Glæstar Eurovisionvonir voru bundnar við hina búlgörsku Victoriu í fyrra og söngkonan var í efstu sætum veðbanka, ásamt Íslandi og Litháen, áður en keppninni var aflýst í fyrra. Þá ætlaði að Victoria að flytja framlagið “Tears Getting Sober” og júróaðdáendur voru agalega spenntir að þjóð sem aldrei hefði unnið Eurovision ætti séns (fyrir utan að sjálfsögðu okkar eina sanna Gagnamagn en það er önnur saga).
Victoria þykir líkjast Billie Eilish í söng og stíl en greinarhöfundur getur því miður ekki lagt mat á það því þá þyrfti hún að fylgjast með annarri tónlist en Eurovision. Victoria er 23 ára gömul og varð fyrst þekkt fyrir þátttöku sína í X Factor Búlgaríu. Fyrir Eurovision 2021 lá fyrir að velja eitt af sex lögum á nýrri plötu Victoriu, “a little dramatic”, sem framlag Búlgara í vor. Lögin voru kynnt tónlistarsérfræðingum og Eurovisionaðdáendum og valið var síðan kynnt á Youtubetónleikum sem Victoria hélt í byrjun mars. Lögin “Imaginary Friend” og “Growing up is getting old” voru þau lög sem sérfræðingunum og aðdáendunum leist best á og teymið hennar Victoriu endaði á að velja hið síðara. Lagið er óður til þroska og þess að komast yfir kvíða. Þar er Victoria á sömu slóðum og í fyrra en “Tears Getting Sober” fjallaði einmitt um geðheilbrigðismál ungs fólks. “Growing up is getting old” er eitt af fyrstu lögunum sem Victoria samdi og var raunar í pottinum þegar framlag Búlgara fyrir Eurovision 2020 var valið.
Búlgarar eru ekkert að spara teymið í kringum okkar konu því lagið er samið af sænskum poppsnillingum, Maya Nalani, Helena Larsson og Oliver Björkvall. Sviðsetning verður í höndum Marvin Dietmann en hann er m.a. þekktur sem maðurinn á bak við sigur Conchitu Wurst 2014.
Búlgaría hefur sent hörkulög síðustu ár í keppnina og þeirra besti árangur er 2. sætið í Úkraínu 2017. Þegar þetta er ritað gengur Victoriu ekkert of illa í Eurovision veðbönkunum og hefur plantað sér í 4. sæti. Sú gróusaga gengur þó fjöllunum hærra að Búlgaría sé ein af þeim júróþjóðum sem veðji á sjálfa sig í bönkunum til að tryggja sér meiri athygli og umfjöllun. En mikið væri nú skemmtilegt að þjóð sem aldrei hefur unnið Eurovision ynni. Sannkölluð veisla!