YOU DECIDE – BRETAR VELJA FRAMLAG SITT Á MIÐVIKUDAGINN


Bretar þrá ekkert heitar en að vinna aftur Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Framan af voru Bretar næstum áskrifendur að topp sætum í keppninni, en frá því að tungumálareglan var afnumin árið 1999 hafa Bretar ekki riðið feitum hesti frá keppninni. Besti árangur Breta á þessari öld er þriðja sæti árið 2002 þegar Jessica Garlick söng lagið Come Back og fimmta sæti árið 2009 með Jade Ewen og laginu It’s My Time. Þrátt fyrir að Bretar hafi lagt mikinn metnað í að finna rétta lagið til að vinna Eurovision hafa þeir ekki haft erindi sem erfiði. Finnst mörgum síðastliðnir tæpir tveir áratugir einkennst af niðurlægingu fyrir þjóðina sem hefur alið af sér marga af frægustu tónlistarmönnum veraldar. Bretum þykir það ekki ásættanlegur árangur að deila þeim vafasama titli ásamt Norðmönnum að vera þær þjóðir sem hafa oftast lent í síðasta sæti á 21. öldinni.

En Bretar eru keppnisfólk og hafa snúið vörn í sókn og blása til glæsilegrar keppni sem fram fer í Brighton miðvikudaginn 7. febrúar n.k. Keppnin sem þeir kalla You Decide, verður sýnd á BBC Two klukkan 19:30 í beinni útsendingu frá Brighton Dome, sama stað og ABBA vann Eurovision árið 1974. Til að undirstrika það að Bretum er full alvara með að vinna Eurovision hafa þeir meira að segja leitað aðstoðar hins sænska hjartaknúsara Måns Zelmerlöw sem mun ásamt Mel Giedoryc kynna bresku keppnina.

Í vetur biðu aðdáendur með eftirvæntingu eftir því að tilkynnt yrði hvaða sex lög myndu keppa um að verða fulltrúi Breta í Eurovision. Í byrjun janúar fór aðdáendaheimurinn á hliðina þegar lista yfir lögin virtist hafa verið lekið á netið. Orðið á götunni var að einn lagahöfundurinn væri Íslendingum vel kunnugur úr Eurovision heiminum. Þegar BBC kynnti lögin formlega um tveim vikum síðar, kom í ljós að listinn sem var lekið var ekki alveg 100% réttur, en það kom svo sem ekki að sök. Orðrómurinn um Íslendinginn var staðfestur og það gladdi marga aðdáendur að sjá nafn Gretu Salóme í hópi höfunda lagsins Crazy sem flutt verður af söngkonunni Raya.

FÁSES.is hefur tekið saman lista yfir lögin sex sem keppa um sæti Breta í úrslitum Eurovision.

Asanda – Legends

Asanda Jezile er 16 ára gömul Lundúnamær ættuð frá Suður-Afríku. Hún kom fyrst fram 11 ára gömul í Britain’s Got Talent þar sem hún komst í úrslitaþáttinn en endaði því miður í 12. sæti.

Lagið sem Asandra syngur Legends er samið af Christopher Wortley, Laurell Barker og Roel Rats.

Goldstone – I Feel That Love

Goldstone er tríó skipað Aimie Atkinson, Helen Wint og Rhiannon Porter. Söngkonurnar eru allar reyndar leik- og söngkonur og hafa bæði komið fram á sviði og í sjónvarpi.

Lagið sem Goldstone munu flytja okkur heitir I Feel That Love og er eftir Eric Lumiere, Joakim Buddee, Laura White og Roel Rats.

Jaz Ellington – You

Jaz Ellington tók þátt í fyrstu þáttaröðinni af Voice UK árið 2012 og komst í undanúrslitaþáttinn þar sem hann endaði þátttöku sína.

Jaz Ellington flytur lagið You eftir Ashley Hicklin, Herman Gardarfve og Laura White.

Liam Tamne – Austronaut

Liam Tamne er menntaður leikari og hefur leikið í fjölda leiksýninga. Liam varð þekktur í Bretlandi eftir þátttöku sína í annarri þáttaröð af Voice UK.

Liam flytur lagið Austronaut eftir Ashley Hicklin, Jacob Pedersen, Jeanette Bonde og Rune Braager.

RAYA – Crazy

Rachel Clark, sem kemur fram undir listamannsnafninu Raya hefur mikla reynslu í að koma fram. Hún er söngvari, dansari og plötusnúður og hefur þar að auki leikið í þáttunum Mr. Selfridge hjá ITV.

Raya flytur lagið Crazy eftir Emil Rosendal Lei, Gretu Salóme Stefánsdóttiu og Samir Salah Elshafie.

SuRie – Storm

Susanna Marie eða SuRie er píanóleikari og söngkona sem hefur aðallega starfað í klassískri tónlist. Hún hefur einu sinni staðið á Eurovision sviðinu þegar hún var bakrödd hjá Loïc Nottet frá Belgíu árið 2015. SuRie var þar að auki tónlistarstjóri Blanche sem keppti fyrir Belgíu í Kænugarði

SuRie syngur lagið Storm eftir Nicole Blair, Gil Lewis og Sean Hargreaves

FÁSES liðar ætla að gera sér glaðan dag og horfa saman á You Decide á neðri hæðinni á VEÐUR bar/café, Klapparstíg 33, 101 Reykjavík miðvikudaginn 7. febrúar. Upphitunin hefst klukkan 19:00. Nánari upplýsingar á Facebook síðu viðburðarins.