Þriðji dagur æfinga í Lissabon


Í dag hefjast æfingar á atriðum sem keppa í fyrri hluta seinni undankeppninnar þann 10. maí. Að venju munu fréttaritarar FÁSES.is fylgjast með fyrstu æfingum og flytja fréttir af því sem fyrir augu ber. Þessi færsla verður uppfærð eftir því sem æfingum vindur fram hér í Altice Arena.

Noregur – Alexander Rybak syngur That’s How You Write A Song

Mynd: Julia Marie Naglestad

Sessunautar okkar í blaðamannahöllinni í dag eru norskir og þess vegna ríkti extra mikil spenna yfir fyrstu æfingu reynsluboltans Alexander Rybaks. Atriðið hefur lítið breyst frá Norsk Melodi Grand Prix og hann er með grafíkina með sér á skjánum. Alexander mætti í bláum jakka á sviðið sem hann fleygir fram í salinn þegar líður á lagið. Því miður fengum við ekki að sjá fyrsta rennslið, en í endursýningunni gátum við ekki betur séð en að hann ætti í erfiðleikum með að fara úr jakkanum. Alexander átti í einhverjum erfiðleikum með staðsetningu á sviðinu en það gerði ekki að sök, boltinn skaust út í áhorfendaskarann. Seinasta rennslið gekk vel og þar fengum við að sjá flugeldasýninguna og hvenær þeim verður skotið upp í atriðinu. Við söknum þess að Alexander horfi beint í myndavélina oftar í atriðinu – en vonandi er það eitthvað sem á eftir að laga.

Rúmenía – The Humans syngja Goodbye

Mynd: Ioana Chirita

Rúmenar ætla að dansa á línunni með reglum um fjölda keppenda á sviðinu, en með þeim á sviðinu eru 20 gínur. Cristina Caramarcu aðalsöngkona hljómsveitarinnar er klædd í fjólubláan kjól en aðrir hljómsveitarmeðlimir eru klæddir í hvíta spítala galla. Í blaðamannahöllinni er rætt um að hún sé aðeins of fínt klædd fyrir tilefnið, meira eins og hún sé á leiðinni á galaball heldur en að syngja rokklag. Eins og í undankeppninni heima í Rúmeníu er mikið um grímur á sviðinu, nema núna hafa dansararnir snúið grímunum við og eru með þær á hnakkanum í staðinn fyrir andlitið. The Humans hafa leitað innblásturs til Páls Óskars til að finna klæðnað handa gínunum sem eru í pallíettu heilgöllum. Ein gínan er þó nakin á sviðinu og við veltum fyrir okkur hvort að klæðnaðurinn á hana sé á leiðinni í pósti ásamt restinni af kjólnum á makedónísku söngkonuna.

Serbía – Sanja Ilić & Balkanika syngja Nova Deca

Mynd: RTS/Dušan Petrović

Breytingar hafa verið gerðar á hópnum á sviðinu hjá Sanja Ilić & Balkanika frá því í undankeppninni heima í Serbíu. Hljómborðsleikarinn Sanja Ilić hefur vikið af sviðinu fyrir auka bakraddarsöngkonu. Líklega er það til að styrkja söng annarrar aðalsöngkonunnar sem við höfum heyrt að sé ekki alveg nógu örugg í lifandi flutningi. En örvæntið ekki – flautuleikarinn epíski Ljubomir Dimitrijević „Einstein“ er á sviðinu og heldur uppi fjörinu eins og honum er von og vísa. Klæðnaðinum úr undankeppninni Beovizija 2018 hefur verið skipt út fyrir etnískari klæðnað – sem að okkar mati er ekki alveg að gera sig. Söngvarinn Mladen Lukić er komin í hnésíðan svartan stuttan kufl og söngkonurnar eru í mjög artí korselettum eða brynjum yfir gráu kjólana.

San Marínó – Jessika featuring Jenifer Brening syngja Who We Are

Mynd: Clint Gerald Attard

Örvæntið ekki! Róbótarnir komu með til Lissabon ásamt tveimur nýjum róbótum. Atriðið byrjar þar sem söngkonan Jessika er klædd í svarta skikkju sem dansararnir sem hafa bæst við atriðið klæða Jessiku úr. Undir skykkjunni var Jessika klædd eins og hún væri að fara að sitja fyrirlestur í bandarískum háskóla viku fyrir lokapróf. Getgátur eru uppi um það í blaðamannahöllinni að þetta geti ekki verið búningarnir sem þær ætli að vera á sviðinu. Ef þær hafa fengið ráðgjöf hjá Valentinu vinkonu okkar um klæðaburð þá eru þær til alls líklegar (munið eftir derhúfunni og íþróttagallanum sem hún klæddist í fyrra). Atriðið vakti mikla hrifningu hér í blaðamannahöllinni og þegar róbótarnir fóru að lyfta skiltum með skilaboðum á loft varð allt vitlaust og mikil fagnaðarlæti brutust út – hugsanlega meira af kaldhæðni en af hrifningu á laginu. Í lokin koma Jennifer og Jessika saman og mynda hjarta með fingrunum. Atriðið er fullt af klisjum sem er akkurat ástæðan fyrir því að við ELSKUM EUROVISION!

