Portugal, le Portugal, Républica Portuguese – Portúgal í Eurovision – seinni hluti


Þegar við skildum við ykkur í síðasta pistli var níundi áratugurinn að líða undir lok. Við höldum nú áfram umfjöllun okkar um sögu Portúgal í Eurovision og tökum upp þráðinn við upphaf tíunda áratugar síðustu aldar.

Næntís – hápunktar og lágpunktar

Portúgalir eru mjög stoltir af tónlistarhefð sinni og þar ber hæst að nefna Fado tónlistarstílinn. Skriflegar heimildir eru til um fado allt frá fyrri hluta 19. aldarinnar en talið er að þessi tegund af portúgalskri tónlist eigi sér mun eldri sögu. Samkvæmt hefðinni er einkennist fado af rólegum lögum og melankólískum textum sem oftar en ekki fjalla um söknuð, ást eða þrá. Tónlistarstíllinn er ein mesta menningarlega arfleifð Portúgals og árið 2011 komst hann á menningarminjalista UNESCO.

Framlag Portúgala árið 1991 heiðraði þessa merku arfleifð í formi lagsins „Lusitana Paixão“ flutt af Dulce. Lagið bar hin hefðbundnu einkenni fado-stílsins, ballaða með tregafullum texta. Evrópubúar virtust hrífast ágætlega af portúgölsku melankólíunni þar sem lagið lenti í 8. sæti af 22 lögum, sem var besti árangur Portúgala síðan 1980 en þar sem fleiri lönd voru farin að taka þátt í keppninni árið 1991 mætti segja að Dulce hafi náð besta árangri Portúgala í sögunni hlutfallslega séð.

Myndlíkingar eru ávallt góð leið til að krydda aðeins upp í lagatextum. Lagahöfundar portúgalska lagsins árið 1995 ákváðu að nýta sér það til hins ýtrasta. Lagið er í sjálfu sér ekki sérlega eftirminnilegt en textinn er áhugaverður. Lagið fjallar um ástarsamband tveggja einstaklinga, sem er svo sem ekki i frásögu færandi nema fyrir þær myndlíkingar sem notaðar eru um þetta annars ágæta ástarsamband. Gefum ykkur smá dæmi.

“My sweetheart with white skin
You are the cream in my dark tea
It’s sweeter than honey
A mixture of vanilla and chocolate”

Lagið „Baunhila e chocolate“ fjallar sem sagt um samband tveggja einstaklinga af ólíkum kynþáttum og eru þessar ofangreindu ekki einu vísanirnar í matvæli, en kanill, pipar, chili og saffran er líka nefnt á nafn.

Ári seinna, 1996, mættu Portúgalar til leiks með hressa unga stúlku að nafni Lúcia Moniz, sem söng mikinn texta á stuttum tíma og spilaði undir á ukulele. Lagið „O meu coração não tem cor“ var óður til tungumálsins portúgölsku og hins portúgölskumælandi heims og fjallaði textinn um hvernig hinn portúgalski menningarheimur getur bjargað jafnvel hinum litlausustu hjörtum. Og enn aftur fáum við að sjá áhugaverðar myndlíkingar, en í viðlagi lagsins kemur þessi lína fyrir; „Vem juntar o teu ao meu sabor”, sem gæti þýðst sem „látum brögðin okkar bráðna í eitt”. Við ætlum að ganga út frá því að þetta sé mjög ljóðræn leið til að lýsa því að fara í sleik.

Lagið vakti ágæta lukka og náði Lúcia Moniz besta árangri Portúgala til þessa, 6. sætinu, og átti hún eftir að eiga það met allt þangað til Salvador Sobral mætti til leiks og vann allt heila klabbið. Ef þið munið ekki eftir hinni glöðu Lúciu úr Eurovision þá kannist þið kannski við hana úr kvikmyndaheiminum. Hún Lúcia heillin vakti nefnilega mikla athygli í hlutverki sínu í bresku myndinni Love, Actually, sem kom út árið 2003. Þar lék hún konu sem hóf störf sem aðstoðarkona seinheppins rithöfundar sem leikinn var af engum öðrum en Colin Firth, en þau felldu hugi saman og enduðu á því að gifta sig.

