Íslenski hópurinn æfði í annað skiptið hér í Wiener Stadthalle í dag. Æfingin gékk þrusuvel og atriðið er að smella saman. Hera Björk er mætt til Vínar og því eru fimm í bakröddum hjá Maríu (Ásgeir Orri, Friðrik Dór, Íris, Alma og Hera). María og félagar negldu fyrsta rennslið á æfingunni og var mikið fagnað í blaðamannahöllinni. Það sést líka strax á stigatöflunni í kosningu blaðamanna hér í Vín þar sem Unbroken er nú í 7. sæti (í morgun vorum við í 10. sæti). Sviðsgólfið líkir eftir hrauni og þegar María gengur um myndast fótspor eftir hana. Það kemur mjög vel út, sérstaklega þar sem fætur Maríu hafa verið spreyjaðir gylltir. Sviðsgrafíkin er Norðurljós í öllum mögulegum litum – bláu, grænu, gulu, rauðu o.s.frv. María tyllir sér á sviðið og dreifir glimmeri um allt með sínum gylltu fingrum. Á æfingunni í dag var notast við annan kjól á Maríu en á fyrstu æfingunni, þ.e. alvöru kjóllinn var notaður. Sá kjóll sem María var í á fyrstu æfingunni var aðeins stand-in fyrir þennan alvöru! Bottom-line: María er að taka Saade-áhrifin á sjónvarpsmyndavélar og mun heilla Evrópu upp úr skónum með augnarráðinu einu!
Það verður þó að segjast eins og er að austurrísku myndatökumennirnir eru ekki alveg með á nótunum, í íslenska atriðinu sem öðrum. Ár eftir ár hefur Eurovision verið pródúserað af sænsku teymi sem vinnur mjög vel saman. ORF, austurríska ríkissjónvarpið, ákvað að í ár skyldi Eurovision vera austurrísk framleiðsla og þeir eru ekkert sérstaklega góðir, því miður. En við huggum okkur við að þetta á við um alla keppendur.
Á blaðamannafundinum eftir æfinguna söng María I want you back með Michael Jackson þar sem einhverjir blaðamenn höfðu komist á snoðir um að hún hafi tekið þátt í Jackson sýningu á Íslandi. Því næst var hún beðin um að taka eitthvað íslenskt og tók þá Líf með Sálinni hans Jóns míns. Það verður ekki tekið af stelpunni að hún nýtur sín best í söngnum! Enn og aftur spurðu blaðamenn út í skóskort Maríu. Hún sagði að best væri að vera berfætt því þannig fengi hún jarðtengingu. Einnig gerðu norðurljósin það að verkum að henni líður eins og heima hjá sér á sviðinu auk þess sem þau gefa henni orku og styrk. Að lokum var María spurð hvert væri uppáhaldslag hennar í keppninni og það svar kom fljótt og auðveldlega: Ástralía. FÁSES.is stóðst ekki mátið í framhaldinu og spurði íslensku stjörnuna hvor væri heitari; sænski söngvarinn eða sá ástralski. María sagði að þeir væru báðir jafnsætir! (hvað er það – Måns er svo miklu, miklu, miklu sætari en Guy!). Við endurtökum því við höldum að lesendur FÁSES.is hafi ekki náð þessu: Måns vs. Guy fyrir Maríu er bara svona 50/50. Þetta og fleira í stuttu viðtali sem FÁSES.is fékk tók við Maríu eftir aðra æfingu Íslands í Vín.