Mörg eru farin að huga að skipulagi vorsins og FÁSES berst fjöldi fyrirspurna um miðasölu fyrir Eurovision 2024. Þá er ekki úr vegi að rifja upp miðasölufyrirkomulagið og minna á að síðasti dagur til að ganga í FÁSES til að geta átt möguleika á kaupum á aðdáendamiðum í Svíþjóð er 2. október 2023. Sami frestur gildir fyrir FÁSES sem verða að vera búin að greiða félagsgjaldið 2. október nk. til að geta átt möguleika á aðdáendapökkum. Hér koma nokkrir gagnlegir punktar fyrir þau sem hugsa sér að fara á Eurovision í Malmö 2024.
Hvernig redda ég mér miða á Eurovision?
- Síðasti dagur til að ganga í FÁSES til að geta átt möguleika á kaupum á aðdáendamiðum í Svíþjóð 2024 er 2. október 2023.
- FÁSES hefur milligöngu um sölu svokallaðra aðdáendapakka til félagsmanna sinna.
- Aðdáendamiðapakkinn samanstendur oftast af miðum á allar þrjár keppnirnar sem sýndar eru í beinni útsendingu (alls 3 miðar fyrir hvern félaga).
- Í aðdáendamiðasölunni er ekki boðið upp á sölu einstakra miða, bara pakka. FÁSES hefur ekki milligöngu um sölu stakra miða á Eurovision.
- Það er mjög misjafnt milli ára hvort boðið sé upp á sæti eða stæði eða hvort tveggja fyrir aðdáendur.
- Þau sem hugsa sér að taka með sér börn á Eurovision skulu athuga sérstaklega hvort gestagjafar Eurovision setja sérstakt aldurstakmark á keppnirnar og hafa í huga hvenær keppnir hefjast að kvöldi og hvenær þeim lýkur.
- Til þess að eiga möguleika á að fá úthlutuðum forkaupsrétti á miðum á aðalkeppni Eurovision verða félagar að hlaða niður Cardskipper félagsskírteini í snjallsíma eða tölvu.
- Ef aðdáendamiðapakki hentar ekki æstum Eurovision-aðdáendum eru upplýsingar um almennu miðasöluna á aðalkeppni Eurovision að finna á vef keppninnar.
Hvað getur hver FÁSES-liði keypt marga miða í miðasölunni?
- Hver FÁSES-liði getur einungis keypt aðdáendapakka fyrir sig.
- Ef mörg ferðast saman og vilja kaupa miða verður hver og einn í hópnum að vera skráður í FÁSES til að eiga möguleika á miðum á aðalkeppnina.
Ef ég er í FÁSES, fæ ég þá pottþétt miða á aðalkeppni Eurovision?
- FÁSES getur ekki ábyrgst að öll sem óska eftir miðum fái þá í úthlutun. Við stjórnum ekki miðadreifingunni og fáum aðeins ákveðinn fjölda frá aðalskrifstofu OGAE.
- Aðdáendapökkunum er úthlutað á grundvelli félagsnúmera. Því gildir því fyrr sem þú skráðir þig í klúbbinn því betri líkur á að fá úthlutuðum aðdáendapakka.
- FÁSES getur heldur ekki ábyrgst að öll fái þá miða sem þau vilja. Vinsælustu miðapakkarnir eru á live-show í sæti og þeir pakkar fara langfyrst.
Hvernig gengur aðdáendamiðasalan fyrir sig?
- Síðasti dagur til að ganga í FÁSES til að geta átt möguleika á kaupum á aðdáendamiðum í Svíþjóð 2024 er 2. október 2023.
- Síðasti dagur fyrir FÁSES-liða til að greiða félagsgjöld til að geta átt möguleika á kaupum á aðdáendamiðum í Svíþjóð 2024 er 2. október 2023.
- Á hverju hausti sendir FÁSES út tölvupóst til félaga og biður þau sem áhuga hafa á aðdáendapakka að gefa sig fram. Á þessu stigi er ekki um bindandi skráningu að ræða heldur einungis könnun hjá OGAE International á því hversu marga pakka hver aðdáendaklúbbur þarf. Eftir þetta skref sendir FÁSES einungis tölvupósta um aðdáendamiðasöluna til þeirra sem hafa lýst yfir áhuga á miðakaupum.
