Kæru lesendur. Við höldum áfram leitinni að keppandanum sem höndlar það best að vera Eurovision stjarna í Stokkhólmi í tvær vikur og þann sem verður landi og þjóð til sóma. Munu keppendur Söngvakeppninnar höndla lélega tæknimenn, krefjandi framkomudagskrá og pólitíkina í Eurovision? Til að ganga úr skugga um það fór FÁSES.is á stúfana og lagði hraðaspurningapróf fyrir keppendur.
Nú er komið að Gretu Salóme að taka FÁSES sviðið en hún mun syngja Raddirnar, lag og texti hvoru tveggja eftir hana, í Söngvakeppninni annað kvöld. Greta átti ekki í nokkrum vandræðum með hraðaspurningaprófið enda búin að fara fyrir Íslands hönd í Eurovision alla leiðina til Baku ásamt honum Jónsa árið 2012 (með lagið sem við munum aldrei gleyma). Greta hefur því bæði farið í gegnum þjálfun hjá sjálfum Jónatani Garðarssyni og “Disney Media Training” – af því að síðasta eina og hálfa árið hefur hún verið á samningi hjá Disney að spila og syngja á milljón. Talandi um reynslubolta!
Greta verður með tryllta grafík á sviðinu í Háskólabíó og FÁSES fékk að taka smávegis svindlmynd til að leka í æsta aðdáendur. Voilá: