Síðan 1999, þegar ný tungumálaregla gerði þjóðum kleift að syngja á hvaða tungumáli sem er var komið á, hafa einungis tvö sigurlög Eurovision verið flutt alfarið á öðru tungumáli en ensku og tvö innihaldið textabúta á öðru tungumáli en ensku. Auk þess hefur meirihluti framlaga hvert ár síðan þá verið á hinni útbreiddu ensku. Alltaf er þó einhver fjöldi laga hvert ár flutt á móðurmáli landa sem ekki eru enskumælandi eða jafnvel á tungumálum sem ekki eru töluð í viðkomandi landi og jafnvel bara ekki til yfirhöfuð.
Á lagalista ársins í ár má finna átta lög sem eru sungin alfarið á öðru tungumáli en ensku, sex lög sem eru sungin mestmegnis á ensku en bjóða upp á setningu, eða nokkrar, á öðrum tungumálum og eitt lag sem er að mestu sungið á öðru tungumáli en með nokkrar setningar á ensku.
Danska
Framlag Dana í ár er mikið gleðiefni þar sem þetta er í fyrsta skiptið síðan 1997 sem framlag er sungið alfarið á dönsku. Gamla góða danskan heyrðist þó í framlagi Dana árið 2019, en þó einungis í nokkrum línum lagsins.
Danska er indó-evrópskt mál sem tilheyrir germönsku ættkvíslinni, nánar tiltekið af norður-germanskri ætt. Talið er að danska sé móðurmál um 5,5 milljóna og er að mestu leyti töluð í Danmörku, Grænlandi og Færeyjum.
Úkraínska
Framlag Úkraínu í ár er í raun það fyrsta í sögu Eurovision sem sungið hefði verið alfarið á úkraínsku, en lagið sem átti að keppa í fyrra var einnig á því tungumáli enda flutt af sömu hljómsveit. Tungumálið hefur þó heyrst áður á Eurovision-sviðinu, í framlögum Úkraínu árin 2004, 2005 og 2007. Einnig var partur af rússneska framlaginu árið 2009 á úkraínsku.
Úkraínska er indó-evrópsk tungumál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið þeirri austur-slavnesku. Tungumálið er opinbert tungumál í Úkraínu ásamt því að vera talað í mörgum löndum í austurhluta Evrópu, þar á meðal Hvíta-Rússlandi, Rúmeníu, Moldóvu, Ungverjalandi og Serbíu. Talið er að um 40 milljónir tali tungumálið.
Albanska
Meirihluti framlaga Albana síðan þeir hófu þátttöku árið 2004 hafa verið á ensku. Framlag þeirra í ár verður þó það sjöunda sem flutt er alfarið á albönsku, en einnig hafa tvö framlög þeirra innihaldið búta á albönsku í bland við enskuna. Tæknilega séð er þetta annað skiptið í röð sem albanska framlagið er sungið á móðurmáli þeirra, þar sem framlag þeirra árið 2020 steig aldrei á svið.
Albanska er af indó-evrópskum uppruna þar sem það tilheyrir sinni eigin ættkvísl. Tungumálið er opinbert tungumál í Albaníu, Kosovo og Makedóníu, en er þó talað víðar. Albani má finna víða um Evrópu ásamt því að vera nokkuð fjölmennir í Bandaríkjunum, Kanada, Argentínu, Ástralíu og Egyptalandi. Talið er að um 5,5 milljónir einstaklinga tali albönsku að móðurmáli.
Serbneska
Serbar hófu þátttöku í Eurovision árið 2007 og voru öll framlög þeirra á móðurmálinu frá því ári til ársins 2013. Næstu þrjú framlög þeirra voru á ensku, en framlag þeirra árið 2019 var að stærstum hluta á serbnesku. Þetta er því annað skiptið í röð sem serbneska framlagið er sungið á serbnesku, en lag Serba sem hefði átt að taka þátt í fyrra var einnig sungið á móðurmálinu.
Serbneska er af indó-evrópskum uppruna, tilheyrir ætt slavneskra tungumála og er náskyld bosnísku, króatísku og svartfellsku. Serbneska er opinbert tungumál í Serbíu ásamt því að vera eitt af þremur opinberum tungumálum í Bosníu-Hersegóvínu og eitt af tveimur í Kosovo. Um 12 milljónir einstaklinga tala serbnesku að móðurmáli, en fyrir utan þau lönd sem hafa það að opinberu tungumáli er serbneska einnig töluð í Svartfjallalandi, Króatíu og Makedóníu.
Spænska
Spánverjar hafa oftast sungið á spænsku, en nokkur framlög þeirra síðan 1999 hafa verið á bæði spænsku og ensku. Aðeins eitt framlag þeirra hefur verið sungið alfarið á ensku, en það var árið 2016. Í ár er framlag þeirra eingöngu á móðurmálinu.