- Innan nokkurra vikna biður OGAE International FÁSES um að staðfesta hversu margir félagar munu kaupa aðdáendapakka. FÁSES sendir þá póst til þeirra sem lýst höfðu yfir áhuga á kaupum, upplýsir um áætlað verð miðanna og biður þá um að staðfesta aðdáendapakkakaup. Hér er um bindandi skráningu að ræða. Í þessu skrefi þarf FÁSES-liði að gefa upp fullt nafn, netfang, FÁSES félagsnúmer, OGAE félagsnúmer í Cardskippper, upplýsingar um greiðslu félagsgjalda fyrir næsta ár, hvort hann óski eftir sæti vegna sérstakra aðstæðna og hvort hann muni ferðast með öðrum FÁSES-liða og vilji vera staðsettur í höllinni nærri honum (gefa þarf upp FÁSES félagsnúmer þeirra sem maður ferðast með).
- OGAE International lætur stjórn FÁSES vita hversu marga pakka klúbburinn fær. Stjórnin úthlutar aðdáendapökkum á grundvelli félagsnúmera og sendir þeim félagsmönnum sem fengu úthlutuðum aðdáendapakka miðakóða svo þeir geti fest kaup á miðunum.
- Í ágúst 2022 ákvað stjórn FÁSES að úthlutun aðdáendapakka til aðstoðarmanna FÁSES-liða með fötlun muni fara eftir félagsnúmeri hins fatlaða. Þetta er gert til þess að jafna aðstöðu þeirra FÁSES-liða sem búa við fötlun og eiga ekki þess kost á að fara á Eurovision án aðstoðarmanns. Aðstoðarmenn munu engu að síður þurfa að gerast félagar í FÁSES, greiða félagsgjöld og hlaða niður Cardskipper félagsskírteininu.
- Ákaflega mikilvægt er í öllu ferlinu að fylgjast mjög vel með tölvupósti. Best er að FÁSES-liðar gefi upp virkt netfang því oft þarf að bregðast við póstum frá FÁSES vegna aðdáendamiðasölu innan fárra klukkustunda.
- Stranglega bannað er að framselja staka miða eða miðapakkana. OGAE-samtökin áskilja sér rétt til að útiloka þá sem verða uppvísir að slíkri sölu frá því að kaupa miða í framtíðinni.
- Verði félagi uppvís að því að sækja um miða á aðalkeppni Eurovision í gegnum fleiri en einn OGAE aðdáendaklúbb missir hann forkaupsrétt á miðum á aðalkeppni Eurovision í gegnum FÁSES næstu tvö ár þar á eftir.
- Skipulagning miðasölu fyrir aðdáendur er misjöfn milli ára þar sem alltaf er nýr gestgjafi Eurovision á hverju ári. Því getur verið æði misjafnt hvenær miðasala hefst, hvernig fyrirkomulagið er og hvað miðar á aðalkeppnina kosta.
Er hægt að fá svona pakkadíl – miða, flug og gistingu?
- FÁSES hefur ekki milligöngu um flug eða gistingu á Eurovision enda er mjög misjafnt hvenær FÁSES-liðar vilja fara út og fara heim og hversu lengi þeir vilja dvelja í Eurovision-landinu hverju sinni.
Hvernig gekk aðdáendamiðasalan fyrir sig á Eurovision 2022?
- Á Eurovision 2022 var annars vegar hægt að fá aðdáendapakka með þremur miðum á öll live-show (fyrri undankeppni, seinni undankeppni og úrslitakvöld) og hins vegar aðdáendapakka með þremur miðum á öll dómararennsli (dómararennsli fyrri undankeppni, dómararennsli seinni undankeppni og dómararennsli úrslitakvöld).
- Boðið var upp á miðapakka í sæti og stæði.
- Miðapakkar á live-show kostuðu 550-950€ eftir því hvar í salnum þeir voru.
- Miðapakkar á dómararennsli voru á verðbilinu 170-350€.
Hvernig gekk aðdáendamiðasalan fyrir sig á Eurovision 2023?
- Á Eurovision 2023 var hægt að fá þrjá mismunandi pakka:
- 1) Þrjá miða fyrir einn á öll live show sem kostaði 960 pund
- 2) Þrjá miða fyrir einn á öll dómararennsli sem kostaði 700 pund eða
- 3) Þrjá miða fyrir einn á öll fjölskyldurennsli 350 pund.
- Boðið var upp á miðapakka í sæti og stæði
Allar upplýsingar um hvernig er hægt að skrá sig í FÁSES er að finna á FÁSES.is.