Slóvenar hafa ekki riðið feitum hesti frá Söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva frá því þeir hófu þátttöku 1993. Tvívegis hafa þeir náð 7. sæti, síðast árið 2001 og er það þeirra besti árangur í keppninni. Slóvenía komst síðast áfram í úrslitin árið 2019 með indípoppið Sebi og enduðu í 15. sæti en oftar en ekki hefur Slóvenía ekki komist áfram í úrslitin.
Í fyrra vann krúttkögglasveitin LPS (Last Pizza Slice) slóvensku söngvakeppnina EMA með lagið Disko en endaði í seinasta sæti í sínum undanriðli. Var þá tekin sú ákvörðun að slaufa EMA og að slóvenska ríkisstöðina RTVSLO myndi velja flytjanda fyrir hönd Slóveníu árið 2023. Þrátt fyrir að LPS hafi ekki gengið vel þá virðist RTVSLO enn trúa á krúttkögglahljómsveitir því í desember 2022 var tilkynnt að rokkhljómsveitin Joker Out myndi keppa í Liverpool fyrir hönd Slóveníu. Þetta eru fimm ungir piltar sem spila alternative rokk og hafa lög þeirra notið mikilla vinsælda í heimalandi þeirra, bæði verið hátt á vinsældarlistum og hlotið margvísleg verðlaun s.s. flytjendur ársins bæði 2021 og 2022, lag ársins árið 2021 og mest seldi artistinn 2022. Það verður því áhugavert að sjá hvernig Joker Out verður tekið í Eurovision.
Joker Out hafa verið viðriðnir Eurovision áður, söngvarinn í hljómsveitinni Bojan Cvjetićanin var í slóvensku dómnefndinni í fyrra og eru þeir allir yfirlýstir Eurovision aðdáendur en það var auðvitað Ruslana sem heillaði þá á barnsaldri með Wild Dances.
Það var síðan í byrjun febrúar sem lagið þeirra var frumflutt, Carpe Diem (Gríptu tækifærið), sem þrátt fyrir latneskt heiti er flutt á slóvensku enda sögðu hljómsveitarmeðlimir það mikilvægt að halda uppi vægi slóvenskrar tungu og syngja á móðurmáli sínu í Eurovision. Boðskapur lagsins er einfaldur, hvert svo sem lífið tekur þig þá er tónlistin og dansinn alltaf rétta svarið. Nokkuð sem Eurovision aðdáendur alls staðar hljóta að lifa eftir.