Eistar eru búnir að velja sitt framlag í ár og er það Victor Crone sem mun flytja lagið „Storm“ í Tel Aviv í vor. Eesti Laul, forkeppni Eista, vekur yfirleitt mikla athylgi á meðal aðdáenda enda mikið upp úr henni lagt og eru Eistar mjög metnaðarfullir þegar kemur að vali á sínu framlagi ár hvert.
Hvorki meira né minna en 24 lög hófu keppni sem skipt var niður í tvær undankeppnir. Tólf lög kepptu í hvorri undankeppni þar sem úrslit voru ákveðin í gegnum tvær umferðir. Fyrsta umferð var á þann veg að fjögur efstu lög komust fyrst áfram á sameiginlegum fjölda stiga frá dómnefnd og áhorfendum. Í seinni umferðinni komust svo tvö lög áfram til viðbótar í gegnum hreina símakosningu.
Í úrslitunum voru því 12 lög sem kepptust um að bera fána Eista í Tel Aviv og rétt eins og í undanúrslitunum fóru fram tvær umferðir. Í fyrri umferð voru öll lögin flutt og atkvæði dómnefndar og áhorfenda lögð saman til að skera úr um þrjú efstu lögin, sem síðan komust áfram í eins konar þriggja laga einvígi. Í seinni umferðinni voru þau þrjú lög sem efst voru í þeirri fyrri flutt aftur og skorið úr um sigurvegara með 100% símakosningu.
Að æsispennandi kosningu lokinni var það Svíinn Victor Crone sem stóð uppi sem sigurvegari með lagið „Storm“ og mun hann því reyna að taka Tel Aviv með stormi í vor.
1. sæti – „Storm“ – Victor Crone
Segja mætti að sigur „Storm“ hafi komið örlítið á óvart þar sem að lagið var hársbreidd frá því að komast ekki einu sinni í þriggja laga einvígið. Dómnefnd setti lagið ekki í nema níunda sæti en lagið vann símakosninguna. Eftir fyrstu umferðina deildi lagið nefnilega þriðja sætinu með laginu „Strong“ sungið af Sissi með 14 stig. En þar sem það fyrrnefnda hafði fengið fleiri stig úr símakosningu var því hleypt í einvígið. Gaman er að segja frá því að Sissi þessi sem þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Victor er dóttir Dave Benton, en hann var annar helmingur dúettsins sem býr yfir eina sigri Eista frá árinu 2001.
Victor Crone er 27 ára og kemur frá Svíþjóð. Hann er ekki algjör nýgræðingur þegar kemur að forkeppnum Eurovision, en hann var í slagtogi með Behrang Miri í Melodifestivalen hinni sænsku árið 2015, þar sem þeir komust í Andra Chansen. Þetta var hins vegar í fyrsta skiptið sem hann tók þátt í Eesti Laul.
Einn af höfundum lagsins er mikill góðkunningi Eurovision en það er enginn annar en Stig Rästa, sem samdi og flutti framlag Eista árið 2015 og samdi svo framlag þeirra árið 2017. Einnig tók hann þátt í Eesti Laul í fyrra þar sem hann endaði í öðru sæti. Hann virðist því vera búinn að gera það að hefð að taka þátt fyrir hönd Eista annað hvert ár.
Lokaúrslit Eesti Laul 2019
1. sæti: Victor Crone — “Storm”
2.sæti: Uku Suviste — “Pretty Little Liar”
3.sæti: Stefan — “Without You”
4.sæti: Sissi — “Strong”
5.sæti: Lumevärv ft. Inga — “Milline päev”
6.sæti: Inger — “Coming Home”
7.sæti: The Swingers, Tanja & Birgit — “High Heels in the Neighbourhood”
8.sæti: Sandra Nurmsalu — “Soovide puu”
9.sæti: Kerli Kivilaan — “Cold Love”
10.sæti: Kadiah — “Believe”
11.sæti: Synne Valtri — “I’ll Do It My Way”
12.sæti: xtra basic & Emily J — “Hold Me Close”