Á hverju ári framkvæma stærstu regnhlífarsamtök Eurovisionklúbba í heiminum, OGAE International, risastóra könnun þar sem félagar aðdáendaklúbbanna velja sín eftirlætis Eurovisionlög í keppninni í ár. Þessi könnun er síðan m.a. notuð í veðbankasúpuna til að spá fyrir um sigurvegara keppninnar í ár enda hefur félagið innanborðs 44 aðdáendaklúbba með um það bil 10 þúsund meðlimum vítt og breitt um heiminn. FÁSES tilheyrir að sjálfsögðu samtökunum og er búin að senda tengil á könnunina á sína félagsmenn með tölvupósti. Endilega ekki gleyma að greiða atkvæði – kosningunni verður lokað á miðnætti á morgun, 23. apríl! Úrslit Íslands verða síðan tilkynnt 25. apríl hér á FÁSES.is.
Eins og staðan er nú hafa um helmingur klúbbanna kosið og hægt er að fylgjast með kosningunni hér.
Tíu efstu sætin raðast nú svona:
- Ítalía, 239 stig
- Belgía, 162 stig
- Svíþjóð, 156 stig
- Frakkland, 124 stig
- Eistland, 111 stig
- Búlgaría, 58 stig
- Portúgal, 44 stig
- Ísrael, 42 stig
- Makedónía, 38 stig
- Finnland, 29 stig
Ísland hefur því miður bara fengið 3 stig fram að þessu í OGAE Big Poll, 1 stig frá OGAE Denmark og 2 stig frá OGAE Croatia. Í efsta sæti trónir Francesco Gabbani, ítalska sjarmatröllið, en fátt virðist koma í veg fyrir sigur hans í OGAE Big Poll þar sem hann er nú þegar búin að krækja í 17 af 21 12stigunum! Einnig vekur athygli hvað fimm efstu löndin eru langt á undan hinum í stigatöflunni. Eflaust kemur mörgum Íslendingnum á óvart hve portúgalska lagið er neðarlega, einungis með 44 stig, en það lag fékk t.d. mjög jákvæða umfjöllun í Alla leið um daginn. Enn eru nokkur lönd sem hafa ekki fengið stig í könnuninni enn; Albanía, Tékkland, Þýskaland, Litháen, Malta, Moldavía, Holland, San Marínó, Serbía, Slóvenía, Spánn og gestgjafinn í ár, Úkraína.
Þessi topp tíu listi er ekki alveg í samræmi við veðbankana eins og þeir standa núna. Hjá Oddchecker raðast þessi lönd svona í topp tíu: Ítalía, Búlgaría, Svíþjóð, Portúgal, Belgía, Ástralía, Armenía, Frakkland, Aserbaídsjan og Danmörk. Eins og sjá má eru Eurovision aðdáendur mikið hrifnari af Belgíu en Búlgaríu en þessu er akkúrat öfugt farið í veðbankaspám. Aðdáendurnir eru heldur ekki eins hrifnir af Armeníu, Ástralíu, Aserbaídsjan og Danmörku eins og spárna gefa aftur á móti til kynna.