Uku Suviste heppnari en allt – Eistar velja “The Lucky One” fyrir Rotterdam.


Eesti Laul er ein eftirlætis forkeppni margra og svo sannarlega var hún að gefa í ár. Tólf keppendur mættu til leiks og allt frá sýrupoppi til rapps mátti heyra og sjá á sviðinu og fjörið í Tallin skilaði sér margfalt heim í stofu. En það var sigurvegari Eesti Laul 2020, Uku Suviste, sem varði titil sinn fimlega og mun keppa í annað skipti fyrir hönd Eistlands með lagið “The Lucky One”, sem samið er af honum sjálfum í samstarfi við Sharon Vaughn, sem ekki er alveg ókunnugt nafn meðal Eurovision aðdáenda, því hún hefur átt þátt í ansi mörgum Eurovision lögum í gegnum tíðina, t.a.m “Waterline” með Jedward og lag Uku í fyrra, “What Love Is”.

En það var ekki bara Uku sem mætti aftur á svæðið. Það voru þónokkrir aðrir góðkunningjar á staðnum og yljuðu júróaðdáendum um hjartaræturnar, bara með nærveru sinni. Tanel Padar sást í einu innskoti milli laga, rokkhundurinn Ivo Linna sem margir muna eftir (og elska) síðan í Osló 1996, flutti lag ásamt syni sínum Robert, sem gaf pabba gamla ekkert eftir, dásemdin Jüri Pootsmann söng sig að vanda inn í hjörtu okkar og Koit Toome rataði sem betur fer beint heim til Tallin og var ekkert að taka eitthvað pit-stop í Finnlandi eins og Laura vinkona hans um daginn.

Flestir keppandanna voru samankomnir í Saku Suurhallen, og voru Eistar greinilega með puttann á púlsinum varðandi fjöldatakmarkanir og sóttvarnir, því sömu bakraddasöngvararnir voru í öllum lögunum og m.a.s. skiptust sumir keppendurnir á að vera í bakröddum hjá hver öðrum. Þegar ég segi “flestir keppendur” þá er það nákvæmlega þannig, því rapparadúóið Andrei Zevakin og Pluuto sem lentu í 5. sæti, höfðu af einhverjum ástæðum tekið sitt atriði upp fyrirfram og fylgdust með úr fjarlægð í gegnum Zoom. Við teljum að annar eða báðir hafi verið í sóttkví, þó svo ekkert hafi verið staðfest í þeim efnum.

Að vanda var atkvæðagreiðslan sambland af stigum alþjóðlegrar dómnefndar og stigum almennings og þrír stigahæstu keppendurnir fóru áfram í súperfínal. Leiðin var nú ekki beint bein og greið fyrir Uku, þar sem að dómnefndirnar voru ekkert að kaupa það neitt sérstaklega sem hann hafði fram að færa, því hann var aðeins í 6. sæti þegar henni var lokið. Sissi, Karl Killing og Andrei Zevakin og Pluuto voru í forystu. En þegar stigum almennings var bætt við, vænkaðist hagur Uku. Hann, Jüri Pootsman og Sissi voru stigahæst eftir það og kepptu aftur sín á milli í súperfínalnum og í kjölfarið var kosningin núllstillt. Eistar voru staðráðnir í að gefa sínum manni annað tækifæri og leikar fóru svo að Uku sigraði auðveldlega með rúm 46% atkvæða en Sissi varð í öðru sæti með lagið “Time” og Jüri þurfti að láta sér lynda þriðja sætið með “Magus Melanholia“.

Við fáum því að sjá meira af happagosanum Uku Suviste, sem er búinn að slaufa ballöðunni og snúa sér að taktföstu og sálarskotnu poppi. Ja, lukkan á drengnum!