Ó já, lömbin mín. Þetta færist óðfluga nær og eins gott að fara að spýta í lófana. Eurovision í Portúgal er rétt handan við hornið og við höldum áfram að kynnast framlögum og keppendum ársins.
Rússland – I wont break – Yulia Samoylova
Rússland hefur alltaf dansað svolítið á grensunni í Eurovision. Þeir byrjuðu þó hægt. Komu í fyrsta skipti við sögu árið 1994 og 1995 án þess að skilja mikið eftir sig. Tóku sér svo hlé í eitt ár, komu aftur 1997 og tóku svo frí í þrjú ár. Árið 2000 var það Alsou sem að sýndi fram á að Rússar voru nú svossum ekkert að djóka með þátttöku sinni í Eurovision og endaði í 2. sæti á eftir Olsen bræðrum. Síðan þá hafa þeir alltaf verið með fyrir utan árið 2017 og unnið einu sinni, þegar Dima Bilan vældi sig til sigurs í Belgrad, með allsbera bringu og Ólympíumeistara á skautum á sviðinu með sér. Eftir að hafa farið í massamikla fýlu í fyrra án þess þó að viðurkenna að þeir væru í fýlu, eru Rússar nú mættir aftur á svæðið. Hin 27 ára gamla söngkona Yulia Samoylova átti að taka þátt fyrir þeirra hönd í Kænugarði, en lenti í heljarinnar veseni þegar upp komst að hún hafði haldið tónleika á Krímskaganum, en það landssvæði er mikið bitbein Rússa og Úkraínumanna. Nenni nú alls ekki að fara eitthvað djúpt í þetta, en í stuttu máli sagt urðu Úkraínumenn alveg brjálaðir og Rússar urðu ennþá brjálaðri og það endaði með að EBU þurfti að skerast í leikinn, sem varð til þess að Rússar drógu sig úr keppni, Úkraínumenn fengu sekt og Yulia fékk ekki að keppa árið 2017. En henni var þó lofað að í ár fengi hún að fara fyrir hönd Rússlands í Eurovision og það gerir hún svo sannarlega. Yulia mætir á svæðið með lagið “I wont break” sem er nokkurs konar sjálfsstyrkingaróður. Blessunin virðist nú ekki sérstaklega sterk í enskunni ef hlustað er vel, en hún er hörkusöngkona og lætur ekki deigan síga, þrátt fyrir að neikvæðnisraddir og leiðindi dynji reglulega á henni. Hún ætlaði sér í Eurovision og hingað er hún komin og hananú!
Portúgal – O Jardim – Cláudia Pascoal feat. Isaura
Loksins, loksins, loksins vann Portúgal! Eftir að hafa verið með í 53 skipti og aldrei komast hærra en 6. sætið, voru margir og þ.á m. Portúgalir sjálfir, búnir að gefa drauminn um Eurovision í Lissabon upp á bátinn. En svo kom þessi elska hann Salvador Sobral og rústaði, segi það og skrifa, RÚSTAÐI keppninni í Kænugarði. Vei!! Festival da Cancáo var ekki alveg laust við pínu drama í ár, en sá sem spáð var sigri upphaflega, hann Diogo Picarra, dró sig úr keppninni eftir að ásakanir þess efnis að hann hefði stolið laginu frá manni að nafni Walter McAllister fóru að láta á sér kræla og urðu ansi háværar kortér í keppni. Það tók Diogo nákvæmlega 3,5 sekúndur að ákveða að hann nennti ekki að standa í neinu veseni og ákvað því að draga sig úr keppni. Næst á eftir honum í “uppáhaldsröðinni” var hin 23 ára gamla söngkona Cláudia Pascoal með lagið “O Jardim” sem er ljúf og þægileg ballaða og rennur mjúklega í gegn. Cláudia deilir sviðsljósinu með lagahöfundinum Isauru, en hún samdi einmitt “O Jardim”. Isaura er nú samt ekkert að ota sínum tota að óþörfu en megnið af laginu situr hún a barstól og snýr baki í áhorfendur, en kemur svo sterk inn í seinna viðlaginu. Þær stöllur sigruðu Festival da Cancáo eftir æsispennandi einvígi við Catarina Miranda, en þegar atkvæði höfðu verið talin, voru Cláudia og Catarina hnífjafnar á toppnum með 22 stig. En þar sem Cláudia fékk “fleiri” 12 stig, var hún úrskurðuð sigurvegari og hún og Isaura munu því halda heiðri portúgölsku þjóðarinnar á lofti og það á heimavelli. Svolítil pressa en báðar þessar stelpur búa yfir þvílíkt stóískri ró, og eru sko bara alveg tilbúnar í slaginn!
