OGAE Big Poll 2018: Svona féllu stig FÁSES-liða


Á hverju ári framkvæma stærstu regnhlífarsamtök Eurovisionklúbba í heiminum, OGAE International, risastóra könnun sem nefnist OGAE Big Poll þar sem félagar aðdáendaklúbbanna velja sín eftirlætis Eurovisionlög í keppninni í ár. Þessi könnun er síðan m.a. notuð í veðbankasúpuna til að spá fyrir um sigurvegara keppninnar í ár enda hefur félagið innanborðs 44 aðdáendaklúbba með um það bil 15 þúsund meðlimum vítt og breitt um heiminn. FÁSES tilheyrir að sjálfsögðu OGAE International og nú hafa stig FÁSES meðlima í könnuninni verið kunngjörð:

  1. Ísrael, Toy – 588 stig
  2. Finnland, Monsters – 427 stig
  3. Frakkland, Mercy – 412 stig
  4. Danmörk, Higher Ground – 370 stig
  5. Tékkland, Lie To Me – 246 stig
  6. Svíþjóð, Dance You Off – 239 stig
  7. Ástralía – We Got Love – 234 stig
  8. Grikkland, Oniro Mou – 227 stig
  9. Kýpur, Fuego – 224 stig
  10. Eistland, La Forza – 201 stig

Næstu lög inn á listann á eftir Eistlandi voru frá Búlgaríu (11. sæti), Belgíu (12. sæti) og Aserbaídsjan (13. sæti). Eins og flestir vita er ekki heimilt að kjósa sitt eigið framlag svo Ari og Our Choice fékk ekkert stig. Keppnin í ár er greinilega jöfn því öll framlögin fengu einhver stig frá FÁSES liðum.

Hægt er að fylgjast með stöðunni í OGAE Big Poll á vef OGAE International. Ísland hefur ekki fengið stig eftir að 11 klúbbar hafa kosið. Í efsta sætinu trónir Netta frá Ísrael með næstum tvöfalt fleiri stig en Frakkar sem eru í 2. sæti. Saara Aalto frá Finnlandi er í þriðja sæti, Tékkland í því fjórða og Jessica frá Ástralíu í því fimmta. Þessi kosning aðdáenda er ekki alveg í samræmi við veðbankaspár sem spá jú Ísraelsmönnum sigri en þar á eftir koma Búlgaría, Tékkland, Eistland og Ástralía.