Fyrri hlutinn af sögu Svíþjóðar í Eurovision endaði í Jerúsalem með sigri Charlotte Nilsson. Við höldum áfram þaðan sem frá var horfið en færum okkar þvert yfir alla Evrópu, alla leiðina til Stokkhólms.
Globen fyrir 16 árum og fleiri breytingar á fyrirkomulagi
Keppnin árið 2000 var haldin í Globen, Stokkhólmi. Hljómar kunnuglega? Því keppnin í ár er haldin á nákvæmlega sama stað. Opnunaratriði keppninnar vakti mikla athygli en það byrjaði á því að greina mátti varir í anda Rocky Horror á skjánum telja upp allar þátttökuþjóðir ársins. Að því loknu birtist ung sænsk snót á sviðinu og bauð Evrópu velkomna. Deila má um hvort að uppistand kynnanna tveggja sem síðan fylgdi var partur af opnunaratriðinu, en skemmtilegt var það engu síður.
Opnunaratriðið í Globen árið 2000
https://www.youtube.com/watch?v=vb-07BeZLCk
Framlag Svía þetta árið vakti einnig mikla athygli en lagið var flutt af Roger Pontare. Texti lagsins dásamaði menningu hinna ýmsu frumbyggjaþjóða og lagði áherslu að mikilvægt væri að viðhalda þeim. Pontare sjálfur klæddist búningi sem fékk innblástur sinn úr lappneskri menningu og með honum á sviðinu var dansari af kanadískum frumbyggjaættum, inúíti frá Thule í Grænlandi og norskur Sami. Heimavöllurinn fór ágætlega með Svíana sem enduðu í 7. sæti af 24 þjóðum.
Svíþjóð 2000 – When Spirits Are Calling My Name – Roger Pontare
Einni stórri breytingu á fyrirkomulagi keppninnar var komið á þetta árið, en þetta var árið var hinni svokölluðu ‘Big Four’-reglu komið á. Reglan felur í sér að Bretar, Frakkar, Spánverjar og Þjóðverjar viðhalda þátttökurétti sínum hvernig sem árangur þeirra í fyrri keppnum hafi verið, en árið 1997 hafði reglunum verið breytt þannig að þær þjóðir sem bjuggu yfir besta meðalárangrinum 4 ár á undan hverri keppni fengu að taka þátt. ‘Big Four’-reglan er í raun enn í gildi, nema að Ítalía hefur bæst í hópinn og kallast hún því ‘Big Five’-reglan í dag. Annað sem var nýtt á nálinni í þessari keppni var að henni var í fyrsta skiptið sjónvarpað á internetinu.
Hæðir og lægðir: Fimmti sigurinn í höfn og eftirseta í undankeppni
Næstu ár á eftir voru nokkuð góð fyrir Svíana en þeir náðu að halda sér inn á topp 10 allt til ársins 2006, að undanskildu 19. sætinu 2005. Árið 2006 birtist einn af góðkunningjum Eurovision, Carola, sem hafði einmitt unnið allt heila klabbið árið 1991. Henni tókst þó ekki að leika þann leik eftir heldur þurfti hún að ‘sætta sig’ við fimmta sætið.
Segja má að næstu fjögur ár á eftir hafi verið eins konar lægðartímabil í gengi Svía í Eurovision. Árin 2007-2009 tókst þeim að komast í úrslitakeppnina, en undankeppnum hafði verið komið á árið 2004, en árið 2010 kom fallið. Ungstirninu Önnu Bergendahl tókst ekki að komast í úrslitakeppnina, rétt missti af lestinni í 11. sæti í sinni undankeppni, og er þetta eina skiptið sem Svíar hafa ekki verið með í lokakeppninni, fyrir utan auðvitað þau ár sem þau voru ekki með yfir höfuð.
Ef það er einhver þjóð sem tekur Eurovision alvarlegra heldur en Íslendingar þá eru það Svíarnir og þóttu þessi hlutskipti greyið Önnu ekkert annað en hneyksli. Sögur herma að Anna hafi verið svo miður sín að foreldrar hennar þurftu að koma að ná í hana og fara með hana beinustu leið heim. Sem betur fer þurftu þeir ekki að fara langt, þar sem keppnin var haldin í Osló og þurftu því rétt að hoppa yfir landamærin frá Svíþjóð. Við seljum þetta þó ekki dýrara en við keyptum það, en góð saga engu að síður.