Spænska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættinni, ásamt frönsku, ítölsku og portúgölsku. Spænska er eitt útbreiddasta tungumál í heimi en það er opinbert tungumál um 20 landa en meirihluti þeirra sem tala spænsku að móðurmáli koma frá Suður- og Mið-Ameríku. Tungumálið er talið vera annað mest talaða móðurmál heims, á eftir mandarísku. Á milli 470 og 500 milljónir einstaklinga tala spænsku að móðurmáli.
Ítalska
Ítalir eiga ennþá eftir að senda framlag sem alfarið er sungið á ensku, en þrjú framlög þeirra síðan 1999 hafa verið sungin á bæði ítölsku og ensku, ásamt því að heyra mátti arabísku í framlagi þeirra árið 2019. Hafa verður þó í huga að þeir voru ekki með frá 1997 til 2011. Í ár er framlag þeir alfarið sungið á ítölsku.
Ítalska er af indó-evrópskum uppruna, nánar tiltekið af rómönsku ættkvíslinni. Meðal hennar næstu nágranna eru spænska og franska. Ásamt því að vera opinbert tungumál Ítalíu er hún það einnig í San Marínó. Sviss og Vatíkaninu. Einnig er tungumálið móðurmál flestra þeirra sem búa á Istría-skaganum, en Ítalía, Króatía og Slóvenía deila honum á milli sín. Talið er að um 90 milljónir einstaklinga hafi ítölsku að móðurmáli sínu.
Franska
Franska heyrist í tvennum framlögum í ár, því svissneska og því franska.
Svisslendingar hafa fjögur opinber tungumál og hafa sungið á þeim öllum í Eurovision. Franskan hefur þó oftast orðið fyrir valinu, meira að segja ef þau sem sungin hafa verið eftir 1999 eru tekin með. Enskan hefur þó haft yfirhöndina síðustu ár og er þetta í fyrsta skiptið síðan 2010 sem framlag þeirra er ekki á ensku, en það ár var það á frönsku.
Frakkar hafa nánast alltaf sungið sitt framlag alfarið eða að hluta til á frönsku. Þeir komust þó nálægt því að flytja eitt framlag sitt eingöngu á ensku, en lag þeirra árið 2008 var að mestu á ensku en innihélt þó nokkrar línur á móðurmálinu. Í ár er framlag þeirra sungið alfarið á frönsku.
Franska er af indó-evrópskum uppruna og tilheyrir rómönsku ættkvíslinni. Hennar nánustu ættingjar eru meðal annars spænska og ítalska. Franska er ansi útbreitt tungumál en hún er opinbert tungumál í 29 löndum í fimm heimsálfum og talið er að á milli 75 til 80 milljónir einstaklinga tali frönsku að móðurmáli. Bara í Evrópu er franska opinbert tungumál í Frakklandi, Belgíu, Sviss, Mónakó og Lúxemborg.
Rússneska
Er þetta í fyrsta skiptið síðan 2009 sem framlag Rússa er sungið mest megnis á rússnesku, en þá var partur lagsins sunginn á úkraínsku en nú er það enskan sem leikur aukahlutverk. Rússneska heyrðist þó síðast í Eurovision í byrjun rússneska framlagsins árið 2011.
Rússneska er indó-evrópskt tungumál af slavnesku ættkvíslinni og er nánar tiltekið austur-slavneskt. Rússneska í víðförult tungumál, en það er móðurmál í Rússlandi og opinbert tungumál í tíu öðrum ríkjum. Talið er að um 150 milljónir tali rússnesku að móðurmáli og aðrar 110 milljónir sem annað tungumál.
Sranan Tongo
Er þetta í fyrsta skiptið í sögunni sem Sranan Tongo heyrist í Eurovision, en nokkrar burðamiklar setningar er sungnar á tungumálinu í hollenska framlaginu í ár. Tungumálið á rætur sínar að rekja til Suriname í Suður-Ameríku, en söngvari hollenska framlagsins er fæddur og uppalinn þar í landi.
Sranan Tongo er kreólamál byggt á enskum grunni sem þjónar sem lingua franca (samskiptamál á milli þjóða eða fólks með ólík tungumál) í Suriname og talið er að um 550 þúsund manns tali tungumálið. Suriname er fjöltyngt land með hollensku sem opinbert tungumál, en átta tungumál teljast sem innfædd tungumál ásamt því að 13 önnur tungumál eru töluð í landinu.
Aserska
Er þetta í fyrsta skiptið sem aserska heyrist á Eurovision sviðinu, en Aserbaísjan hefur tekið þátt í keppninni síðan 2008 og alltaf sungið á ensku. Tungumálið heyrist þó einungis í litlum parti aserska framlagsins í ár, í brúnni á milli versa og viðlaga.
