Litháen líkt og Ísland hefur aldrei unnið Eurovision. Þeir töldu þó í fyrra að þeir hefðu góða möguleika á toppsæti með hugljúfu lagi Ievu til eiginmanns síns When we’re old. Það gekk ekki eftir og lenti Ieva í 12. sæti sem er þó þriðji besti árangur Litháa í Eurovision. Best gekk þeim árið 2006 þegar grínistarnir í LT United lentu í 6. sæti með We are the winners.
Það getur tekið á að vera Eurovision aðdáandi og vilja jafnframt fylgjast með undankeppninni í Litháen því undanfarin ár hafa þeir reynt að hafa keppnina eins flókna og mögulegt er. Í ár reyndu þeir að einfalda hana aðeins en þó voru 49 lög og 48 keppendur sem tóku þátt í fjórum undanriðlum. Sex lög komust upp úr hverjum undanriðli og var skipt niður í tvo milliriðla þar sem fjögur lög úr hvorum milliriðli komust áfram í úrslitakeppnina sem fer fram í dag, 23. febrúar.
Og þá hófst dramatíkin. Sasha Song sem keppti fyrir hönd Litháen 2009 með Love rauk burt í fússi og neitaði að taka þátt í fjórða undanriðlinum þar sem honum fannst lag hans var ekki nógu vel unnið af upptökustjóranum og neitaði að flytja eitthvað illa unnið miðjumoð. Forsvarsmönnum keppninnar var ekki skemmt og skelltu á hann 2000 evru sekt. Aðaldramatíkin tengdist þó söngkonunni Monika Marija. Hún þykir afar sigurstrangleg og komst raunar áfram með tvö lög í milliriðlana, Criminal og Light on. Bæði lögin voru afar vinsæl en Monika hafði áhyggjur af því að ef hún kæmist í úrslit með bæði lögin yrði það til þess að atkvæði til hennar myndu skiptast og því ekki vænlegt til sigurs. Því bað hún aðdáendur sína um að kjósa lagið Criminal ekki áfram í úrslit því hún vildi frekar keppa í úrslitum með Light on. Spurning hvort það sé rétt ákvörðun hjá henni?
Allt kom þó fyrir ekki og æstir áðdáendur Moniku kusu bæði lögin áfram. Monika ákvað þá að draga Criminal út keppni og þarf að öllum líkindum að greiða álíka sekt og Sasha Song. Alen Chicco fær þar með tækifæri til að keppa í úrslitum með lagið Your Cure
Öldurnar í Litháen hafði þó ekki fyrr lægt en upp kom enn einn skandalinn. Í ljós kom að eitt sigurstranglegasta lagið Run with the Lions með Jurijus hafði verið birt á Soundcloud síðu söngvarans fyrir 1. september sem er brot á reglum Eurovision. Búið er að eyða Soundcloud síðunni og upptökustjóri lagsins segir að þrátt fyrir sama heiti þá hafi þetta ekki verið sama lag og því hafi reglur ekki verið brotnar. Það á eftir að koma í ljós hvort stjórnendur keppninnar séu sammála þessu eða vísa Jurijus úr keppni.
Hin fimm lögin og keppendur hafa fengið mun minni athygli og umtal og næsta víst að sigurvegarinn verði eitt hinn umtöluðu laga. Hægt er að sjá brot úr öllum lögunum sem keppa til úrslita hér.
Þeir sem hafa áhuga á að fylgja þessari dramatísku keppni til enda get horft hér. Lögin átta keppa til úrslita laugardaginn 23. febrúar kl. 19.00. Sigurvegarinn verður valinn af dómnefnd og sjónvarpsáhorfendum en atkvæði hvors um sig gildir 50%, Það verður því áhugavert að fylgjast með hvort þetta verði einvígi milli tveggja laga eða hvort einhver óvæntur keppandi standi upp sem sigurvegari þvert á allar spár.