Áramótaannáll Júró-Gróu – Part Deux


Og áfram höldum við á vegferð okkar aftur í tímann og smellum okkur í seinni hluta annálsins okkar góða. Júró-Gróan gæti nú bara vanist því að gera svona á hverju ári…nei, segi nú bara svona…

Það var nú aldeilis stuð og stemma í Póllandi. Þar vann látúnsbarkinn Krystian Ochman allt gillið með lagið “River”, sem var með smá vitsugukenndan blæ á sér. Og vitsugurnar hrelltu greinilega aðra keppendur í leiðinni, því fyrrum júródúllan Lidia Kopania, sem margir muna eftir frá Moskvu 2009, mætti á sviðið í Varsjá, heilaprumpaði algjörlega og kaus (að því er virðist) að syngja eitthvað allt annað lag en henni var uppálagt að gera. Þetta olli auðvitað úlfúð hjá sænsku tvíburasystrunum Lindu og Ylfu Person, sem sömdu lagið, og þær hótuðu einhverri oggoponsu lögsókn. Lidia sjálf (þegar hún rankaði við sér) vildi meina að hún hefði eingöngu tekið sér smá listrænt frelsi og sett sitt eigið mark á lagið og hafi aldrei viljað neinum illt. Ekkert meir hefur Gróan heyrt um málið, en það virðist hafa verið stormur í vatnsglasi. Enda var svosem ekkert mikið varið í lagið…

Úkraínumenn hleyptu Vidbir af stokkunum og þar var nú ekki alveg dramafrítt, því Alina Pash sem vann keppnina með hinu eitursvala “Tini zabutykh predkiv” var skyndilega dæmd úr keppni því það kom upp úr kafinu að hún hafði ferðast til Kyiv í gegnum Krímskagann og logið til um það. Má þetta bara? spyr Gróan. Greinilega ekki, því Alina fékk að fjúka med det samme og lagið sem varð í öðru sæti, “Stefania” með fimmmenningunum í Kalush Orchestra fengu miðann til Tórínó. En við vissum ekki þá, hversu skammvinn sælan eftir sigurinn í Vidbir var fyrir strákana. Örfáum dögum eftir keppnina réðust Rússar inn í landið og framhaldið vitum við.

En áfram með smjörið. Spánverjar hafa nú aldrei verið þekktir fyrir einhvern rosa undirbúning fyrir keppnina, en venjulega hafa forvölin þeirra verið 19 tíma spjallþættir þar sem kallað er t.d. í miðla til að ná sambandi við látna ömmu keppenda (án gríns) og haldin blautbolakeppni (grín). En núna var öllum smalað til paradísareyjunnar Benidorm og blásið til heljarinnar tónlistarveislu, þar sem m.a. stigu á stokk flamíngódúettinn Azucar Moreno sem eru ELSKAÐAR í júróheiminum. Gróan þakkar sínu sæla að hafa náð að sannfæra þær Ecörnu og Toni um að taka flamingóflippið sitt alla leið til stjarnanna, þegar hún málaði Madríd rauða með þeim stöllum um miðbik 9. áratugarins. En spænskur almenningur kann sko ekki gott að meta, hvað þá gott með reynslu, því þessar gömlu vinkonur mínar komust ekki í aðalkeppni Benidorm Fest. Þess í stað sprangaði dansdúllan Chanel alla leið í fyrsta sæti, mörgum að óvörum, og sú átti nú eftir að kynda rækilega undir Evrópubúum og Áströlum… herregud! Og náði bara besta árangri Spánverja síðan á seinustu öld í leiðinni. Dios mio hvað það urðu allir glaðir.

