Búningar í Eurovision: Einkennisbúningar

Þegar kemur að Eurovision er það ekki einungis lagið sem skiptir máli, sviðssetning og búningaval er ávallt nánast jafn mikilvægt og í mörgum tilfellum virðast búningar vekja meiri athygli heldur en lagið sjálft.

Í ár hefur búningaval Moldóvu vakið þó nokkra athygli, þar sem bakraddasöngvarar og dansarar klæðast lögreglubúningum ( af frekar kynþokkafullu gerðinni).

TH0000_3 TH0000_15

Myndir: Thomas Hanses (EBU)

Moldóvar eru þó ekki þeir einu í sögu Eurovision sem hafa fengið að láni einkennisklæðnað ákveðinnar stéttar þegar kemur að búningavali og er tilvalið að rifja upp nokkur vel valin atriði úr fyrri keppnum þar sem hinir ýmsu einkennisbúningar hafa fengið að njóta sín.

Það muna nú örugglega flestir Eurovision aðdáendur eftir frumraun Valentinu Monetta fyrir hönd San Marínó árið 2013; hinu áhugaverða Facebook lagi (sem mátti reyndar ekki heita Facebook lagið, en það er annað mál). En lagið hennar Valentinu var ekki það eina sem vakti umtal og athygli, því búningaval bakraddasöngvaranna vakti þó nokkra athygli. Þar mátti sjá einn lækni og einn flugstjóra ásamt einni klappstýru (það má svo sem deila um hvort klappstýrubúningur sé í raun einkennisbúningur, en hann fær að vera það hér).

San Marínó 2013 – The Social Network Song – Valentina Monetta

Flugtengdir einkennisbúningar virðast vera vinsælt þema í Eurovision, þar sem San Marínó er ekki eina þjóðin sem hefur heiðrað stéttir flugstjóra og flugfreyja-/þjóna á stóra sviðinu.

Framlag Slóveníu árið 2002 vakti mikla athygli fyrir frumlegt búningaval, en þar voru aðalsöngvararnir þrír klæddir upp sem glitrandi flugfreyjur og bakraddasöngvararnir sem virðulegir flugstjórar. Lagið sjálft var svo sem ekki tengt fluggeiranum, heldur var  það ósköp hefðbundið lag um ástina.

Slóvenía 2002 – Samo Ljubezen – Sestre

Bretar ákváðu þó að ganga skrefinu lengra nokkrum árum seinna. Framlag Bretlands árið 2007 innihélt miklar skírskotanir í flug, meðal annars hét lagið Flying the Flag, leikmunirnir á sviðinu komu beint úr ónothæfri British Airways flugvél og söngvararnir í Scooch klæddu sig upp sem flugstjóri, flugfreyjur og flugþjónn. Meira að segja bakraddasöngkonurnar voru með í þemanu, en þær voru klæddar um sem flugfarþegar (við reiknum alla vega með því).

Bretland 2007 – Flying the Flag – Scooch

https://www.youtube.com/watch?v=f9y8hqsYXTw

Þið megið svo dæma sjálf hvort atriðið hafi verið smekklegra (og skemmtilegra).

 

Svartfellingar ákvaðu að taka flugþemað enn einu skrefi lengra þegar þeir mættu í geimfarabúningum árið 2013.

Svartfjallaland 2013 – Igranka – Who See

 

Þernuþema hefur líka sést í Eurovision, oftar en einu sinni meira að segja. Þernurnar hafa þó ekki hingað til verið í aðalhlutverki en hafa látið sjá sig hjá bakröddunum. Sem dæmi má taka sænska framlagið frá 1986 þar sem sjá mátti þernu, enskan herramann og einhvers konar íþróttaiðkanda í bakröddunum.

Svíþjóð 1986 – E’ de’ det här du kallar kärlek? – Lasse Holm & Monika Törnell

 

Nágrannar þeirra í Finnlandi mættu svo með þernur í bakröddunum heilum 27 árum seinna, þegar hin líflega Krista Siegfrids mætti með brúðkaupið sitt á sviðið árið 2013. Í bakröddunum voru tvær litríkar þernur, og svo má náttúrulega deila um það hvort að brúðarkjóll teljist ekki vera ákveðin tegund af einkennisbúningi, þótt brúður sé ekki beinlínis starfsheiti.

Finnland 2013 – Marry me – Krista Siegfrids

 

Svo eru það nokkur atriði sem teljast vera á mörkunum hvað varðar einkennisbúninga. Bretland mætti til dæmis árið 2006 með fríðan, og ansi ungan, hóp bakraddasöngkvenna íklæddar skólabúningum. Þótt nemendur séu náttúrulega ekki starfsstétt út af fyrir sig, þá eru skólabúningar ákveðin tegund af einkennisbúningum (eða er það ekki? 🙂 )

Bretland 2006 – Teenage Life – Daz Sampson

 

Svo er það náttúrulega framlag Svisslendinga frá 2013. Í forkeppninni í Sviss var það hvorki meira né minna en meðlimir Hjálpræðishersins sem unnu keppnina, íklæddir í einkennisbúninga ‘hersins’, en í lokakeppninni í Svíþjóð þurfti hljómsveitin að skipta um nafn og búninga vegna ákveðinna reglna í Eurovision. En í Sviss þá leit atriðið svona út:

Sviss 2013 – You and Me – Heilsarmee (Takasa)