Portúgalir náðu því miður ekki að viðhalda árangrinum frá 1996, en ári seinna lenti framlag þeirra „Antes do adeus“ í síðasta sæti með nákvæmlega engin stig. Ekki var lagið þó einhver algjör hörmung, en talað hefur verið um þetta sem eitt af þeim „núll-stiga“ lögum í Eurovision-sögunni sem áttu slík örlög hvað síst skilið. En dæmi nú hver fyrir sig. Takið alla vega eftir hinum mjög svo áhugaverðu bakröddum sem fylgdu Céliu Lawson upp á svið. Sólgleraugu innandyra var víst málið árið 1997.

 

„Núllti“ áratugurinn – ný öld og nýjar áherslur – sem tókust misvel

Árið 1999 voru settar nýjar reglur í Eurovision sem gerðu þjóðum kleift að syngja á því tungumáli sem það kaus. Margar þjóðir gripu gæsina strax og fóru að flytja lög sín eingöngu á ensku. Portúgal hoppaði þó ekki á þann vagn, og hefur reyndar ekki enn gert það í dag, og hafa öll framlög Portúgala síðan reglan var tekin í gildi verið flutt á portúgölsku, alfarið eða að stærstum hluta.

Framlag Portúgala árið 2003 var fyrsta framlag þeirra sem var ekki flutt alfarið á portúgölsku, en í lifandi flutningi á keppniskvöldinu sjálfu söng Rita Guerra síðustu mínútuna af lagi sínu „Deixa-me Sonhar“ á ensku. Þessi útgáfa var þó aldrei gefin út og var þetta því bara gert fyrir stóra sviðið. Tilkoma enskunnar átti þó ekki eftir að veita Portúgölum mikla lukku, því lagið endaði einungis í 22. sæti af 26.

Næstu ár á eftir áttu eftir að vera frekar léleg uppskerutíð hjá greyið Portúgölum, en í fjögur ár í röð þurftu þeir að sitja eftir í undanúrslitunum með sárt ennið. Það væri þó seint hægt að segja að Portúgalir hafi ekki verið að reyna að fylgja tískustraumum tímabilsins, þar sem hin hefðbundna portúgalska ballaða fékk að víkja fyrir nútímalegu poppi. Mismunandi eru þó skoðanir fólks á því sem Portúgalir buðu uppá, en margir eru sammála um að lágpunktinum hafi verið náð árið 2006. Að minnsta kosti voru stúlkurnar í Nonstop ágætis kandídatar í að hljóta Barböru Dex verðlaunin (verðlaun fyrir verst klæddu keppendurna) það árið, sem og þær reyndar gerðu.

En árið 2008 fór að birta yfir hjá Portúgölum. Þá mættu þeir með ballöðuna „Senhora do mar“ sungna af Vâniu Fernandez. Lagið var í miklu uppáhaldi á meðal aðdáenda og þegar var verið að tilkynna þau lönd sem kæmust í úrslitin sungu áhorfendur í salnum „Portugal, Portugal“ til stuðnings. Framlag Portúgala náði einnig að hrífa restina af Evrópu. Lenti það í öðru sæti í seinni undankeppninni og komust Portúgalir því í úrslitin í fyrsta skiptið síðan undanúrslitin voru sett á. Samkvæmt veðbönkum voru þeir til alls líklegir þetta árið og voru margir aðdáendur jafnvel farnir að tala um að Portúgal myndi loksins vinna keppnina. Lokaútkoman var þó 13. sætið, heldur lægra en margir höfðu átt von á, en var þetta þó besti árangur Portúgala síðan 1998.