Eftir mýmörg fyrirpartý þar sem Gróan var ávallt fluga á vegg, var loksins komið að aðalpartýinu. Gróa er alþýðleg upp að vissu marki, en hún hatar að ferðast á almenningsrými og þar sem hún hefur nú sambönd, voru innkallaðir nokkrir greiðar frá gömlum kærasta (Gróa má ekki alveg segja hver það er en fyrsti stafurinn í nafninu hans er Toto Cutugno) og flaug með einkaþotu til Langbarðalands. Og mikið var dásamlegt að stíga á ítalska grund og byrja partýið með einum ísköldum Aperol Spritz. Og maður minn, hvað það var mikið gúrme framundan.

Júróvikan byrjaði með hvelli, þegar Ronela vinkona okkar frá Tirana hóf æfingar. Og hún var nú ekki að skafa utan af því. Í fyrsta skipti í sögu Eurovision var alvarlega rætt um að ritskoða flutning frá A-Ö og Gróan laumaði sér inn á einn fund með EBU og það er bara þannig að hann Martin Österdahl hræðist óbeislaða kyntjáningu kvenna. Hans orð, ekki Gróunnar.  Þeir bökkuðu nú með þetta á endanum og Ronela fékk að halda atriðinu óbreyttu. Ekki að það færi eitthvað betur í skapið á henni, því hún mætti brjáluð til Tórínó og sló aldrei af. Skiljanlega að mörgu leiti, því ítölsku sviðsmennirnir voru ekki að henta henni (eða neinum öðrum ef því er að skipta) því hún var í endalausu rifrildi við þá og eiginlega bara alla sem á vegi hennar urðu. Og margt af því átti nú rétt á sér, því það var alkunna frá því að lent var á ítalskri grund, að sviðið í Pala Olimpico var EKKI að standa undir þeim væntingum sem búið var að gera. Það lærðu flestir að segja: “Það er allt í steik” á ítölsku áður en tveir dagar voru liðnir af fyrri vikunni. É tutto pazzo! En Ronela átti í útistöðum við albanska sjónvarpið líka, því henni fannst þeir hefta listrænt frelsi hennar. Það gekk svo langt að hún biðlaði til allra að kjósa ekki lagið því þetta væri allt saman algjört drasl. Henni varð svosem að ósk sinni því “Sekret” fór ekki áfram og Ronela virðist vera að eilífu út í kuldanum hjá albanska sjónvarpinu. Assans vandræði.

Eins og áður sagði, voru norsku geimdúllurnar í Subwoolfer ekki alveg hættir að hræra í almenningi. Fjölmiðlar þóttust hafa himins höndum tekið þegar það sást til TIX, fallna engilsins okkar frá Rotterdam, íklæddan geimbúningi og nú átti sko aldeilis að skúbba! En Gróan lætur nú ekki glepjast svo glatt, enda var hún nýbúin að spjalla við þá Jim og Keith (lærði sko geimúlfamál því annars kemst maður ekkert áfram í lífinu) og þeir vildu nú ekkert kannast við þetta. Sögðu hann einfaldlega bara vera haldin smá búningablæti og langað að prófa. Enda kom upp úr kafinu að þegar téður TIX átti að vera á sviðinu í undankeppninni, var okkar maður bara að dúllast með henni Efendi sinni á áhorfendapöllunum. Svekk fyrir þá sem féllu fyrir þessu. Æ æ.

Það var ekki bara albanski keppandinn sem ruggaði bátnum. Michael Ben David heitir ungur spjátrungur frá Tel Aviv sem, fram að ísraelsku forkeppninni, hafði verið pokastrákur eða á kassanum hjá ísraelska Nettó eða eitthvað svoleiðis, og hann ákvað fyrsta daginn í Tórínó að heimurinn snerist um hann og engan annan. Þetta féll skiljanlega ekki vel í kramið, hvorki hjá ísraelskum aðdáendum, ísraelska sjónvarpinu eða bara neinum. Drengstaulinn var með stæla allan tímann og beit svo höfuðið af skömminni með því að ryðjast inn í mynd með kynnum keppninnar, þeim Mika, Lauru Pausini og Alessandro Cattelan og vera bara alhliða leiðindapési. Gróan, ásamt fleirum, var hreint út sagt hneyksluð yfir þessari framkomu og vonandi hefur stráksi fengið góðar skammir frá móður sinni þegar heim var komið. Skammastín bara!

