Aron Brink flytur lagið Þú hefur dáleitt mig eða Hypnotised á ensku í Söngvakeppninni næsta laugardag. Lag- og textahöfundar eru Þórunn Erna Clausen, Aron Brink, Michael James Down og William Taylor. Eflaust kannast margir við hinn brosmilda Aron en hann keppti í The Voice 2015. Þórunni Ernu þekkja allir Eurovision aðdáendur en hún hefur samið fjölda laga og texta sem keppt hafa í Söngvakeppninni (það væri nú að æra óstöðugan að byrja telja það allt saman upp!).
FÁSES.is ræddi við Aron Brink eftir æfingu nú á dögunum og spurði hann meðal annars hver munurinn væri á að keppa í Söngvakeppninni og The Voice, skoðun hans á tungumálareglunni og svo reyndum við okkar allra besta til að draga upp úr honum hvernig sviðsetningin verður. Aron segir að mest hafi komið á óvart í öllu þessu Söngvakeppnisferli hvað krakkanir eru fljótir að pikka upp lagið hans, sérstaklega á íslensku. Aron hefur meira segja fengið margar skemmtilegar útgáfur af laginu sendar frá krökkum héðan og þaðan og hvetur hann unga sem aldna að senda honum skemmtilegar útfærslur á laginu.
Að sjálfsögðu tóku fréttaritarar FÁSES Aron og teymið hans í smávegis sprell sem að þessu sinni var zumba-rútína sem Flosi hefur samið við Þú hefur dáleitt mig. Auk þess tók Aron fyrir okkur vel valdan Eurovision lagstúf sem allir ættu að þekkja.