Go_A fulltrúi Úkraínu í Rotterdam


Úkraína tók fyrst þátt í Eurovision 2003 og varð fljótt sigursælt í keppninni. Þetta er ein þeirra þjóða sem alltaf kemst upp úr undankeppninni sinni, hefur sjö sinnum verið í tíu efstu sætunum og unnið heila klabbið tvisvar sinnum. Ruslana sælla minninga árið 2004 og Jamala árið 2016. Eins og flestir muna dró Úkraína sig út úr keppninni á síðasta ári eftir röð skandala í kjölfar sigur Maruv og Siren Song í undankeppninni þeirra, Vidbir. Það var þetta með að blanda ekki Eurovision og pólitík og allt það. Hver og einn einasti Eurovision aðdáandi syrgði úrsögn hinnar svölu Maruv úr keppninni en fyrir marga virkaði þátttaka Hatara sem hinn besti plástur á bágtið. Fyrir 2020 útgáfuna af Vidbir var ný regla kynnt til sögunnar og þátttakendur máttu ekki hafa komið fram í Rússlandi síðan 2014 (frá innlimun Rússa á Krímskaga) eða farið ólöglega til Krím. Jafnframt máttu þátttakendur ekki áforma að ferðast til þessara landsvæða á meðan á Vidbir eða Eurovision stendur. Jáhá og svo erum við hérna heima að kvarta yfir tungumálareglunni í Söngvakeppninni!

En vindum okkur að keppninni. Eftir tvær undankeppnir var búið að þrengja Eurovisionvalið niður í sex lög. Að sjálfsögðu vantaði ekki stjörnufansinn, Verka okkar Sherduchka, Tina Karol og Jamala heiðruðu sviðið sem nærveru sinni og þær tvær fyrrnefndu sátu einnig í dómnefnd keppninnar.

Efst hjá dómnefnd og í símakosningu almennings var Go_A og lagið Solovey og telst hún því óumdeildur sigurvegari. Er þetta víst í fyrsta skipti sem það gerist í sögu Vidbir. Solovey þýðir næturgali en við leyfum hlustendum að meta hvort það sé nákvæmt lýsing á framlagi Úkraínu í ár. Að okkar mati er ef til vill besta lýsingin Tuliulag (Pólland 2019) í Hatarabúningi. Solovey er nefnilega sungið í gömlum söngstíl sem heitir „Light voice singing“ eða „white noise“ og hærri er margir eiga að venjast. Sumir kalla þetta reyndar ekkert annað en öskur. Go_A framreiðir hins vegar þennan söngstíl með skemmtilegum nútímablæ sem gerir þetta bara ansi gott. Lagahöfundar Solovey eru Taras Shevchenko og Kateryna Pavlenko.

Go_A samanstendur af fjórum hljómsveitarmeðlimum og var bandið stofnað 2012 í Kænugarði. Söngkona og textahöfundur Go_A heitir Kateryna Pavlenko og aðrir hljómsveitarmeðlimir eru Taras Shevchenko (hljómborð, ásláttur, samplari og gítar) Ihor Didenchuk (bakraddir, ásláttur) og Ivan Hryhoriak (gítar).

Sveitinni er lýst þannig að hún sameini hefðbundnar úkraínskar söngraddir, nútímadans, afrískan trumbuslátt og kraftmikinn gítarleik (svo mikinn reyndar að í Vidbir komu flugeldar út úr gítar eins hljómsveitarmeðlims!). Bandið hefur spilað á mörgum tónlistarhátíðum heima og erlendis og gaf út sína fyrstu plötu 2016. Nafn sveitarinnar kemur frá enska orðinu „go“ og gríska bókstafnum Alpha (A) sem þýðir upphaf alls eða rótin. Hljómsveitarnafnið er því tilvísun til þess að fara aftur til upprunans. Í viðtali eftir sigurinn sagði söngkona Go_A að hún væri stolt af því að flytja lagið þeirra á úkraínsku í Rotterdam. Við vonum bara að íslensku þulirnir verði búnir að læra muninn á úkraínska bandinu og sælgætisgerðinni Góu áður en að lokakeppni Eurovision kemur!