Blaðamannafundir stóru þjóðanna og gestgjafanna


Þessi laugardagsmorgun byrjaði með látum í Rotterdam þegar ítalska hljómsveitin Måneskin átti frábæra æfingu og þau daðra við fyrsta sætið í veðbönkum eftir hana. Mætt eru á fundinn söngvarinn Damiano David, Victoria De Angelis bassaleikari, Thomas Raggi gítarleikari og Ethan Torchio trymbill, ásamt öðrum fulltrúum sendinefndarinnar.  Af hljómsveitarmeðlimum voru það aðallega Damiano og Victoria sem sátu fyrir svörum íklædd köflóttum, litríkum jakkafötum. Æfingin gekk mjög vel þar sem allir stóðu sig frábærlega og var eins og þau höfðu vonað. Atriðið er kraftmikið þar sem orka bandsins skilar sér vel í gegnum sjónvarpsskjáinn. Þau voru ekki að nota neina grafík, vildu hafa þetta öðruvísi og að hjómsveitin væri aðalatriðið. Þau segjast hafa þekkst frá æsku og það kom að sjálfu sér hver spilar á hvaða hljóðfæri. Þau hittu hitt rokkbandið í keppninni í gær, finnska bandið Blind Channel. Fannst gaman að hitta þá. Finnst svalt að boðið sé upp á tvenns konar rokk í Eurovision í ár. Finnarnir gáfu þeim gjafir sem þau voru þakklát fyrir.

Þau eru spurð út í fataval bæði á sviði og utan þess eins og á blaðamannafundinum. Gestgjafinn talar um að þau séu eins og klippt út úr tískutímariti, sem þau segja hluta af þeim skilaboðum sem þau vilja senda: vertu þú sjálfur og að þetta sé eitt tjáningarformið. Dæmi um það að það þurfi ekki að klæða sig sérstaklega eftir kyni. Þau eru spurð út í hvort þau hafi farið í San Remo keppnina til að vinna og til að komast í Eurovision sem þau svara neitandi. Þau vildu leggja sitt af mörkum til að gera tónlistina í San Remo fjölbreyttari og það sama megi segja um Eurovision. Vilja deila boðskapnum og auka fjölbreytni, aðalatriðið er ekki að vinna. Þau finna ekki pressu vegna góðrar stöðu í veðbönkum en eru hæstánægð. Samt telja þau langflesta aðdáendur sína vera ítalska sem geta ekki kosið þá. Munurinn á Eurovision og San Remo sé fyrst og fremst sá að nú tala þau ensku. Auglýstu svo nýju plötuna sína sem þau munu fylgja eftir með túr á Ítalíu í desember og geta vonandi spilað í fleiri löndum á nýju ári. Í lok blaðamannafunda stóru þjóðanna í dag er dregið um hvort þau flytji framlag sitt í fyrri eða seinni hluta lokakeppni Eurovision 22. maí nk. Að þessu sinni mega listamennirnir sjálfir ekki draga vegna COVID og sér því gestgjafinn um það. Atriðið frá Ítalíu verður í seinni hlutanum.

Måneskin, Italy, Second Rehearsal, Rotterdam Ahoy, 15 May 2021

Næst er það Jendrik frá Þýskalandi. Hann er fyrst spurður hvort hann sé ánægður með sig. Hann segist í hreinskilni ekki vera of ánægður. Hann segist þó hafa nokkra daga enn til að bæta hreyfingar og fleira og bæta atriðið. Fararstjórinn er hins vegar ánægður með Jendrik. Það kemur spurning um ukulele hljóðfærið sem Jendrik er með. Það er þakið kristöllum. Hann giskar á að þeir séu 4000 talsins. Hann er með annað til vara ef hann missir þetta og það brotnar. Enn hefur honum alltaf tekist að grípa það og fararstjórinn hefur mikla trú á honum. Þá syngur hann til spyrilsins hennar Samyu og hún syngur líka með. Það eru fáir aðrir en Þjóðverjar í salnum, hans sendinefnd en talsvert af spurningum á netinu. Hann er spurður út í Måneskin sem voru á undan honum og hvort hann væri til í að vinna með þeim. Hann segist klár í það og segir að það væri fróðlegt að prófa ukulele í rokklagi. Jendrik er spurður út í myndbandið. Hann hafði ekki stúdíó og fékk þessa hugmynd að nota ónýtar þvottavélar sem sviðsmynd. Hann er spurður út í fatastil sem hann segir ekki flókinn. Hann sér eitthvað á Instagram og kaupir það! Nú þarf hann að einbeita sér að því að njóta sín á sviði og hugsa ekki of mikið um myndavélarnar. Jendrik dróst í síðari hlutann á lokakvöldinu.

Jendrik, Germany, Second Rehearsal, Rotterdam Ahoy, 15 May 2021

Þá var komið að gestgjafalandinu, Hollandi, og flytjandanum Jeangu Macrooy. Hann sagði að munurinn á fystu og annarri æfingu væri fyrst og fremst að núna þekktu þau sviðið. Smá breytingar voru gerðar á útliti Jeangus og hann er meðal annars kominn með fallegt hálsmen sem hann er spurður út í. Hönnuðurinn átti í raun tillögurnar að klæðnaðinum, en innblásturinn kemur frá Súrínam, þaðan sem Jeangu er. Skilaboðin eru líka að þú getur ekki brotið mig. Ég vil ekki láta meta mig. Bróðir hans er einn af þeim sem er með honum á sviðinu og segir hann það bæði yfirþyrmandi og heiður. Jeangu er spurður út í hvaða skilaboð hann hafi til hinsegin ungmenna. Skilaboðin eru: Vertu þú sjálfur algjörlega og ekki reyna annað. Fullt af fólki upplifir óöryggi en þarna er boðskapurinn um að það er til eitthvað sem heitir samþykki og jafnrétti. Jeangu reynir að njóta hvers augnabliks þessa dagana. Tekur myndir og áttar sig á að þetta er einstakt tækifæri eftir eins og hálfs árs árs undirbúning og vinnu. Hann syngur hluta lagsins á sranan tong, sem er móðurmálið hans, upprunalega komið frá þrælum. Þau sungu svo lagið og tóku nokkur dansspor. Hópurinn var einnig spurður úr í kórinn á bakvið en það eru allt raddir þeirra fjögurra.  Jeangu segist ekkert svekktur yfir því að fá ekki að taka þátt í fokeppninni, það sé fínt að hafa bara eina töku, bara spenntur fyrir því. Hann segir að nýja lagið sé bara ný saga. Hvert lag sem hann gerir er ný saga. Það var dregið númer í röðinni fyrir Jeangu strax í mars og verður lagið númer 23 í röðinni.

Jeangu Macrooy, The Netherlands, Second Rehearsal, Rotterdam Ahoy, 15 May 2021

Þá er komið að Barböru Pravi frá Frakklandi. Atriðið hennar er einfalt en hún talar um að séu litlu hlutirnir sem þurfi að laga og þeir gengu upp í dag. Fararstjórinn segir Barböru æðislega og þau eru stolt af henni, enda gengi í veðbönkum afar gott og það besta hjá Frakklandi í langan tíma. Á fundinum kemur fram að Barbara er ¼ Serbi og þaðan fékk hún sviðsnafnið Pravi. Það þýðir ósvikið á serbnesku. Barbara er spurð út í aðra keppendur en hún hefur aðeins hitt Blas Cantó og James Newman. Hún er mikið spurð út í sigur og sigurlíkur og hvað gerist ef Frakkland vinnur keppnina. Hún er tilbúin að sigra og franska sjónvarpið einnig. Barbara finnur samt enga pressu og segir pressuna vera á franska sjónvarpinu. Barbara er ein á sviðinu. Hún segist ekki vera að hugsa um neinn annan, aðeins að einbeita sér að myndavélunum og að gera sitt besta. Hún segir að París sé óskastaðurinn til að halda Eurovision en tekur það fram að það sé ekki hennar ákvörðun. Á fundinum kemur spurning um að keppnin í Frakklandi Eurovision France, c’est vous qui décidez hafi höfðað meira til eldra fólks en yngra, en hún hafi mögulega breytt því. Hún segist ekki vera talsmaður yngri kynslóðar og þótt hún hlusti á gömul lög líti hún ekki á þau sem slík. Barbara er spurð hvað breytist ef hún vinni. Hún vonar að hún verði þá eðlileg áfram. Það breyti kannski stöðu hennar sem tónlistarmanns og að fólk beri von í brjósti. Hún er spurð út í Marie Myriam, síðasta sigurvegara Frakklands sem vann fyrir 44 árum, árið 1977. Hún var dómari í Eurovision France, c’est vous qui décidez og gaf Barböru aðeins 2 stig. Hún segist hafa unnið með Marie síðan og ber virðingu fyrir skoðunum hennar. Barbara ætlar að senda henni blóm ef hún vinnur. Barbara mun flytja Voilá í seinni hluta lokakeppninnar eftir viku.

