Þátttaka í símakosningu í Söngvakeppni sjónvarpsins hefur sjaldan, ef nokkru sinni verið jafngóð og í ár. Alls voru 115.518 atkvæði greidd í fyrri umferð símakosningar sem er tæplega 106% aukning frá því í fyrra. Fjöldi atkvæða hefur verið gerður opinber síðan árið 2015 en árin 2007-2014 var aðeins gefið upp hvaða lög hefðu lent í efstu sætunum. Árið 2006 voru atkvæði efstu þriggja laganna tilkynnt og samanlagður fjöldi þeirra var 110.150. Því gæti hugsast að heildarfjöldi atkvæða hafi verið meiri árið 2006 en í fyrri umferð árið 2017.
Eftirfarandi skífurit sýnir dreifingu atkvæða milli laganna 7 sem kepptu til úrslita. Rúmlega 76% greiddra atkvæða fóru til laganna Paper, Is this love? og Tonight.
Eins og sjá má var dreifing atkvæða talsvert jafnari í fyrra og fyrir tveimur árum fengu 3 lög tæp 68% atkvæða. Atkvæðadreifingin milli þessara þriggja laga var þó mun jafnari en atkvæðadreifing efstu þriggja laganna í ár.
Ef atkvæðafjöldi lagsins Paper er settur í samhengi við heildaratkvæðafjölda síðustu ára fæst nokkuð merkileg niðurstaða. Ef eitthvert eitt lag hefði fengið 45.258 atkvæði í fyrra hefði það þýtt 80,6% allra greiddra atkvæða. Borið saman við árið 2015 hefði það þýtt 53% allra greiddra atkvæða.