Aserska er tyrkískt tungumál, nánar tiltekið vestur-Oghuz mál, og er í ætt við tyrknesku, úsbekísku og kasöksku. Talið er að um 23 milljónir tali asersku að móðurmáli sem er opinbert tungumál Aserbaísjan, en málið er einnig talað í Íran, Rússlandi, Tyrklandi, Írak og Georgíu.
Króatíska
Meirihluti framlaga Króata frá 1999 hafa verið sungin alfarið eða að hluta til á króatísku, en sex framlög hafa verið sungin alfarið á ensku og eitt á ensku og ítölsku. Framlag þeirra í ár er reyndar að mestu leyti á ensku, en eitt vers er sungið á króatísku.
Króatíska er indó-evrópsk mál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni, nánar tiltekið hinni serbó-króatísku. Talið er að um 5,6 milljónir tali króatísku að móðurmáli en fyrir utan Króatíu er hún einnig töluð í nágrannalöndunum Bosníu-Hersegóvínu, Serbíu, Svartfjallalandi og Rúmeníu.
Þýska
Þýska hefur heyrst lítið síðustu ár en þó var framlag Þjóðverja árið 2007 að mestu leyti á þýsku. Það eru þó Austurríkismenn sem hafa flaggað þýskunni mest en framlög þeirra árin 2003, 2004 og 2012 voru á austurrískri þýsku. Svo má reyndar ekki gleyma hinni ógleymanlegu Verku Serduchku frá Úkraínu en í lagi hennar frá 2007 mátti heyra hið ódauðlega “Sieben sieben ai-lju-lju, sieben sieben, ein zwei”.
Þýska lagið í ár er sungið að mestu leyti á ensku, en þó má heyra smá bút á þýsku. Er það í talaða kaflanum í seinni hluta lagsins, en í myndbandinu kemur það út eins og útvarpstilkynning.
Þýska er indó-evrópskt mál sem tilheyrir germönsku ættkvíslinni, nánar tiltekið vestur-germanskt mál. Þýska er talin vera móðurmál um 90 milljóna og er opinbert tungumál í Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Það verður þó að nefna að þýskan sem töluð er í Austurríki annars vegar og Sviss hins vegar er nokkuð ólík þeirri sem töluð er í Þýskalandi, það væri næstum hægt að segja að þetta væru þrjú ólík tungumál.
Tékkneska
Tékkneska hefur ekki heyrst á Eurovision sviðinu síðan 2007, þegar fyrsta og eina framlag Tékklands var sungið á móðurmálinu. Í framlagi ársins í ár má heyra eina setningu sungna á tékknesku, en restin er sungin á ensku.
Tékkneska er indó-evrópskt mál sem tilheyrir slavnesku ættkvíslinni og er nánar tiltekið vestur-slavneskt. Tékkneska er talin vera móðurmál um 14 milljóna og er opinbert tungumál í Tékklandi. Einnig er hún töluð í Austurríki, Bosnía og Hersegóvínu, Króatíu, Póllandi, Rúmeníu og Slóvakíu.
Hebreska
Hebreska hefur ekki heyrst á Eurovision sviðinu síðan 2014, en partur af ísraelska laginu sem átti að taka þátt í fyrra var sunginn á tungumálinu. Í ár syngur Eden Adele nokkrar setningar og orð á hebresku, en restin af laginu er á ensku.
Hebreska er semískt tungumál, nánar tiltekið norðvestursemískt mál, og er náskylt arameísku og arabísku. Hebreska er opinbert tungumál í Ísrael og talið er að um fimm milljónir tali tungumálið að móðurmáli, en um níu milljónir í heild tali tungumálið. Hebreska er merkilegt tungumál fyrir þær sakir að það dó í rauninni út á 5. öld en var endurlífgað á 19. öldinni og núverandi útgáfa tungumálsins heitir í raun nútíma-hebreska, en er í daglegu tali alltaf kölluð hebreska.
Heiðvirðar tilnefningar (honorable mentions)
Lögin hér að ofan eru þó ekki einu lögin sem innihalda textabúta á öðrum tungumálum en ensku. Maltneska framlagið ber franskan titil ásamt því að línan „je ma casse“ er sungin nokkrum sinnum. Kýpverska framlagið inniheldur nokkur orð á spænsku ásamt því að titillinn „El Diablo“ er á sama tungumáli. Framlag San Marínó ber ítalska titilinn „Adrenalina“ ásamt því að orðið er sungið nokkrum sinnum í laginu sjálfu. Serbneska framlagið inniheldur eitt orð á ensku, „baby“, sem er sungið nokkrum sinnum ásamt því að titillinn „Loco Loco“ er á spænsku.