Austurríki, Austria, L’Autriche, Österreich

Í tilefni þess að ekki eru nema nokkrir dagar í að herlegheitin byrja í Vínarborg er ekki úr vegi að kynna okkur aðeins sögu Austurríkis í Eurovision, hæðir og lægðir og allt þar á milli.

Austurríki tók fyrst þátt árið 1957, annað árið sem keppnin var haldin. Þátttaka þeirra hófst þó ekki með neinum flugeldum því Austurríkismenn þurftu að bíta í það súra epli að verma síðasta sætið með einungis þrjú stig, með lagið Wohin, kleines Pony?  sungið af Bob Martin.

 

1957 – Wohin, kleines Pony? – Bob Martin

https://www.youtube.com/watch?v=3iXExMjhNy0

 

Strax árið eftir náði Austurríki þó inn á topp 5 og þurfti Austurríkismenn ekki að bíða neitt mjög lengi eftir sínum fyrsta sigri. Árið 1966 var það hinn þrautseigi Udo Jürgens með lagið Merci Chérie sem kom, sá og sigraði með þó nokkrum yfirburðum og gaf Austurríki sinn fyrsta (og í mjög langan tíma sinn eina) sigur í Eurovision. Þetta var þriðja árið í röð sem Udo tók þátt fyrir hönd Austurríkis og eins og máltækið segir: Allt er þegar þrennt er.

 

1966 – Merci Chérie – Udo Jürgens

https://www.youtube.com/watch?v=W7Y6tIMCQn8

 

Næstu ár á eftir áttu þó ekki eftir að gefa mikið af sér. Gengið var upp og ofan, Austurríki lenti þó í 5. sæti 1972 og 1976 (en þeir tóku sér pásu árin þar á milli) en þar fyrir utan lentu framlög þeirra yfirleitt fyrir neðan miðju. Restin af 8. áratugnum var af sama meiði en Austurríki komst inná topp 10 árið 1980 og rétt slefuðu þar inn árin 1982. 1983 og 1985. Þrátt fyrir frekar dapurlegt gengi á þessu tímabili þá finnast ýmsir gullmolar innan um framlög Austurríkis. Sem dæmi má taka hið frábærlega sviðsetta framlag frá 1977, Boom Boom Boomerang sem flutt var af sönghópnum Schmetterlinge. Titill lagsins og heiti sönghópsins er eiginlega allt sem segja þarf (fyrir ykkur sem eru ekkert sérlega vel að ykkur í þýsku þá þýðir Schmetterlinge fiðrildi 🙂 ) en það er samt sem áður nauðsynlegt að láta myndband fylgja með til að þið getið notið snilldarinnar til fullnustu.

1977 – Boom Boom Boomerang – Schmetterlinge

https://www.youtube.com/watch?v=BEL-1zWIijY

 

Það var svo hinn hárprúði Thomas Forstner (hann er reyndar ekkert sérlega hárprúður í dag) sem kom Austurríki inn á topp 5 árið 1989. Spurning hvort að fatnaðurinn, sem minnir helst á náttfataútgáfu af dyravarðabúningi, hafi hjálpað til en Austurríkismenn gátu alla vega keyrt frekar stoltir heim yfir landamærin frá Sviss þetta árið.

1989 – Nur ein lied – Thomas Forstner

https://www.youtube.com/watch?v=pc6Cj9Z9yig

 

Honum Thomas greyinu átti reyndar ekki eftir að ganga neitt sérlega vel þegar hann mætti aftur til leiks tveimur árum seinna, þar sem hann þurfti að flýja heim frá Ítalíu með skottið á milli lappanna eftir að hafa lent í síðasta sæti með hvorki meira né minna en núll stig.

10. áratugurinn var ekki mjög árangursríkur hjá greyið Austurríkismönnum, þeir lentu þó 10. sæti 1992, 1996 og 1999. Þar fyrir utan voru þeir yfirleitt að flækjast í kringum miðju eða fyrir neðan miðju. Það eru þó nokkur athyglisverð framlög og athyglisverðir karakterar sem Austurríki kynnti fyrir okkur hinum á þessu tímabili.

