FÁSES liðar halda áfram að fjalla um hvaða lög íslenskir Eurovision aðdáendur mega alls ekki missa af fimmtudaginn 21. maí þegar annar undanriðill Eurovision verður keyrður hér í Vín.
Noregur
A Monster Like Me er sett upp með svipuðum hætti og í Melodi Grand Prix í Noregi svo ekkert kom á óvart á æfingu þeirra hér í Wiener Stadthalle. Mørland og Debrah Scarlett eru vel æfð og fagmenn fram í fingurgóma. Reyndar var Debrah ekki upp á sitt besta á æfingunni í dag en við vitum að þetta snýst jú allt um dagsformið. Mørland lokkar áhorfendur til að horfa á skjáinn með allt að því stingandi augnarráði í byrjun. Það er þetta sem lagið hefur – áhrifamikið því söngurinn er góður en sviðssetningin mjög mínímalísk og lítil grafík á sviðinu. Bakraddirnar koma sterkar inn í lokakórusnum sem lyfta laginu mjög mikið upp. Júró-gæsahúðin alla leið.
Á blaðamannafundi strax eftir æfingu var mikið rætt um rautt hár Debrah. Hún var m.a. spurð að því hvort að það væri leynivopnið þeirra í Eurovision. Hún töfraði blaðamenn upp úr skónum, blikkaði öðru augunu og sagði að maður gæfi nú aldrei upp leynivopnin sín. Formaður norska aðdáendaklúbbsins (OGAE Norway) innti þau eftir því hvort þau væru ekki ánægð með að Alexander Rybak líkaði þeirra útgáfa af Fairytale en það er lag sem þau taka við mörg tækifæri hér í Vín. Þau eru svo sannarlega hæstánægð með það. Að lokum komu Mørland og Debrah öllum á óvart með því segja að í raun væri enginn munur á því að flytja lagið live með grand hljómsveit í Melodi Grand Prix og að flytja það hér í Wiener Stadthalle með back-up.
Ísrael
Golden boy með Nadav Guedj er að gera alla Eurovision aðdáendurna tryllta hér í Vín. Það er mjög mikil stemning fyrir laginu sjálfu og síðan er andrúmsloftið í kringum ísralesku sendinefndinni alveg einstakt í ár. Hér kemur á svið gullfallegur 16 ára söngvari í gylltum vængjaskóm (er gyllt fótaþema, sbr. María?) með epíska dansara með sér og á því leikur enginn vafi á að hann er KING OF FUN. Orðið í blaðamannahöllinni er að hér er ekki eingöngu um að ræða hýrustu heldur einnig dýrustu framleiðsluna á atriði í ár. Nadav leið vel á sviðinu í dag en við vorum aðeins að hugsa hvort hann hefði nokkuð farið seint að sofa daginn áður því hann geispaði mjög á sviðinu! Eflaust eru Ísraelarnir farnir að apa upp eftir Melodifestivalen í ár því í lok lagsins er tekin selfie eða réttara sagt groupie.
Það verður þó að segjast eins og er að bakraddarsöngvarar Nadav eru ekkert til að hrópa hátt húrra fyrir. Og eins og við höfum sagt svo oft eru myndatökumenn austurríska sjónvarpsins enn í ruglinu – þeir missa af mjög skemmtilegum danshreyfingum hjá Nadav (en kannski erum við bara farin að þekkja dansinn of vel…).
