Júró-stiklur 2014 með FÁSES (Preview party)

Við erum svo sannarlega í hringiðu Eurovision-vertíðarinnar og ætlum að blása til nýs viðburðar, Júró-stikla með FÁSES næstkomandi sunnudagskvöld 30. mars. Gleðin hefst kl. 18 í Stúdentakjallaranum og stendur fram eftir kvöldi. Boðið verður upp á léttar veitingar. Allir félagar eru velkomnir og tilvalið að taka fjölskylduna með og/eða aðra …gesti!
Svona viðburðir eru vinsælir hjá öðrum OGAE-klúbbum og við höfum fengið margar fyrirspurnir um að gera þetta hér. Farið verður vítt og breitt yfir framlög ársins svipað því sem gert er í Alla leið-þáttunum nema hvað Eurovision-nördaskapurinn verður í hávegum hafður.
Allt sem þið þurfið, viljið eða viljið ekki vita um framlögin í ár verður á boðstólum! Kosið verður um besta framlagið og líkt eftir alvöru Eurovision-kosningu þar sem gestir eru í forsvari fyrir ákveðin lönd í keppninni. Í lokin hlýtur hlutskarpasta „landið” vegleg verðlaun!
Rúsinan í pylsuendanum er svo Pollapönk sem mætir og tekur lagið. Að auki gefst tækifæri á að fá pollana litríku til að taka lauflétta selfie með viðstöddum og jafnvel gefa eiginhandaráritanir.
Við hlökkum til að sjá ykkur öll – það er ekki til skemmtilegri leið að eyða sunnudagskvöldi í aðdraganda keppninnar heldur en að pæla í Eurovision-lögunum.