 2005 voru Svartfjallaland og Serbía ennþá sameinuð í einu ríki, og keppti sem slíkt í fyrsta skipti í Istanbul, þegar að Zeljko “meistari” Joksimovic mætti með gullfallegu ballöðuna “Lane Moje” og gjörsigraði hjörtu um gjörvalla Evrópu. Eiginlega fann hann tæknilega séð upp BalkanBallöðuBlætið. Allavega er það heilkenni mikið til honum að kenna/þakka. Eftir að Svartfellingar hófu að taka þátt sem sjálfstæð þjóð árið 2007, hafa þeir aðeins tvisvar komist í aðalkeppnina, þrátt fyrir að hafa verið með mörg af epískustu framlögum keppninar frá upphafi! Hvernig gat Evrópa t.d dissað Rambo Amadeus, Who See og nú seinast Slavko Kalecic?! En allt í lagi, áfram með smjörið. Í bæði skiptin sem Svartfjallaland hefur farið áfram, var það BalkanBallaða sem kom þeim í aðalkeppnina og nú ætla þeir að láta reyna á BB-ið í þriðja skipti. Söngvarinn Vanja Radovanovic er 35 ára gamall og hefur verið í bransanum í fjölda ára. Hann mun flytja lagið “Inje” sem lauslega má þýða sem “Frost”. Lagið fjallar að sjálfsögðu um þá endalausu þjáningu að hafa elskað og misst, og Vanja greyið er hreinlega alveg frosinn af sorg og eftirsjá. Mjög dramatískt og sko sannkölluð BalkanBallaða hér á ferðinni. Nú er bara spurning hvort að Vanja verði sá sem nær að skjóta Svartfjallalandi aftur inn í aðalkeppnina. Allavega á þetta litla ríki allt gott skilið í lífinu!

Búlgaría – Bones – Equinox

Einu sinni var Búlgaría varla blíbb á radarnum hjá Evrópu. Bara enn eitt Austur-Evrópu ríkið sem virtist hreinlega ekki vera að fatta konseptið um Eurovision. Ætti sossum ekki að nefna nein nöfn sérstaklega í þá áttina en fyrsti stafurinn er “Krassimir Avromov og geðbiluðu bakraddasöngkonurnar hans árið 2009!!!” Búlgaría steig sín fyrstu spor í Eurovision árið 2005 og hafa verið með 11 sinnum. Þeir tóku sér tveggja ára hlé 2014 og 2015 en komu fílefldir til baka til Stokkhólms og virtust nú endanlega búnir að kveikja á perunni. Núna virðist vera kominn nokkurs konar gæðastimpill á Búlgaríu sem er frábært, en jafnframt svolítið skrítið í ljósi þess að af þessum 11 skiptum sem þeir hafa tekið þátt, hafa þeir aðeins komist þrisvar sinnum áfram. Fyrst árið 2007, en svo ekki aftur fyrren 2016 og 2017. En Búlgarir eru ekkert að “rétt svo slefa það” þegar þeir komast áfram á annað borð. Elitsa og Stoyan komust alla leið í 5. sætið í Helsinki, Poli Genova í 4. sætið í Stokkhólmi og Kristian Kostov gerði sér lítið fyrir og negldi niður 2. sætið í fyrra. Og nú er komið að sönghópnum Equinox sem var sérstaklega settur saman af búlgarska sjónvarpinu fyrir Eurovision. Hópinn skipa þau Zhana Bergendorff, Georgi Simeonov og Vlado Mihailov sem öll eru búlgörsk, en auk þeirra voru Bandaríkjamennirnir Trey Campell og Johnny Manuel fengnir til liðs við tríóið. Lagið “Bones” er draumkennd og dimm ballaða og er Trey sjálfur einn af höfundum lagsins. Búlgarir vænta mikils af þessum hóp, enda er undir þeim komið að toppa frábæran árangur Kristians Kostov. Verður það Sofia á næsta ári? Spurning…