Á blaðamannafundi eftir æfinguna í dag var Nadav spurður hvort það væri ekki skemmtilegt hvað hann ætti marga samkynhneigða aðdáendur. Að mati Nadav er það ekki eitthvað sem skiptir máli – kynhneigð fólks skiptir ekki máli – „it‘s just good that we can all be happy together“. Hann heillar alla upp úr skónum með brúnu augunum sínum og það verður líka að segjast að dansarnir og bakraddirnar í ísraelska atriðinu eru ekkert ómyndarlegir sjálfir. Þeir leggja allir áherslu á að þetta er allt um: Music, music og party! Leið og þeir slepptu þessu orði spurði líbanskur blaðamaður hvort ekki væri hægt að byggja brýr á milli Líbanon og Ísrael í anda Eurovision. Eins og einhverjir vita hafa þessi ríki átt í deilum og geta Ísraelar ekki ferðast til Líbanon og öfugt. Það sem gerðist næst kom síðan öllum á óvart. Nadav sagði að það myndi fylla hjarta hans af gleði ef Eurovision þátttaka hans gæti byggt brýr á milli landanna tveggja. Því næst bauð hann líbanska blaðamanninum, sem þá var að því komin að fella tár, upp á sviðið og föðmuðust þeir innilega. Þetta snerti svo sannarlega við blaðamönnunum á staðnum og menn kepptust við að taka myndir af Nadav og Líbananum þar sem þeir héldu fánum landa sinna stoltir á lofti. FÁSES-liðar áttu ekki til orð yfir þessari uppákomu, svo áhrifarík var hún. Þetta er akkúrat það sem Eurovision snýst um!
Nadav talar mjög fína ensku og vakti það forvitni FÁSES.is. Við hittum á Aharon frá OGAE Ísrael og spurðum hann nánar út í málið. Að sögn Aharons talar Nadav þrjú tungumál; frönsku, ensku og hebresku (og í þessari röð) og hann hefur m.a. búið í París. Mörgum finnst einnig ótrúlegt að Nadav sé einungis 16 ára en að sögn kunnugra þá þykir ekkert furðulegt að vera orðinn svona þroskaður persónuleiki þegar þú elst upp í Ísrael. Að lokum er rétt að benda lesendum á að Nadav er gagnkynhneigður og á lausu!
Slóvenía
„Heyrnartólalagið“ Here For You á eftir að falla eins og flís við rass við smekk Íslendinga ef ég þekki íslenska Eurovision aðdáendur eitthvað. Menn eru bara fyrir svona nútímaleg og töff danslög! Það er ljóst að mikill metnaður er lagður í slóvenska framlagið í ár, alvöru tónlistarmenn og fagleikinn í fyrirrúmi. Marjetka er í hvítum brúðarkjól á sviðinu og eiginmaður hennar, Raay situr við píanó. Með þeim er á sviðinu er gullfalleg stúlka sem „leikur á“ fiðlu – þ.e. um er að ræða luft-fiðluleikara (við vitum, mjög skrýtið). Ein bakraddanna er Manca Špik, en hún hefur fjórum sinnum verið aðalsöngkona Slóvena í Eurovision og tvisvar sinnum í bakröddum. Enn einu sinni er myndatakan að koma illa út en sem betur fer bitnar þetta jafn illa á öllum keppendur. Vonandi gyrða Austurríkismenn og ORF í brók áður en keppnin byrjar fyrir alvöru því þetta er virkilega, virkilega slæm frammistaða á mikilvægasta frontinum.
Á blaðamannafundinum eftir æfingu Slóvena voru þau enn einu sinni spurð út í heyrnartólin. Maraaya (Marjetka+Raay=Maraaya) svöruðu spurningunni (þið eruð auðvitað búin að lesa og heyra svarið hundrað sinnum) en bentu kurteisislega á að allir blaðamenn væru búnir að fá kynningarefnið þeirra í dúfnaholurnar sínar (besti samskiptamátinn, samfélagsmiðlar hvað!) þar sem „Beginners guide to the Slovenian Entry in Eurovision“ væri að finna. Snyrtilega afgreitt hjá hjúunum – og þess má geta að press kittið er stórskemmtilegt! Strákarnir þeirra tveir eru búnir að njóta Vín með foreldrum sínum þessa síðustu daga en munu halda heim til Slóveníu á mánudaginn. Kannski hittir Partývaktin þau á djamminu – hver veit?