FÁSES hittir Þú og ég hópinn

Þú og ég / You and I er eitt þeirra laga sem keppir í Söngvakeppninni næsta laugardag og er eftir Mark Brink. Hann hefur fengið einn af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar, Pál Rósinkranz, og eitt stykki færeyska söngdívu, Kristinu Bærendsen, til að flytja lagið. Páll er að sjálfsögðu vel kunnugur aðdáendum Söngvakeppninnar en Kristina er þekkt kantrí- og gospelsöngkona í Færeyjum sem hyggst brátt færa sig meira yfir í popptónlist.

Fréttarriturum FÁSES var boðið að hitta Þú og ég hópinn í huggulegu fjölbýlishúsi vestur í bæ þar sem ekki væsti um neinn – svo flottar voru mótttökurnar og veitingarnar. Við byrjuðum að sjálfsögðu að spyrja hópinn, sem samanstóð af Páli, Kristinu, Mark og Pétri Valgarð gítarleikara, hvernig lagið verður flutt á sviði næstkomandi laugardagskvöld. Í viðtalinu kemur einnig fram áhugaverð nálgun á tungumálareglu Söngvakeppninnar – ef flytja mætti lögin strax á ensku gætu lagahöfundar valið úr miklum fjölda flytjenda út fyrir landsteinana (svo sannarlega áhugavert!). Kristina segir okkur síðan frá því hvernig gekk að læra íslenska texta lagsins og hvernig standi á því að keppnin verði í beinni útsendingu í Færeyjum. Auðvitað fáum við síðan að heyra smá tóndæmi í lokin frá hópnum (í fullri lengd fyrir áhugasama hér).

Mark sagði okkur skemmtilega sögu af því þegar hann var að leita sér að gítarleikara fyrir þremur árum síðan og hafði samband við Magga Kjartans sem gaf honum nöfnin á þremur mönnum. Mark fer heim að googla og sér að einn þeirra, Pétur Valgarð Pétursson, kemur frá Bíldudal, þaðan sem móðurfjölskylda Mark er frá og ákveður að slá á þráðinn til hans. Þá er Pétur staddur á BSÍ með Jóni Kr. frá Bíldudal að gæða sér á sviðakjömmum! Og auðvitað hugsar Mark með sér að þarna sé kominn hentugur gítarleikari. Það fyndna er auðvitað að uppáhaldsmatur Kristinu eru íslensk svið!