Hvíta-Rússland – Forever – Alekseev

Elsku Hvíta-Rússland. Mest spes Eurovision land í heimi. Staðreynd. Hvít-Rússar hafa á heildina litið ekkert gengið neitt áberandi vel í Eurovision. En þeim hefur samt heldur ekkert gengið neitt átakanlega illa þannig séð. Þeir einhvern veginn eru bara þarna. Þeirra frumraun var hið ofurskrítna en jafnframt ótrúlega sjarmerandi “My Galileo” í Istanbul 2004. Engin skildi textann eða framburðinn hjá söngkonunni, en samt náði hún að heilla flesta, þótt svo lagið kæmist ekki upp úr forkeppninni. Það var bara eitthvað svo ótrúlega sætt við þetta allt saman. Hvít-Rússar hafa verið óslitið með síðan og fimm sinnum hafa þeir komist áfram í aðalkeppnina, fyrst árið 2007 þegar að Colgate krúttið Dimtry Koldun söng sig alla leið í 6. sætið með laginu “Work your magic”. Síðan fóru þeir áfram 2010, 2013, 2014 og nú síðast í fyrra þegar hin ofurhressu hjón í dúettinum Naviband flugu áfram. Hvít-Rússar hafa ætíð streist við að syngja á illskiljanlegri ensku (nema í fyrra), og það vill oft þvælast fyrir þeim. Það er líka alltaf smá drama í kringum framlögin þeirra. Oft hefur verið upplýst um svindl í forkeppninni í Hvíta-Rússlandi og einnig hefur forseti landsins, Alexander Lukashenko átt til að ráðskast fullmikið með málin þegar kemur að Eurovision. Alltaf stuð í Minsk! Keppandinn í ár er hinn 25 ára gamli Nikita Vladomir Alekseev, en kallar sig einfaldlega Alekseev. Hann er reyndar borinn og barnfæddur í Úkraínu, og það var auðvitað drama í kringum hann. En ekki hvað? Alekseev sótti fyrst um að komast í Vidbir, forkeppnina í heimalandi sínu, en dró seinna umsókn sína til baka og tók þátt í hvít-rússnesku forkeppninni í staðinn. Ekki nóg með það, heldur kom upp úr kafinu að hann hafði verið búinn að gefa lagið sitt út áður, en í lengri útgáfu og á rússnesku. En Alekseev fékk samt séns hjá EBU, eftir að hafa gert nauðsynlegar breytingar og gersigraði keppnina í Hvíta-Rússlandi, og er m.a.s búinn að fá grænt ljós og stuðningsyfirlýsingu frá Lukashenko forseta. Flutningi Alekseev á  “Forever” fylgdi mikið sjónaspil í forkeppninni og spurning hvernig Alekseev nær að tækla það í Lissabon, þar sem ekki verða LED-skjáir í boði hjá Portúgölum. Spennandi að sjá hvað verður!

Ítalía – Non mi aveta fatto niente – Ermal Meta og Fabrizio Moro.

Ciao Italia! Ítalía tók sér alltof margra ára hlé árið 1997 og bar því við að áhuginn fyrir Eurovision væri nánast enginn hjá almenningi. Sumir vildu nú meina að þeir væru bara einfaldlega í fýlu af því að þeir höfðu aðeins unnið tvisvar síðan keppnin hóf göngu sína árið 1956, en Ítalía var ein af þeim sjö þjóðum sem voru í “byrjunarliðinu”. Hvort það er satt eða ekki, verður látið liggja á milli hluta, en gleði aðdáenda var ósvikinn þegar Ítalía snéri aftur árið 2011 og trillaði sér með bravúr í 2. sætið. Síðan hafa þeir verið með, og eru í hópi þeirra fimm þjóða sem borga mest í EBU og þurfa því ekki að taka þátt í forkeppninni. Það er óneitanlega einhverskonar gæðabragur yfir framlögum Ítala. Þeir eru einhvern veginn bara svo…svo….svalir og oftar en ekki algjört eftirlæti aðdáenda. Tenóratríóið Il Volo komst í 3. sætið í Vínarborg (hefði sko unnið ef gamla stigakerfið hefði ekki enn verið í gildi) og gleðisprengjan Fransesco Gabbani tryggði sér ást og aðdáun margra í fyrra þegar hann valhoppaði með górilluapann sinn á sviðinu í Kænugarði. Í ár eru það vinirnir og samstarfsmennirnir Ermal Meta og Fabrizio Moro sem ætla að heiðra Eurovision með nærveru sinni, en þeir sigruðu Sanremo keppnina fyrr í vetur. Sanremo hefur verið árviss viðburður á Ítalíu síðan 1951 og er að mörgu leiti fyrirmynd Eurovision. En þeir sem sigra Sanremo eru ekki endilega sjálfkjörnir fulltrúar Ítalíu í júró, enda hefur sú keppni aldrei verið hugsuð sem forkeppni að Eurovision. Þeir sem hana vinna stendur vissulega til boða að taka þátt fyrir hönd Ítalíu í Eurovision en þeir ráða því algjörlega sjálfir. Meta og Moro voru sko meira en lítið til í að fljúga ítalska fánanum í Lissabon með lagið “Non mia aveta fatto niente”, sem gæti útlagst sem “Þú getur ekki gert mér neitt” á hinu ástkæra og ylhýra. Texti lagsins er tileinkaður hinum mörgu og hræðilegu hryðjuverkaárásum sem átt hafa sér stað í Evrópu á undanförnum árum og er nokkurskonar sameiningarskilaboð mannkynsins til þeirra sem ætla sér illt.. Þ.e þeir geta reynt eins og þeir vilja, en þeir geti aldrei sigrað okkur öll, því í sameiningu erum við sterkari og ástin mun ætíð sigra hatrið. Gjörólíkt “Namaste, Alé!” fílingnum hans Fransesco en feiknasterkt engu að síður.

Baráttusöngur gegn hryðjuverkum, hvít-rússneskt sjónarspil, melódískt popp og balkanballaða á la grand. Amen. Það verða gestgjafarnir í Portúgal, Rússland, Króatía og Tékkland sem fjallað verður um í næsta pistli.