Danmörk – Rasmussen syngur Higher Ground

Mynd: Gustav Eurén/Philippe Jessen

Rasmussen er mættur til Lissabon með óbreytt atriði frá dönsku undankeppninni – enda algjör óþarfi að breyta því sem gott er. Stærsti munurinn er líklega að Jonas hefur farið í blástur og er allur snyrtilegri um hárið og við söknum íslenska fánans sem var í forgrunni úr áhorfenda skaranum í DMGP. Við treystum á að einhverjir íslenskir aðdáendur muni planta sér beint fyrir framan sviðið og veifa íslenska fánanum í af ákafa. Eins og í DMGP byrjar að snjóa í lok lagsins og kemur það betur út heldur en í DMGP. Held að það sé óhætt að veðja á að frændur okkar Danir muni fá stig frá Íslendingum.

Rússland – Julia Samoylova syngur I Won’t Break

Mynd: Channel One Russia

Það er óhætt að segja að mikil spenna hafi ríkt fyrir fyrstu æfingu Juliu frá Rússlandi. Þegar hún kom fram í fyrirpartýinu í Moskvu í byrjun apríl var söngurinn ekki nógu góður, en forsvarsmenn rússneska sjónvarpsins blésu á þann orðróm að hún hafi ekki sungið vel. Útskýringar á slæmu hljóði vour að bakraddirnar hennar hafi ekki komist í partýið og þess vegna hafi þurft að kalla út nýjar bakraddir með stuttum fyrirvara og þess vegna hafi lagið hljómað svona illa. En Julia er komin til Lissabon og greinilega með góðu bakraddirnar með sér því það er himinn og haf á milli flutningsins í Moskvu og hér á stóra sviðinu. Með henni á sviðinu eru þrjár bakraddir og tveir nútímadansarar. Júlía er staðsett upp á stórum kletti á miðju sviðinu sem líkist einna helst því sem eftir er af Kolbeinsey. Spurning hvort þurfi ekki að tjekka hvort að Kolbeinsey sé horfin og hvort Rússar hafi fengið hana að láni hingað til Lissabon. Margir bjuggust við að íslenskum fossum og eldfjöllum yrði varpað á klettinn eins og í myndbandinu hennar – en það varð ekki raunin. Í stórum hluta af atriðinu eru dansararnir í aðalhlutverki og mikið í myndum.

Moldóva – DoReDos syngja My Lucky Day

Mynd: Doredos

Vá! Móldóva kann sko að setja upp show! Atriðið hefur tekið góðum breytingum frá Moldóvsku undankeppninni og unnið er með sömu hugmyndina. Atriðið er fullt af húmor og gleðin í tíunda veldi. Í stað speglanna eru núna þrjár hurðir á sviðinu sem söngvararnir leika með, svo áhorfendur fá upplifunina um að þeir séu að horfa á ástralska sápuóperu um ástarþríhyrning. Söngvararnir eru klæddir í fánaliti Moldóvu rautt, gult og blátt. Kjóll aðalsö Ekkert hægt að setja út á dansinn eða sönginn. Í atriðinu er meðal annars dansað á lóðréttu dansgólfi og tvífarar söngvaranna mæta á sviðið. Í blaðamannahöllinni var klappað með laginu og mikið fagnað þegar fyrsta rennslið á æfingunni var búið – við erum ekki sammála um það hver hefur fengið mesta klappið í blaðamannahöllinni til þessa Austurríki eða Moldóva. Myndavélin var rangt staðsett allavega á einum stað í einu rennsli, en Jon Ola og félagar voru fljótir að kippa því í liðinn.

Holland – Waylon  syngur Outlaw In ‘Em

Name: Joost Keet/Bas van den Boom

Waylon vinur okkar úr The Common Linnets sem kepptu fyrir Holland árið 2014 er mættur til Lissabon með kántrí lagið sitt Outlaw In ‘Em. Ásamt honum er hljómsveit á sviðinu – eða það lítur allavega út fyrir það í fyrstu. Waylon er klæddur í hlébarða jakka með kúrekahatt á höfðinu. Hljómsveitin og Waylon standa á pöllum sem er með ljósum á sem fóru ekki í gang á æfingunni og þurfti að stöðva æfinguna og byrja aftur vegna þess. Þegar lagið er komið vel af sað fara óvæntir hlutir að gerast þegar hljómsveitarmeðlimirnir fara einn af öðrum að hætta að spila á hljóðfærin sín og byrja að breika einn af öðrum. Áður en þú veist af er hljómsveitin búin að ganga fráa hljóðfærunum og atriðið tekur óvænta stefnu og verður að fimleika sýningu.

Ástralía – Jessica Mauboy syngur We Got Love

Mynd: Peter Brew Bevan

Jessica Mauboy naut sviðsljóssins vel og skemmti sér greinilega vel á sviðinu. Hún var klædd í glimmer kjól sem vakti ekki mikla hrifningu blaðamanna sem tala um að hann hafi ekki hæft atriðinu vel. Á sviðinu er Jessica með sviðsmynd með sér sem svipar til ljóskastarans hans Benjamins frá Svíþjóð, en sviðsmyndin er mun minni hjá Jessicu. Jessica dansar mikið í atriðinu og á erfitt með að halda kjólnum á réttum stað, rétt eins og þegar hún kom fram í Ísrael. Spurning hvort að ástralska teymið þurfi ekki að kíkja í næstu teppaverslun hér í Lissabon og athuga hvort þau eigi ekki teppalím til að koma í veg fyrir að hún lendi í sama og Janet Jackson lenti í um árið. Það er mikið af flugeldum í atriðinu og vindvél í endann. Það heyrðist ekki nógu hátt í henni yfir tónlistinni en vonandi ná Portúgalir að laga það fyrir undankeppnina.