Þá er Spánn búinn að velja sitt framlag fyrir Eurovision 2023 í afar glæsilegri keppni sem lauk í gærkvöldi, þann 4. febrúar. Var það söngkonan Blanca Paloma sem hlaut sigur úr býtum með lagið sitt “Eaea”.
Keppnin var haldin í The Palau Municipal d’Esports l’illa de Benidorm og var ekkert til sparað. Þetta er í annað skiptið sem Spánn heldur Benidorm Fest til að velja sitt framlag fyrir Eurovision en keppnin byggist lauslega á þeirri söngvakeppni sem var haldin á Benidorm frá 1958 allt til ársins 2006 sem hafði Sanremo Festival á Ítalíu að fyrirmynd. Kynnar keppninnar að þessi sinni voru þau Inés Hernand, Mónica Naranjo og Rodrigo Vázquez. Manuel Carrasco opnaði keppnina og í hléi mátti sjá Ana Mena og kynninn Monica Naranjo flytja atriði. Chanel, sigurvegari Benidorm Fest frá því í fyrra og fulltrúi Spánverja í Eurovision 2022 var einnig á svæðinu og sá um að afhenda bikarinn til arftaka síns.
Fyrirkomulag Benidorm Fest var þannig að 18 lög voru gefin út um miðjan desember 2022 og var þeim skipt niður í tvær undankeppnir. Fjögur lög komust áfram úr hvorri undankeppni og því kepptu átta lög um sigurinn í lokakeppninni. Fyrri undankeppnin var þann 31. janúar og komust þá áfram lögin: “Quiero arder” með Agoney, “Yo quisiera” með Alice Wonder, “Mi familia” með Fusa Nocta og “Arcadia” með Megara. Seinni undankeppnin var svo þann 2. febrúar og þá komust önnur fjögur lög áfram og voru það lögin: “Eaea” með Blanca Paloma, “Nochentera” með Vicco, “Quiero y duelo” með Karmento og “Inviernos en Marte” með Jose Otero.
“Mi Familia” og “Quiero arder” virtust langvinsælust meðal aðdáenda og samkvæmt skoðanakönnun lesenda vefsíðunnar Eurovisionworld.com. Veðbankarnir spáðu svo honum Agoney sigri, þannig að einhverjum hefur sennilega þótt sigur Blöncu koma á óvart. En í öllum þremur keppnunum kom 50% stiga frá dómnefnd, 25% frá símakosningu og 25% frá lýðfræðilegri dómnefnd, sem sagt dómnefnd skipuð af fulltrúum almennings.
Eins og áður hefur komið fram sigraði Blanca keppnina með laginu sínu “Eaea”
Blanca er 33 ára gömul spænsk söngkona og er þetta ekki hennar fyrsta skipti að keppa í Benidorm Fest. Hún tók einnig þátt í fyrra með laginu Secreto de Agua. Hún hefur áður verið í hljómsveitum en steig sín fyrstu skref í sóló bransanum í fyrra og hefur núna gefið út þrjú lög. En Blanca hefur verið viðriðin Eurovision áður því systir hennar keppti fyrir Spán í Junior Eurovision árið 2003.
Lagið “Eaea” er vögguvísa og er texti lagsins beindur að barni. “Ó komdu til mín, barnið mitt” syngur hún. Lagið er hefðbundið spænskt lag og er í senn tilfinningaþrungið og kraftmikið. Blanca syngur einnig til ömmu sinnar í laginu um tónlistararfleiðina sem hún erfði frá henni. Blanca hefur haft orð á því opinberlega að það megi ekki taka texta lagsins of bókstaflega.
Í öðru sæti lenti svo söngvarinn Agony sem flestir voru búnir að spá sigri með lagið sitt “Quiero arder” eða “Ég vil brenna”.
Virkilega flott og spennandi keppni hjá Spáni í ár og verður gaman að sjá hvaða árangri Blanca muni skila þeim í Eurovision í ár.
Spánn er eitt af stóru löndunum fimm í Eurovision (The Big Five) og þarf því aldrei að fara í gegnum undankeppni. Þeir hafa tekið þátt 61 sinni síðan árið 1961 og hafa tvisvar sigrað, árið 1968 með laginu La La La og árið 1969 með laginu Vivo Cantando.