Talandi um að skammast sín. Eða öllu heldur að kunna ekki að skammast sín. Það bárust ljótar fréttir frá rauða dreglinum, þegar upp komst um ansi vafasamt athæfi eins af belgísku dönsurunum, sem gerðist full nærgöngull við einn af sjálfboðaliðum keppninnar. Svo nærgöngull að EBU var kallað til og þurfti að ákveða í snatri hvort viðkomandi dansari fengi að vera partur af atriðinu áfram. Svo fór að kauði fékk að vera áfram en ekkert hefur frést af elsku sjálfboðaliðanum sem annaðhvort þurfti að vinna áfram í návist við þann sem braut á honum/henni/hán eða fara bara heim og EBU varðist allra fregna. Málinu virðist hafa verið sópað undir teppið og í kjölfarið var ákveðin hrútafýla af atriði Belganna. Gróan finnur sig knúna til æpa “GASLÝSING”! Fussum svei og fussum svei!

En það var ekki allt svona ömurlegt, elskurnar mínar. Þið hljótið að halda að það sé farið að slá í Chianti flöskuna hjá Gróu, þegar hún er orðin svona neikvæð. En Gróan er sólskinið sjálft, líkt og sjarmaboltinn breski hann Sam Ryder sem gjörsamlega bakaði alla með heillandi framkomu og rödd sem hlaut að vera komin frá Guði sjálfum. Það sem drengurinn er löðrandi í sjarma og notalegheitum. Gróan þurfti bara oft á tíðum að draga upp blævænginn, því á þeim tíma var bara ekki til nóg Aperol Spritz í Tórínó til að kæla kellu niður. Jidúddamía barasta! Það eina sem stóð í vegi fyrir Sam og löngu tímabærum sigri Breta, voru sex aðrir sjarmaboltar, vopnaðir flautu og bleikum hatti.

Jújú, þarna voru elskurnar frá Úkraínu sem komu, sáu og gjörsigruðu keppnina, og það var eiginlega svolítið ljóst frá upphafi í hvað stefndi. Meira að segja Sam Ryder spáði þeim sigri og var sá fyrsti sem samgladdist þeim innilega með sigurinn. Og það gerði alþjóðasamfélagið líka. Og Gróan er ennþá að þurrka tárin úr augnkrókunum og það hefur ekkert með augnskuggann frá Kylie Cosmetics að gera (þeir eru drasl, ekki kaupa þá. Hlustið á Gróu frænku). Vegna aðstæðna í Úkraínu var auðvitað óðs manns æði að flytja keppnina, blaðamenn, sviðsfólk, aðdáendur o.s.frv. alla leið til Kyiv, svo Bretar tóku að sér að halda keppnina fyrir hönd Úkraínu og munum við því flykkjast til Liverpool í maí. Gróan hefur nú alltaf verið svolítið svag fyrir scouser hreimnum og hlakkar því rosalega til. Hún er m.a.s. búin að redda sér gistingu hjá Paul Hollywood, sem hefur lofað að baka glútenlausa brauðhleifa á hverjum degi sem tákn um væntumþykju og alkunna norður enska kurteisi.

