Eurovision-aðdáendum mun seint líða úr minni framlag Rúmena í Eurovision 2022; svo eftirminnileg var frammistaða WRS (borið from “uurs”) sem bað Evrópubúa vinsamlega um að hringja í sig og var þess vegna gælunefndur “rúmenski Frikki Dór” meðal íslenskra Eurovision-aðdáenda. Endaði hann í 18. sæti í Tórínó og var það besti árangur Rúmena síðan jóðlið fræga lenti í 7. sæti í Kænugarði 2017. Eins og sjá má af þessum tveimur lögum er gríðarleg breidd í rúmensku framlögunum og var því áhugavert að fylgjast með í kvöld hvaða lag yrði fyrir valinu.
Selecţia Naţională heitir söngvakeppnin í Rúmeníu og mætti þýða sem landsval á íslensku. Rúmenska landsvalið er ekki flókið; samanstóð af einu úrslitakvöldi og 12 keppendum. En það þarf nefnilega ekki að vera flókið og við erum barasta hálffegin að Rúmenía lét ekki verða af því að fara í mjög miklu fýlu út af dómnefndarskandalinum í Tórínu og hætta við þátttöku 2023 eins og þeir hótuðu að gera eftir að dómnefndarstig Rúmena voru dæmd úr leik af EBU á miðju úrslitakvöldinu vegna spillingar.
Fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar í Selecţia Naţională þetta árið vakti eftirtekt en þeir reiddu sig 100% á atkvæði almennings með hvoru tveggja símakosningu og kosningu á netinu. Hafa mörg spekúlerað að þetta séu viðbrögð TVR, rúmenska ríkissjónvarpsins, við deilum sem risu eftir síðustu söngvakeppni því WRS vann á grundvelli dómnefndaratkvæða sem höfðu 83% vægi.
Fyrsta lag kvöldsins hét “Call on me” og myndaði þess vegna fullkomna tengingu við framlag fyrra árs hvers viðlag útleggst “halló elskan, hringdu í mig, hringdu í mig”. Einn keppenda, Andrada Popa, hafði keppt í Junior Eurovision Song Contest 2008 en að öðru leyti var flytjendalistinn óþekktur hinum almenna júróaðdáanda. Eitthvað fengum við þó fyrir okkar snúð því einn kynnanna reyndist vera Ilinca Băcilă (Eurovision 2017) og á milli þess sem við heyrðum hana taka jóðlið fræga þá brast græna herbergið í söng þar sem hið klassíska júróframlag Tornero ómaði. Á meðan almenningur hamaðist við að kjósa í símtækjum og tölvum tók Ilinca okkar lagið. Auðvitað hafði okkar maður WRS opnað úrslitakvöldið með sigurlagi sínu frá því í fyrra og rétt áður en sigurvegari var krýndur kom hann aftur upp á svið og tók eitt af nýju lögunum sínum, Tu Nu Vrei.
Síðasta lag kvöldsins var einnig eftirminnilegt fyrir að vera kvenkynsútgáfa moldóvska framlagsins frá því í fyrra; í raun eðlilegt framhald í þessum hressa þjóðlagapoppstíl.
Það var hinn 19 ára gamli Theodor Andrei sem sigraði keppnina með lagið D.G.T. (Off and On). Theodor þessi hefur keppt í X Factor Rúmeníu og The Voice Rúmeníu Junior og meðan á útsendingu stóð hentu einhverjir virkir í athugasemdum gaman að líkindum hans og Damiano David úr Måneskin (Eurovision 2021). Titill lagsins D.G.T. er borið fram á rúmensku sem “degete” og þýðir fingur. Lagið fjallar um kunnuglegt stef; að vera ástfanginn og það er bæði sungið á ensku og rúmensku. Thedor lauk flutningi lagsins í kvöld með því að rífa sig úr ermalausa netabolnum og kom þá í ljós að skrifað var á bringu hans: “Make love not war”.
Rúmenía hefur tekið þátt í Eurovision síðan 1994 án þess að vera komin með sigur undir beltið. Það verður spennandi að sjá hvernig Rúmenum mun ganga í ár en þeir eru í seinni undankeppninni í Liverpool ásamt okkur þann 11. maí nk.