Barbara Pravi, France, Second Rehearsal, Rotterdam Ahoy, 15 May 2021

Næst er það James Newman ásamt sendinefnd frá Bretlandi. Það urðu smá mistök í einu rennslinu og þau hlógu bara að því. Allt komið núna. James er spenntur fyrir því að æfa betur og meira á hótelinu, er mjög hress og finnst gaman í Eurolandi. Talar stöðugt og margir brandara koma. Segir til dæmis frá því að hann bað um fullt af ísmolum upp á herbergi og fór í ísbað sem hann segir mjög gott. Þeir bræðurnir, hann og John Newman eru báðir í tónlist og honum finnst gott að finna stuðning frá litla bróður. Aðspurður hvort það verði eldur á sviði, þar sem lagið heitir Embers eða Glóð, segir hann svo ekki vera en hann lofar stuði! Svo er tilkynnt um samstarf hans og Blas Cantó sem verður fljótlega kynnt betur. James vill sýna það besta frá Bretlandi og vonar að Bretar átti sig á því hvað Eurovision er frábær með alla þessa fjölbreytni. Þau leggja hart að sér og meina það. Það er frábært tækifæri að mati James að keppa í Eurovision. Svo er hann beðinn um ráð handa næsta keppanda Bretlands. James segir að það þurfi að muna eftir því að anda þegar verið er að semja og útsetja lagið og taka dansinn með. Hann vill að einhver ungur ferskur listamaður keppi á næsta ári. James situr ekki auðum höndum en hann er að taka upp lag á hótelinu sem kemur út eftir Eurovision. Svo kemur út plata á árinu. James er spurður út í lagið í ár miðað við lagið í fyrra. Hann segist núna hafa viljað lag um það að hafa gaman, það þyrftu allir á því að halda. Hann vill láta öllum líða eins og þeir séu í stóru partýi. Bretland flytur lagið í fyrri hluta lokakeppninnar og hann er ánægður með það, sér fyrir sér að byrja partýið!

James Newman, United Kingdom, Second Rehearsal, Rotterdam Ahoy, 15 May 2021

Síðastur á blaðamannafundinn í dag er Blas Cantó frá Spáni. Hann segir að verið sé að laga smáatriði í atriðinu, aðeins með myndavélarnar. En þau eru ánægð og segja atriðið svo gott sem tilbúið. Atriðið tókst vel í dag,  sérstaklega raddlega. Dásamleg reynsla segir Blas. James, Barbara og Gjon eru öll á sama hóteli og hann. Hann reynir að sofa og slaka á eins mikið og hægt er. Aðspurður um væntingar til Eurovision þá segist hann ekki vilja hafa væntingar, vill að hlutirnir komi á óvart. Þetta hefur verið auðveldara en hann hélt og skemmtilegt. Hann er spurður um hvernig gangi að hafa stjórn á tilfinningunum í flutningnum. Blas segir að það sé erfitt að syngja lagið. Hann reyni að hugsa ekki of mikið um þetta því þá fari hann bara að gráta. Samt skipta tilfinningarnar meira máli en að syngja lagið fullkomlega. Á sviðinu með Blas er tungl sem er sex metrar í þvermál, einn stærsti hluturinn á sviði í ár. Tunglið táknar heiminn milli Blas og annarar manneskju sem hann syngur til. Tunglið táknar líka hringrás lífsins. Blas er spurður út í sönginn. Hann veit ekki hvað hann væri ef hann væri ekki söngvari, hefur aldrei verið annað og það er ástríðan hans og leið til að tjá sig. Getur ekki ímyndað sér að gera neitt annað og finnst hann fæddur til þess. Aðspurður út í daginn í dag segir Blas fleiri viðtöl á dagskrá og svo þarf hann að hvílast. Hann er aldrei að gera ekki neitt. Blas söng My Heart Will Go On meðan dregið var og verður lagið hans í fyrri hluta lokakeppninnar 22. maí.

Blas Cantó, Spain, Second Rehearsal, Rotterdam Ahoy, 15 May 2021