Þá hefur þriðja Eurovisionlagið árið 2023 litið dagsins ljós – og það fyrsta á árinu. Laugardagskvöldið 14. janúar fóru fram úrslit Eurosong í Brussel í Belgíu. Í vikunni sem leið, 9. – 13. janúar síðastliðinn, fór forvalið fram. Það fór þannig fram að sjö flytjendur fluttu tvö lög hver. Á hverju kvöldi voru flutt 2-3 lög og allir listamennirnir komust áfram í úrslitin með annað lagið sitt. Þeir réðu sjálfir hvort lagið yrði valið, en þáðu flestir ráð frá öðrum keppendum varðandi það.
Úrslitin fóru fram á laugardagskvöld eins og áður segir. Allir keppendur fluttu lagið sem þeir höfðu komist áfram með og auk þess tók hver þeirra eitt gamalt og gott Eurovisionlag. Valið fór þannig fram að almenningur hafði helmings vægi í símakosningu á móti dómnefnd. Dómnefndina skipuðu fjórir fagdómara sem eru vel þekktir í Eurovisionheiminum, sem gaf keppendum einnig endurgjöf eftir frammistöðuna, og ellefu aðrir dómnefndarmenn. Fagdómarar voru Alexander Rybak, Nikkie de Jager, Laura Tesoro og Jérémie Makiese sem var fulltrúi Belga í Eurovision í fyrra með lagið Miss You. Meðal keppanda var Tom Dice sem var fulltrúi Belga árið 2010 með lagið Me and My Guitar. Hann var hluti af dúettinum The Starlings sem hann skipar ásamt söngkonunni Kato Callebaut.
Dómnefndarmeðlimurinn og Eurovision sigurvegararinn Alexander Rybak tróð upp auk annars sigurvegara, hins hollenska Duncan Laurence. Meðal áhorfenda í sal var Hugo Sigal sem keppti fyrir hönd Belga í Eurovision fyrir 50 árum síðan. Árið 1973 flutti hann lagið Baby Baby ásamt eiginkonu sinni Nicole Van Pamel. Nicole lést í byrjun nóvember eftir erfið veikindi, en þau höfðu þá verði gift í nærri 51 ár. Hugo var hylltur á keppninni og fékk gott klapp frá áhorfendum.
Sigurvegari keppninnar var Gustaph Stef Caers með lagið Because of You. Hann vann reyndar hvorki dómnefndaratkvæðin né símakosninguna. Dómnefndin setti Gala Dragot í fyrsta sætið, en hún söng lagið T´inquiéte. Áðurnefndur dúett The Starlings varð efstur í símakosningunni með lagið Rollercoaster. En Gustaph kom best út samanlagt. Gustaph er 42 ára en var aðeins sjö ára þegar hann samdi lag fyrst og 19 ára þegar hann gaf fyrsta lagið út, en það var lagið Gonna Lose You. Gustaph var söngvari bandsins Hercules & Love affair í nokkur ár og er þeirra þekktasta lag Blind frá árinu 2006.
Höfundar lagsins eru Jaouad Alloul og Stef Caers. Mörgum finnst gæta áhrifa Georges Michael í laginu. Gustaph hefur áður komið að Eurovision. Hann hefur tvisvar verið bakraddasöngvari, fyrir Sekkek árið 2018 og Hooverphonic árið 2021, en hann var einnig raddþjálfari Geike Arnaert það árið.
Belgar eru í fjórða sæti yfir þær þjóðir sem hafa ofast keppt í Eurovision. Lagið í ár verður lag númer 64. Þeir hafa samt sem áður aðeins sigrað einu sinni, en það var árið 1986 þegar Sandra Kim söng svo eftirminnilega J´aime la vie. Þeir urðu svo í öðru sæti 2003 og eru þetta einu skiptin sem þeir hafa lent á topp þrjú. Síðastliðin tvö ár hafa þeir komist í úrslit fyrir tilstilli dómnefnda. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig Gustaphi á eftir að ganga.