Hið ó svo hlutlausa örríki Sviss hefur þann heiður að vera eitt af upprunalegu keppnislöndunum í Eurovision en þeir héldu allra fyrstu keppnina árið 1956 og unnu hana í leiðinni. Næst unnu þeir svo árið 1988 þegar Celine Dion rétt marði sigur í Dublin og hlaut ekki bara verðlaunagripinn eftirsótta heldur netta heimsfrægð í leiðinni. En á seinni árum hefur róðurinn verið svolítið þungur hjá Svisslendingum og þeir hafa oftar en ekki setið eftir í forkeppnunum eða bara setið heima vegna lélegs árangurs. En stundum hitta þeir á rétta tóninn og hafa verið vinstra megin á stigatöflunni, en Luca Hänni söng sig í 4. sætið með „She got me“ og svo aftur árið 2021 þegar Gjon´s Tears rúllaði sér í 3. sætið með „Tout l´universe“. Í fyrra komust þeir að vísu áfram þegar tilfinningabangsinn Marius fullvissaði alla um að strákar grétu líka en uppskar þó ekkert meira en feitt núll úr símakosningunni og endaði í 17. sæti með einungis 78 stig. Fussumsvei bara.
Og enn og aftur ætlar svissneska sjónvarpið að treysta á ungan mann með englarödd, því söngvarinn Remo Forrer ætlar að freista gæfunnar með lagið „Watergun“ sem er áróður gegn stríði og óréttlæti. Remo er fæddur og uppalinn í kantónunni St. Gallen og er, þegar þetta er skrifað, 21 árs gamall. Hann, líkt og margir aðrir keppendur í seinni tíð, hefur verið iðinn við að keppa í ýmiss konar hæfileikakeppnum á borð við The Voice, en hann gjörsigraði einmitt þá keppni árið 2020 og var þar með kominn á blað hjá svissneska sjónvarpinu sem mögulegur keppandi. Og í febrúar var tilkynnt með pompi og prakt að Remo yrði svo sannarlega fulltrúi Sviss á stóra sviðinu í Liverpool og er það vel, því drengurinn er svo sannarlega með gullfallega rödd, eiginlega fallegustu rödd ársins, sem er algjörlega kalt mat greinahöfundar.
Margir ráku samt upp stór augu þegar “Watergun” var tilkynnt, enda fannst fólki það pínu súrrealískt að Sviss, sem er hernaðarlega hlutlaust ríki og er ekki einu sinni með herskyldu, væri skyndilega mætt á svæðið með ákall um frið, en það er nú bara þannig að maður þarf ekki endilega að vera þátttakandi til að hafa skoðun. Remo sjálfur segir: „Mín kynslóð er núna að takast á við afleiðingar ákvarðana sem við áttum engan þátt í að taka. Það er ótrúlega ergilegt, en við vonum samt að enn sé hægt að breyta einhverju“ og er þar t.a.m. að vísa í herskyldu og herkvaðningu ungra manna víðsvegar um heim, sem kallaðir eru til að berjast í stríði sem þeir hafa hvorki komið af stað né stutt að neinu leiti. „Watergun“ sé einfaldlega ákall um frið og það sé alheimsákall.
Lagið er samið af þeim Argyle Singh, Mikolaj Trybulec og Ashley Hicklin en sá síðastnefndi er engin aukvisi eða byrjandi þegar kemur að Eurovision en „Watergun“ er 7. lagið sem þessi breski lagahöfundur á þátt í að semja. Þar á undan var hann meðhöfundur að „Me and my guitar“ og „Mother“ frá Belgíu, „Run with the Lions“ frá Litháen, „Universo“ fyrir Spán, „Amen“ fyrir Austurríki og „River“ fyrir Pólland. Margslunginn og fjölhæfur tappi þar á ferð.
Remo og vatnsbyssan mæta á sviðið í Liverpool Arena þann 9. maí og mun vera í seinni hluta þess riðils. Og nú er bara að sjá hvort Sviss tekur fernu og kemur sér áfram í aðalkeppnina í fjórða skiptið í röð.