Króatía – Crazy – Franka
Talandi um lagastuld! Það er gjörsamlega allt að verða vitlaust út af framlagi Króata í ár, en söngkonan Franka, sem er textahöfundur að laginu, hefur, ásamt meðhöfundum sínum, verið leynt og ljóst ásökuð um að hafa stolið laglínunni frá rúmenskum listamanni sem kallar sig Guez, en sá setti lagið inn á Spotify tveimur vikum ÁÐUR en lög keppninnar máttu heyrast opinberlega samkvæmt reglum EBU. Lagið var með öðrum titli og öðrum texta en laglínan sú sama. Franka sjálf sagði í yfirlýsingu að bæði lögin hefðu verið pródúseruð af sama manni og að “Crazy” hafi orðið til á undan og það sé Guez sem hafi stolið laglínunni. Rosa sápa í gangi! Þegar þessi orð eru rituð er enn óljóst hvort Króatía verði dæmd úr keppni, en Franka og hennar lið hafa nú þegar sagt að “Crazy” muni verða endurunnið í “svalari og klikkaðri” útgáfu sem gefur til kynna að eitthvað hafi nú hitnað undir þeim í þessum hildarleik. Reglur EBU eru skýrar varðandi það að gefa lögin út áður en leyfilegt er, en það er erfiðara að tækla málið þegar vissir hlutar lagsins, eins og t.d. laglínan hefur verið gefin út áður. En ef við ætlum nú að fá þetta á hreint, mæli ég með að fólk fari í smá Youtube einkaspæjaraleik og leiti uppi 80´s perlurnar “Love will tear us apart” með INXS og “Stop” með söngkonunni Sam Brown. Hlustið á þau, hlustið svo á “Crazy” og gerið upp hug ykkar um hver stal í raun frá hverjum. En nóg um það. Franka var valin innbyrðis af króatíska sjónvarpinu í febrúar. Hún er skrambi góð söngkona og ef Króatía fær að halda áfram á leið sinni til Lissabon, verður eflaust boðið upp á sjóðheita sýningu á sviðinu í Altice Arena.
Tékkland – Lie to me – Miklas Josef.
Tékkar hafa aldrei skorað hátt á vinsældarskalanum í Eurovision. Þetta er svolítið týnd þjóð ef satt skal segja. Þeir mættu í fyrsta skipti til leiks í Helsinki árið 2007 þegar þungarokkshljómsveitin Kabát var valin til að fara fyrir hönd landsins með hið ofurráma “Malá Dáma”. Árangurinn var nú ekkert til að hrópa húrra yfir, en sveitin lenti í allra seinasta sæti í undanriðlinum með 1 stig. Undanriðillinn það árið hefur nú reyndar síðan fengið viðurnefnið “Undanriðill dauðans”, enda kepptu 28 þjóðir um tíu sæti. EBU skipti því undankeppnunum í tvennt eftir það og hefur sú skipulagning haldist síðan. En aftur að Tékklandi! Þeir hafa aðeins einu sinni komist áfram í þau sex skipti sem þeir hafa tekið þátt. Tékkneska sjónvarpið ákvað að draga sig úr keppni árið 2009 og bar við litlum áhuga heima fyrir og kom ekki aftur fyrr en árið 2015. Það var svo árið 2016 sem fór aðeins að glaðna yfir forsvarsmönnum tékkneska sjónvarpsins, en Gabriela Gunciková var fyrsti keppandinn sem komst áfram úr undankeppninni. Gleði, gleði, gleði! Í ár er það söngvarinn og lagahöfundurinn Mikolas Josef sem ætlar að freista gæfunnar, og útlit er fyrir að hann verði farsælasti keppandi landsins frá upphafi, en hann er ofarlega í flestum veðbönkum. Hann semur sjálfur lagið “Lie to me”, texti lagsins var nú aaalveg á mörkunum með að teljast hentugur fólki yngra en 12 ára. En Mikolas er hress strákur og taldi nú ekki eftir sér að gera nokkrar breytingar til að þóknast EBU. Hann er obbosins fjölhæfur eins og áður sagði, en auk þess að vera söngvari og lagahöfundur, er hann líka upptökustjóri og framleiðandi þegar það á við. Hann segir sjálfur að það sé til að spara smá pening, þar sem hann (þegar þetta er skrifað) er ekki á samning hjá neinum. Það á þó pottþétt eftir að breytast, því áhuginn fyrir Mikolas og hans verkum er gríðarlegur eftir sigur hans í tékknesku forkeppninni, og m.a.s. hefur Filip Kirkorov sjálfur lýst því yfir að hann vilji vinna með Mikolas. Allar leiðir upp á við hjá Mikolas Josef og það er næsta víst að hans Eurovision velgengni verður skráð í tékkneskar sögubækur þegar fram líða stundir.
Styttist í annan endann á niðurtalningunni. Justin Timberlake danspopp, sjálfstyrking, krúttleg hipsterballaða og (mögulega) stolið lag var það í dag. Í næsta pistli ætlum við að skoða framlög Georgíu, San Marínó og Sviss. Þar til næst, elskurnar.