Nýja stigakerfið í Eurovision 2016

Sigríður Halldórsdóttir

Sigríður Halldórsdóttir

Á Eurovision í ár kynna Svíar til sögunnar mestu breytingar sem orðið hafa á 12 stiga kerfinu frá því að það var tekið í notkun árið 1975. Áður gaf hver þjóð 1-8, 10 og 12 stig eftir samanlögðum niðurstöðum úr símakosningum og dómnefndum. Í ár mun hver þjóð hafa úthlutunarvald á tveimur settum af 1-8, 10 og 12 stigum. Annað settið verður miðað við samanlagt mat dómnefndanna á lögunum. Hitt settið verður gefið eftir árangri laganna í símakosningunni.

Jon Ola Sand

Jon Ola Sand

Í stigagjöfinni munu kynnarnir frá hverju landi gera kunngjörð atkvæði dómnefndanna. 1-8 og 10 stig  stig munu birtast á skjánum og mun kynnirinn einungis segja hvaða lag hlýtur 12 stig frá dómnefnd viðkomandi lands. Á meðan verið er að safna saman stigum dómnefndanna í beinni útsendingu mun Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri Eurovision, sitja sveittur í sæti sínu að reikna saman stigin úr símakosningunum. Þegar dómnefndastigin hafa öll verið kynnt munu Måns Zelmerlov og Petra Mede lesa upp samanlögð stig laganna úr stigasúpu Jons Ola. Það fer þannig fram að byrjað verður á því landi sem fær fæst stig í símakosningunni og svo koll af kolli og í lokin eru lesin upp stig þess sem hlaut flest atkvæði í stigakosningunni. Þannig að sigurvegarinn verður ekki ljós fyrr en í lok útsendingarinnar.

Í ár eru því fleiri stig en nokkurn tíman hafa verið í pottinum, eða 4872 stig. Stærstu stigapottarnir hingað til voru í keppnunum 2011 og 2008 þegar 43 þjóðir tóku þátt og gáfu samtals 2494 stig. Þetta þýðir að það mun falla stigamet í ár. Núverandi met á Alexander Rybak sem fékk 387 stig árið 2009 þegar hann vann fyrir Noreg. Í ár eru líka tvöfalt fleiri 12 stig í boði. Þannig að 12 stiga met Íslandsvinkonunnar Loreen er einnig í hættu. Loreen fékk 12 stig frá 18 löndum árið 2012 fyrir Svía.

FÁSES.is hefur reiknað saman stigin árið 2015 miðað við nýja stigakerfið. Eftir að dómnefndaratkvæðin hefðu verið kynnt hefðu Svíar verið í 1. sæti, Lettar í 2. sæti og Rússar í 3. sæti. Hinir sykurhúðuðu ítölsku drengir í Il Volo hefðu verið í 6. sæti. Þegar einungis hefði átt eftir að lesa upp þrjú efstu löndin úr símakosningunni, Svíþjóð, Rússland og Ítalíu hefði verið tilkynnt um stig Svía sem lentu í 3. sæti í símakosningunni. Þannig að það hefði ekki verið ljóst fyrr en eftir að stig Ítala hefðu verið lesin upp að Svíar hafi unnið – s.s. ennþá meira spennandi að horfa á stigagjöfina. Röðin á toppnum hefði breyst. Rússar hefðu endað í 3. sæti og Ítalir í 2. sæti. En nýja stigakerfið hefði ekki ógnað sigri Måns Zelmerlov í Vín.