 

Áratugurinn sem er að líða – hápunktinum náð

Endurvakning þess að bjóða upp á hefðbundna portúgalska tónlist sungna á portúgölsku virtist ganga vel í Evrópubúa og árið 2010 komst Portúgal í úrslitin þriðja árið í röð lagi eftir þeirri formúlu. Þeir ákváðu þó að breyta aðeins til árið 2011 og vakti portúgalska framlagið það ár þó nokkra athygli, ekki endilega af hinu góða þó. Sungið var á portúgölsku en að þessu sinni var einnig gripið til húmorsins. Framlagið hét „A luta é alegria“ og var flutt af hópnum Homens da Luta og fjallaði um baráttuna sem liggur að baki þess að láta rödd sína heyrast. Fyrirmyndin var barátta Portúgala í Nellikubyltingunni – sem fjallað var um í fyrri hluta sögu Portúgala – og mættu hljómsveitarmeðlimir á svið í klæðnaði í anda áttunda áratugarins. Einnig voru þeir með mótmælaspjöld sem þeir veifuðu óspart á hinum ýmsu tungumálum. Gaman er að segja frá því að eitt þeirra var á íslensku, en eitthvað hafði útfærslan hjá þeim klikkað lítillega. Á skiltinu stóð nefnilega „BaráttU er gleði“, en hefði náttúrulega átt að vera „BaráttA er gleði“. Líklegast má kenna þýðingarforritinu google translate þar um. Framlagið vakti þó ekki mikla lukku á meðal Evrópubúa og endaði í 18. sæti af 19 í fyrri undankeppninni.

Þar sem húmorinn með vott af satíru fór ekki vel í Evrópubúa ákváðu Portúgalar að snúa aftur til þess hefðbundna. Framlag þeirra árið 2012, „Vida minha“, var flutt af Filipu Sousa og bar mikinn keim af fado tónlistarstílnum. En allt kom fyrir ekki, Portúgalir sátu eftir í undanriðlinum í 13. sæti sem var þó aðeins nær markmiðinu en árið áður.

Portúgal tók sér pásu árið 2013 en mættu fílefldir til leiks árið 2014 og ætluðu sér stóra hluti. Mættu þeir með framlag sitt „Quero ser tua“ sem flutt var að gleðisprengjunni Suzy. Aðdáendur tóku miklu ástfóstri við lagið, enda er það hressandi með eindæmum, og endurkoma Portúgala í úrslitin var von margra. Suzy varð þó að sætta sig við 11. sætið í sinni undankeppni en var þó einungis hársbreidd frá því að ná markmiði sínu. Fékk lagið einungis einu stigi færra en lagið í 10. sæti, sem var einmitt framlag San Marínó flutt af heiðursgóðkunningja Eurovision henni Valentinu Monetta.

Portúgalir mættu til leiks árið 2015 en árangurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Tóku þeir sé pásu árið 2016 og sögðu ástæðuna vera fjárhagsörðugleika portúgalska ríkissjónvarpsins.

Þeir skráðu sig þó til leiks árið 2017 og ættu allir að vita hvernig sú saga endaði. Þökk sé systkinunum Salvador og Luisu Sobral erum við á leiðinni til höfuðborgar Portúgal, Lissabon, í fyrsta skiptið í sögu Eurovision og er spenningurinn gjörsamlega að fara með marga. Þótt flestir ættu að muna eftir sigurlagi síðasta árs ætlum við að rifja það einu sinni enn upp, hvort sem ykkur líkar það betur eða verr. Bjóðum við meira að segja upp á sigurflutninginn á laginu, þar sem þau systkinin flytja lagið saman.

Hér með lýkur yfirferð á sögu Portúgal í Eurovision. Einkennist hún af hæðum og lægðum, mest megnis þó lægðum, en þrautseigja Portúgala sannar fyrir okkur að góðir hlutir gerast hægt.

Góða ferð til Lissabon og gleðilegt Eurovision.