Svíþjóð 2010 – This is My Life – Anna Bergendahl
Svíar voru þó ekki lengi að jafna sig á áfallinu og mættu með hin vinsæla Eric Saade ári seinna, en segja má að Eric hafi brotið blað í sögu Eurovision þegar hann mætti með glugga á sviðið og gjörsamlega stútaði þeim. Eric Saade náði þriðja sætinu og Svíar höfðu fengið uppreisn æru.
Svíþjóð 2011 – Popular – Eric Saade
Hápunktinum var þó ekki náð. Ári seinna mættu Svíar til Baku í Azerbaijan með Loreen í broddi fylkingar og komu, sáu og sigruðu. Fimmti sigurinn var í höfn og voru Svíar farnir að klífa hratt upp listann yfir þjóðir með flesta sigra í farteskinu. Loreen náði þó ekki einungis að sigra keppnina heldur setti hún einnig met í ‘tólfu’-fjölda, en hún hlaut hvorki meira né minna en 18 ‘tólfur’. Þess að auki náði hún öðrum hæsta stigafjölda í sögu Eurovision, en norska framlagið frá 2009 með Alexander Rybak í broddi fylkingar er það eina sem hefur fengið fleiri stig. Það má því með sanni segja að Svíar hafi ekki látið eitt slæmt Eurovision-ár á sig fá, heldur ákveðið koma fílefldir til baka og taka keppnina með trompi í staðinn.
Svíþjóð 2012 – Euphoria – Loreen
Keppnin haldin í Malmö: Enn fleiri breytingar á fyrirkomulagi
Heimavöllurinn árið 2013 var að þessu sinni í Malmö. Nokkurrar nýbreytni gætti í þessari keppni hvað varðar fyrirkomulagið á keppninni og ber þar hæst að nefna breytingu á uppröðun flutnings framlaga á sviðinu. Fram til þessa árs hafði verið ákvarðað um í hvaða röð lögin yrðu flutt með því að draga úr potti á algjörlega tilviljanakenndan hátt. Breytingin fólst í því í stað þess að dregið var um röðina voru það ‘pródúserarnir’ sem völdu hvar í röðinni hver þjóð myndi flytja sitt framlag. Drátturinn var þó að hluta til til staðar, en nú var einungis dregið um hvort hver þjóð yrði í fyrri eða seinni hluta keppninnar. Tilgangurinn með þessari breytingu var að gefa öllum þjóðum jafna möguleika á velgengni, með því að geta raðað framlögunum þannig upp að hvert fyrir sig myndi skera sig úr á einhvern hátt.
Önnur áberandi breyting var sú að Svíarnir ákváðu að taka upp svokallað ‘Parade of nations’ sem hafði verið notast við í Junior Eurovision Song Contest frá árinu 2004. Þessu var þannig háttað að hver þjóð gekk inn á sviðið með sinn þjóðfána yfir brú sem staðsett var fyrir ofan áhorfendaskarann í þeirri röð sem lögin voru flutt á sviðinu. Markmið Svíanna var að koma þessu á sem hefð og hefur tekist það hingað til, að minnsta kosti var notast við útgáfur af þessari kynningu á þjóðunum bæði árið 2014 og 2015. Við reiknum nú stórlega með því að Svíarnir eigi eftir að notast við þetta í ár líka.
Opnunaratriði og ‘Parade of Nations’ 2013
https://www.youtube.com/watch?v=Ab_KZ5SnKow
Enn önnur breyting sem var áberandi þetta árið var hvernig áhorfendum var komið fyrir í salnum á meðan keppninni stóð. Hingað til hafði sá háttur verið hafður á að á gólfsvæðinu fyrir framan sviðið voru aðdáendur og aðrir aðdáendur í sætum. Svíarnir tóku hins vegar það upp að partur af gólfsvæðinu varð að standandi stæðum og ætlunin var að það yrði svæði fyrir þá aðdáendur sem væru hvað eldharðastir þegar kom að Eurovision. Skiptar skoðanir voru á þessari breytingu til að byrja með en þetta fyrirkomulag hefur þó haldist til dagsins í dag. Því verður ekki neitað að mikil stemmning myndast á gólfsvæðinu þegar eldheitustu Eurovision-aðdáendurnir safnast saman með fánana sína og skín sú stemmning í gegnum sjónvarpskjái út um allan heim. Annað sem vakti athygli þetta árið var að Svíar ákváðu að vera einungis með einn kynni og var það í fyrsta skiptið síðan 1995 sem einungis einn kynnir var á sviðinu.
Hvað varðar gengi Svía á heimavelli þá var hann hálfgert miðjumoð. Svíar enduðu í 14. sæti, mörgum að óvörum, af 26 og þrátt fyrir að það hljómi ekki eins og neitt svakalega lélegur árangur þá er þetta versti árangur Svía á árunum 2011 til dagsins í dag. Til gamans má þó geta þess að þetta er betri árangur en Íslendingar hafa náð síðan 2009.