Sem dæmi má taka hinn tilfinningaríka Tony Wegas (1992 og 1993), sem að sögn átti að hafa verið einstaklega heillaður af henni Siggu Beintens okkar og átti erfitt með að kyngja því að Sigga hafði (lítinn sem) engan áhuga á honum.

Svo var það hinn eiturhressi George Nussbaumer sem tók þátt árið 1996. Hann mætti ásamt fríðu föruneyti bakraddasöngvara með eldhresst gospelslegið popplag sungið á mállýsku sem ber hið áhugaverða heiti Voralbergisch.

1996 – Weil’s da guat got – George Nussbaumer

 

Og talandi um áhugaverða karaktera, þá er nú ekki hægt að sleppa því að minnast á hinn einstaklega áhugaverða Alf Poier sem mætti á svæðið árið 2003 með pappakalla og falskar bakraddasöngkonur og skaut sér upp í 6. sætið, þrátt fyrir að hafa ekki haft mikinn meðbyr með sér fyrir keppnina. En eitthvað hefur Evrópu þótt heillandi við blessunina hann Alf, ætli það hafi ekki verið húmorinn í atriðinu því ekki var verið að gera mönnum auðvelt fyrir að skilja textann, en hann var sunginn á en einni þýsku mállýskunni sem finnst í Austurríki, Styrian.

 

2003 – Weil der Mensch zählt – Alf Poier

 

Það var einmitt honum Alf Poier að þakka að Austurríki var með í úrslitunum árið 2004, vegna góðs árangurs árið áður, en það átti líka eftir að vera eitt af fáum skiptum sem Austurríki var með í úrslitunum eftir að undankeppnirnar voru settar á laggirnar. Austurríkismenn hafa reyndar ekki verið með öll árin síðan undankeppnirnar byrjuðu, en þeir ákváðu að halda sig heima árið 2006 og 2008-2010.

Austurríki kom þó aftur með trukki árið 2011 og komst loksins uppúr undankeppninni við mikinn fögnuð heimafyrir, en það var fyrir tilstilli hinnar ungu Nadine Beiler með „power-ballöðuna” The Secret is Love” . Gengi hennar í úrslitunum var þó ekkert til að hrópa húrra fyrir, en 18. sætið voru hlutskipti Austurríkismanna það árið. (Mætti samt taka fram að Ísland lenti í 20. sæti, þannig að Austurríkismenn þurftu kannski ekki að kvarta).

 

2011 – The Secret is Love – Nadine Beiler

http://https://www.youtube.com/watch?v=UsBC5AB1tFo

 

Austurríkismönnum tókst ekki að komast uppúr undankeppninni árið 2012 og 2013, en eins og allir vita kom Austurríki eins og stormsveipur inn í keppnina 2014, reis uppúr öskustónni eins og fuglinn Fönix sjálfur og vann hug og hjörtu Evrópubúa og sigraði keppnina með þó nokkrum yfirburðum. Henni Conchitu Wurst okkar tókst það sem margir voru farnir að telja nánast ómögulegt; að sigra keppnina fyrir hönd Austurríkis og veita þeim því sinn annan sigur, 48 árum eftir Udo Jürgens.

 

2014 – Rise Like a Phoenix – Conchita Wurst

 

 

Það er því með stolti sem Austurríkismenn bjóða okkur heim í ár og það lítur allt út fyrir að keppnin eigi eftir að vera hin glæsilegasta, svona eins og venjulega. Við erum alla vega að missa okkur af spenningi og getum ekki beðið eftir að sjá og heyra framlögin á sviðinu í ár.

 

Smá tölfræði um Austurríki

Sigrar 2 1966, 2014
Síðasta sæti 8 sinnum 1957, 1961, 1962, 1979, 1984, 1988, 1991, 2012
 Núll stig 3 sinnum 1962, 1988, 1991
Ekki tekið þátt 10 sinnum 1969, 1970, 1973, 1974, 1975, 2001, 2006, 2008, 2009, 2010
Sungið á þýsku 35 skipti
Sungið á austurrískum mállýskum 4 skipti 19711996

2003

2012

Viennese VorarlbergischStyrian

Mühlviertlerisch

Sungið á ensku 9 skipti 1976, 1999, 2000, 2002, 2005, 2007, 2011, 2013, 2014