Það voru ekki einungis Íslendingar sem völdu sér sitt framlag til Eurovision um helgina. Eistar héldu einnig sína undankeppni, Eesti Laul, en sú keppni vekur yfirleitt mikla athygli og mikið upp úr henni lagt.
Í ár var engin undantekning. 20 lög hófu keppni og var þeim skipt niður í tvær undankeppnir, 10 lög í hvorri. Þar mátti finna allt frá þjóðlagapoppi til gothara-rokks, rappi á eistnesku til óperu á ítölsku og unglingapoppi til þægilegs heimilispopps.
Úrslitakeppnin samanstóð svo af 10 lögum og var haldin í Saku Suurhall í höfuðborginni Tallinn, en þar var einmitt Eurovision sjálft haldið árið 2002. Keppninni var skipt í tvær umferðir. Í fyrri umferðinni voru öll 10 lögin flutt og 50% vægi dómnefndar og 50% vægi símakosningar úrskurðaði um þrjú efstu lögin. Í seinni umferðinni voru þau þrjú efstu lögin síðan flutt aftur og sigurvegarinn úrskurðaður með 100% símakosningu. Hljómar nokkuð kunnuglega.
Að kosningu lokinni var það óperupoppið “La Forza”, flutt af Elinu Nechayevu, sem stóð uppi sem sigurvegari.
- sæti
“La Forza” hlaut 12 stig bæði frá dómnefnd og úr símakosningu í fyrri umferðinni og flaug því inn í seinni umferðina með þó nokkrum yfirburðum, með 24 stig en þau í öðru og þriðja hlutu “einungis” 15 og 14 stig. Það mætti því segja að Elina hafi nokkurn veginn verið með pálmann í höndunum þegar seinni umferðin fór af stað. Og það kom á daginn, Elina stóð uppi sem sigurvegari og flytur framlag Eista í Lissabon í vor. Ef yfirburðir Elinu í fyrri umferðinni þóttu miklir þá mætti segja að yfirburðir hennar í seinni umferðinni hafi verið gríðarlegir. Lagið “La Forza” endaði með 43.455 símaatkvæði, hvorki meira né minna en 70% af heildaratkvæðafjölda. Það er því ekkert vafamál hver vann hug og hjörtu Eista þetta árið í Eesti Laul.
Elina Nechayeva er 26 ára gömul eistnesk óperusöngkona og er fædd í höfuðborginni Tallinn. Hún nam söng í Listaháskólanum í Tallinn og útskrifaðist síðan með mastersgráðu í klassískum söng frá tónlistar-og leiklistarháskóla Eistlands. Elina er þó söngkeppnum ekki ókunnug þar sem hún tók þátt í sjónvarpsþáttunum “Eesti otsib superstaari” (“Stjörnuleit Eistlands”) tvisvar sinnum ásamt því að hafa verið í topp þremur sætunum í “Klassikatähed” (“Klassískar stjörnur”) árið 2014. Einnig hefur hún tekið þátt í hinum ýmsu öðrum söngkeppnum bæði í Eistlandi og erlendis. Það mætti því segja að Elina búi yfir reynslu af því að syngja uppá sviði og ætti sú reynsla að nýtast henni vel á stóra sviðinu í Lissabon í vor.
2. sæti
Í öðru sæti endaði mikill góðkunningi Eurovision, hann Stig Rästa sem samdi og flutti framlag Eista árið 2015 ásamt þokkadísinni Elinu Born og samdi framlag Eista árið 2016. Í ár flutti hann sína eigin lagasmíð “Home”, og mætti eiginlega segja að hann hafi rétt slefað inn í seinni umferðina. Hann fékk 14 stig í heildina sem voru jafnmörg stig og lagið í 4. sæti, “Thousand Words” með Sibyl Vane. En þar sem Stig fékk fleiri stig úr símakosningunni var þriðja sætið úrskurðað hans og hann því kominn í seinni umferðina. Þar náði hann þó að stela öðru sætinu með 9.686 stig, sem var þó einungis 16% af heildaratkvæðum.
3.sæti
Í þriðja sæti endaði dúettinn Vajé með lagið “Laura (Walk With Me)”. Vajé endaði í öðru sæti í fyrri umferðinni með 15 stig, með einu stigi meira en Stig í þriðja sæti en 9 stigum á eftir Elinu í fyrsta sætinu. Strákarnir í Vajé töpuðu þó einhverju af forskoti sínu sem þeir höfðu á Stig í seinni umferðinni þar sem þeir enduðu í þriðja sæti með 8.506 atkvæði, 14% af heildaratkvæðunum. Vajé-dúettinn samanstendur af söngvaranum Stefan Airapetjan og plötusnúðnum/framleiðandanum Hans Noormets. Tiltölulega stutt er síðan þeir hófu samstarf sitt og var þetta því í fyrsta sinn sem þeir komu fram í Eesti Laul. Hver veit þó hvort maður fái að sjá þá aftur í eistnesku forkeppninni.
Fyrri umferð – Heildarúrslit
Flytjendur | Lag | Dómnefnd | Símaatkvæði | Alls | Sæti | |||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Karl Kristjan & Karl Killing feat. Wateva | “Young“ | 47 | 3 | 5786 | 8 | 11 | 6 |
2 | Eliis Pärna & Gerli Padar | “Taevas“ | 34 | 1 | 2308 | 3 | 4 | 10 |
3 | Nika | “Knock Knock“ | 50 | 4 | 1991 | 1 | 5 | 9 |
4 | Sibyl Vane | “Thousand Words“ | 86 | 10 | 2898 | 4 | 14 | 4 |
5 | Stig Rästa | “Home” | 79 | 7 | 5714 | 7 | 14 | 3 |
6 | Vajé | “Laura (Walk with Me)” | 51 | 5 | 5995 | 10 | 15 | 2 |
7 | Elina Nechayeva | “La Forza” | 113 | 12 | 37628 | 12 | 24 | 1 |
8 | Frankie Animal | “(Can’t Keep Calling) Misty“ | 85 | 8 | 2031 | 2 | 10 | 7 |
9 | Iiris & Agoh | “Drop That Boogie“ | 52 | 6 | 3427 | 6 | 12 | 5 |
10 | Evestus | “Welcome to My World“ | 41 | 2 | 2977 | 5 | 7 | 8 |
Seinni umferð – Heildarúrslit
Stig Rästa – “Home” – 9686 stig (16%)
Vajé – “Laura (Walk with Me)” – 8506 stig (14%)
Elina Nechayeva – “La Forza” – 43445 stig (70%)
Nú er bara að bíða og sjá hvort Elinu Nechayevu takist að koma Eistum í úrslitin á ný, en þeir hafa þurft að bíta í það súra epli að vera skildir eftir í undanúrslitunum síðustu tvö ár.