Svíþjóð 2013 – You – Robin Stjernberg
Sjötti sigurinn í höfn
Keppnin árið 2014 var haldin rétt hinum megin við brúnna frá Malmö, í Kaupmannahöfn. Svíarnir héldu ekki keppnina og unnu ekki en samt sem áður settu þeir sitt mark á keppnina. Hin hávaxna Sanna Nielsen flutti framlag Svía þetta árið og komst alla leið upp í þriðja sætið. Lagið sat undir smá gagnrýni fyrir þær sakir að partur af texta lagsins, sem var á ensku, þótti ekki málfræðilega réttur, en Sanna lét það ekki á sig fá og heillaði að minnsta kosti nógu marga Evrópubúa til að ná inn á topp 3.
Ári seinna mættu Svíar til Austurríkis með miklum látum, að minnsta kosti var framlagi þeirra spáð mikilli velgengni. Framlag Svía sætti þó nokkurri gagnrýni þar sem lagið þótti líkjast um of laginu ‘Lovers in the sun’ sem gefið hafði verið út af David Guetta, ásamt því að spýtukarlinn sem sást á sviðinu með Måns þótti líkjast um of annarri fígúru úr myndbandi fjöllistamannsins A Dandypunk. Spárnar trompuðu þó gagnrýnisraddirnar þar sem Måns Zelmerlöw og litli spýtukallinn hans náðu að heilla Evrópubúa upp úr skónnum og tryggja Svíum sinn sjötta sigur, sinn annan sigur síðan 2012. Var þetta í fyrsta skiptið sem sama þjóðin vann tvisvar sinnum eftir að undankeppnirnar voru settar á laggirnar . Einnig var þetta í fyrsta skiptið síðan byrjað var að notast við dómnefndir í bland við símakosningu 2009 sem sigurlag keppnirnar var ekki það lag sem var efst í símakosningunni. Svíar náðu þriðja sætinu í símakosningu en þegar dómnefndaratkvæði, þar sem Svíar lentu í fyrsta sæti, og símaatkvæði voru lögð saman stóðu Svíar uppi sem sigurvegarar. Með sigri sínum náðu Svíar líka þriðja hæsta stigafjölda í sögu Eurovision, og eiga því nú annað og þriðja sætið á þeim lista.
Svíþjóð 2015 – Heroes – Måns Zelmerlöw
Eins og allir ættu nú að vera búnir að komast að þá er keppnin í ár haldin í Globen, Stokkhólmi, í sömu höll og hún var haldin árið 2000.
Líkt og þegar Svíar héldu keppnina árið 1976 þá býr keppnin í ár yfir nýju kosningakerfi. Nýbreytnin í ár felst í því að ólíkt áður þegar dómaraatkvæði og símakosningu var blandað saman og gefin stig eftir því, þá verða dómaraatkvæði og símakosning aðskilin í ár. Framsetningin verður þannig að fyrst munu dómaraatkvæði vera tilkynnt á sama hátt og öll atkvæðin hafa verið tilkynnt síðustu ár, af fulltrúa frá hverju landi. Að því loknu verða atkvæði áhorfanda tilkynnt. Hugsunin á bak við þessa breytingu er að sögn framleiðanda keppninnar til að auka spennuna á bakvið hver sigurvegari keppninnar er, þar sem síðustu ár hefur það verið orðið nokkuð augljóst hver stendur uppi sem sigurvegari löngu áður en tilkynningu atkvæða lýkur. Er þetta nýja kosningakerfi alveg nákvæmlega eins og kerfið er í forkeppni Svíanna, Melodifestivalen, og má því draga þá ályktun að Svíarnir hafi komið sterklega að þessari nýju breytingu. Hægt verður að kynna sér betur þetta nýja kosningakerfi í ítarlegri pistli sem mun birtast á FÁSES.is síðar, en hér er stutt umfjöllun um breytingarnar.
SVT talar um nýjar reglur varðandi stigagjöf
Það verður spennandi að sjá hvernig þetta nýja stigakerfi mun koma út og ekki er hægt að neita fyrir það að pistlahöfundur er á barmi oföndunar af spennu fyrir komandi keppni. Við ljúkum þessari umfjöllun um sögu Svíþjóðar með yfirlitsmyndbandi af öllum framlögum Svía frá upphafi til ársins 2014, eða eins og Svíarnir segja: ‘nu är det dags för kvällens första snabbrepris’.
Svíar í Eurovision 1958-2014