Það verður ekki annað sagt en að FÁSES hafi hitað vel upp fyrir Söngvakeppnina í ár! Herlegheitin byrjuðu föstudagskvöldið 2. mars þar sem FÁSES hélt Eurovision BarSvar í sal Samtakanna 78, kvöldið fyrir úrslitakeppnina. Þar sem Steinunn Björk Bragadóttir, Kristín Kristjánsdóttir og Kristján Jóhannes Pétursson (þ.e. Steina, Stína og Stjáni) eru þekkt fyrir að vita allt um Eurovision, sá FÁSES sér leik á borði og fékk þau til að semja spurningarnar, svo aðrir gætu látið ljós sitt skína. Einnig var skellt í einn leik af Kahoot, þar sem athyglisgáfa skiptir meira máli en staðreyndir. Dregið var í lið svo allir gætu kynnst betur. Liðið sem bar sigur úr býtum hét Team Moja Stikla og samanstóð af Önnu, Sunnu, Sólrúnu, Evu og Yair. Einnig voru veitt skammarverðlaun fyrir neðsta sætið, trésleif og lítil freyðivínsflaska, sem féllu vel í kramið hjá hlutaðeigandi.
Á laugardeginum var haldið í Eurovision-zumba í Reebok fitness, sem Flosi stýrði af sinni alkunnu snilld. Fullur salur af fólki hoppaði, skoppaði, söng og kom sér í stuð fyrir kvöldið.
Fyrirpartý FÁSES fyrir Söngvakeppnina var annað árið í röð í sal Félags tölvunarfræðinga í Engjateig. Þangað lögðu Eurovision-stjörnurnar Robin Bengtsson og Emmelie de Forest komu sína og gátu FÁSES-liðar heilsað upp á þau og fengið mynd af sér með þeim. Boðið var upp á dýrindis veitingar og Eurovision playlista í boði Ísaks Pálmasonar. Hópurinn rölti svo saman yfir í Laugardalshöll til að horfa á úrslitin.
Eftir úrslit Söngvakeppninnar þar sem FÁSES-liðar sátu á fremsta bekk var kominn tími til að halda fjörinu áfram. Haldið var á Ölver, sem búið var að breyta í Euroklúbbinn í Reykjavík, þar sem plötusnúðurinn Gloria Hole hélt uppi stuðinu. Fókus hópurinn steig á stokk og núverandi og fyrrverandi keppendur létu sjá sig. Góður rómur var gerður að þessu fyrsta eftirpartý FÁSES og ljóst að Euroklúbburinn er kominn til að vera í Reykjavík!
Kærar þakkir fyrir komuna og hlökkum til að sjá ykkur á næsta viðburði FÁSES.
Hér koma nokkrar myndir sem Flosi Jón Ófeigsson tók í BarSvarinu og fyrirpartýinu.