En nú er komið nýtt júróár, sem í anda vonar og jólaanda var startað á viðeigandi hátt í Úkraínu. Í skugga stríðs og loftárása frá Rússum, héldu Úkraínumenn gasalega lekkera keppni í neðanjarðarbyrgi í Kyiv. Og hafið það í huga framvegis þegar einhver evrópsk ríkisstöð (hóst, RTÉ, hóst!) kvartar yfir því að vera ekki í standi til að halda flotta forkeppni. Að mati Gróunnar getið þið bara troðið slíkum aumingjaskap þangað sem ítalska sviðssólin skín ekki. Og hana nú! Það var auðvitað ekki aaaaalveg dramafrí keppni þarna úti, enda er dramafrí keppni í Austur-Evrópu álíka og ódýra kassavínið sem reynt var að pranga inn á Gróuna á Glastonbury 2002. Það er eitthvað rangt við það. Söngkonunni Krutb, sem spáð var sigri nánast allan tímann, var þvert um geð að lúta nokkuð óvænt í lægra haldi fyrir úkraínsk/nígeríska rafdúóinu Tvorchi og laginu þeirra “Heart of Steel”, en eftir keppnina sakaði hún dúettinn um að hafa verið með aukaraddir í útsendingunni, þ.e. að flutningurinn hafi ekki verið alveg live. Hátt hanga þau og súr eru þau? En það var úrskurðað að flutningur Tvorchi hafi verið löglegur og Krutb yrði bara að bíta á jaxlinn og taka ósigrinum. Obbosins læti alltaf hreint, segir Gróan nú bara og  hristir höfuðið. Það liggur við að það sé komið óbragð af Chianti-inu útaf öllu þessu drama.

Þetta viðburðarríka júróár er nú ekki alveg liðið í aldanna skaut því það er ennþá eftir forkeppni jólanna, sjálf FiK. Og nú var sko ýmislegt ferskt og nýtt upp á teningnum í Tirana. Það ískraði í Gróunni þegar hún frétti í laufléttu Skype-spjalli við framkvæmdastjóra keppninnar að nú væri dómnefndin ekki einráð um hver færi fyrir hönd landsins í Eurovision. Ó ekki. Nú skyldi hrist upp í hlutunum og almenningur hafður 100% með í ráðum. Gróan veit að hin dásamlega ritstjórn FÁSES var búin að fara ofan í saumana á breytingunni svo hún ætlar ekki að vera margorð um það, en nú fáum við ekki bara eina söngkonu frá Kosovu, heldur heilan ættbálk, takk fyrir pent. Gróan á eftir að koma sér í mjúkinn hjá þeim, enda örugglega einhver djúsí fjölskylduleyndarmál sem lúra undir yfirborðinu hjá Kelmendi slektinu. Hlýtur bara að vera…En Gróan, líkt og fleiri tók eftir því að það vantaði alveg Ronelu í veisluna og var henni ekki einu sinni boðið. Hún sagði Gróunni í trúnaði að hún væri orðin persona non grata hjá albanska sjónvarpinu fyrir að halda ekki kjafti og vera sæt. Lufsumúv hjá kallamafíunni eða réttmæt refsing? Gróunni er illa við að setja sig í dómarasætið (svona oftast nær) svo þið gerið upp ykkar hug sjálf, góðir lesendur.

Svo eru sumar þjóðir sem vilja vinna sér aðeins í haginn og þar á meðal eru Kýpur og Slóvenía. Báðar þjóðirnar eru nú þegar búnar að velja flytjendur en annars vegar er það sykursnúðurinn Andrew Lambrou sem ku vera að gera allt vitlaust bæði á Kýpur og Grikklandi. Erum við ekki alltaf til í smá augnkonfekt frá ekkólöndunum? Hebbði nú haldið það, eins og afi sagði. Í Slóveníu verða allar vonir bundnar við hljómsveitina Joker Out sem er svona gasalega krúttleg popp/rokksveit. Ji, hvað þetta er spennandi!!!

Og hvað meira? Ja, það kemur nú allt í ljós á nýju ári. Þetta var óneitanlega nokkuð grunn yfirferð yfir júróárið 2022, en Gróan er bara að verða uppiskroppa með drykkjarföng hérna. Neyðist núna til að bjalla á Fabio, einkaþjóninn minn og biðja um meira hvítt. Gróan kveður á gömlu ári og tekur fagnandi á móti nýju og eflaust sjúklega skemmtilegu júróári, sem verður löðrandi í kósíheitum og eldheitu slúðri. Þar til næst, englabossarnir mínir. Júró-Gróan out!