Operación Triunfo: Kærustuparið Almaia og Alfred verða fulltrúar Spánar.


Á mánudagskvöldið völdu Spánverjar loksins framlag sitt til Eurovision. Það voru Almaia og Alfred með hina gullfallegu og ástríku ballöðu  “Tu canción” sem urðu hlutskörpust eftir æsispennandi kosningu og munu því með stolti fljúga spænska fánanum í maí.

Það er óhætt að segja að það hafi verið á færi einungis alhörðustu aðdáenda keppninnar að horfa á úrslitakvöld Operación Triunfo Eurovision Gala, sem fram fór í Barcelona seint á mánudagskvöldið. Það var mikið um dýrðir og áhorfendur fengu að njóta þriggja langra klukkutíma af skemmtiatriðum, blaðri og auglýsingum. En sem betur fer tókst nú líka að smeygja keppnisatriðunum inn á milli, svona þegar ekkert annað var að gerast.

Eftir að allir keppendur höfðu lokið við að syngja sín lög, bæði sem einsöngvarar, dúettar og einn stór hópur, tók við fyrri símakosning kvöldsins. Þegar henni var lokið, var ljóst að Aitana og Ana Guerra með “Lo malo”, Almaia og Alfred með “Tu canción” og loks aftur Aitana með “Arde” voru Spánverjum hugleiknust, og fóru áfram í þriggja laga einvígi, sem endaði svo með annarri símakosningu. Þess má geta að áhorfið á forval Spánar var með mesta móti í ár, öfugt við árin á undan og greinilegt að spænsku þjóðinni var hreint ekki sama um hver yrði þeirra fulltrúi í Lissabon. Skiljanlegt þar sem gengi þeirra undanfarin ár hefur ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir.

Þegar uppi var staðið voru það krúttmolarnir Almaia og Alfred sem hrifsuðu verðskuldað til sín fyrsta sætið, en þau fengu 43% greiddra atkvæða. Ana Guerra og Aitana fengu 26% og Aitana sem sóló fékk 31% atkvæða. Þetta var því afgerandi sigur fyrir skötuhjúin ungu.

Alfred (20) og Amaia (18) eru orðin óskabörn spænsku þjóðarinnar eftir vegferð sína í gegnum Operación Triunfo, sem að Spánverjar fylgdust æsispenntir með.  Það varð löndum þeirra ljóst um miðbik þáttanna að unga parið stefndi í að verða annað og meira en bara vinir, enda neistaflugið á milli þeirra nánast áþreifanlegt. Það skilaði sér líka í kraftmiklum og tilfinningaríkum flutningi þeirra á “Tu canción” sem byrjaði þannig að þau sátu við píanó andspænis hvort öðru á sviðinu, en eftir því sem leið á lagið, færðust þau nær hvort öðru og enduðu á að haldast í hendur og horfast í augu, á meðan að lokatónar lagsins dóu út. Það er óhætt að segja að ekki hafi verið þurrt auga í salnum á eftir, enda nokkuð ljóst að turtildúfurnar voru einungis meðvituð um hvort annað og ekkert umfram það. Þetta heitir ást, gott fólk! Maður getur hreinlega ekki annað en krúttað á sig, parinu og spænsku þjóðinni allri til samlætis. Jemundur, ég fæ bara kökk í hálsinn hérna, mússí mússí.

Þetta er þriðja árið í röð sem að Spánverjar hafa sérstakt forval fyrir Eurovision, en í allmörg ár hafa keppendur og lög verið valin innbyrðis af spænska sjónvarpinu. Fyrir þá sem ekki eru mjög kunnugir forvali Spánverja í ár, var ferlið þannig að blásið var til hæfileikakeppni í anda Fame Academy og The Voice. Keppendur voru saman í æfingabúðum þar sem allt var þjálfað frá A til Ö, söngur, raddbeiting, framkoma, dans o.s.frv. Einn og einn datt svo út eftir því sem á leið, uns eftir voru fimm keppendur, sem síðan fengu hvert og eitt lag samið sérstaklega fyrir sig. Einnig var þeim skipt niður í dúetta, sem fluttu líka sérsamin lög og að lokum fluttu allir keppendur saman lag, en það lag var einnig þemalag Operación Triunfo.

Spánverjum hefur ekki gengið neitt tiltakanlega vel í Eurovision á undanförnum árum og frá aldamótum hafa þeir hæst komist í 8. sætið, en það gerðist árið 2003, þegar að hún Beth dansaði sig þangað með laginu “Dime”. Kannski muna einhverjir eftir því að Beth og Birgitta okkar Haukdal voru hnífjafnar með 80 stig, en Beth var með fleiri tólf stig, svo að hún endaði einu sæti ofar en okkar kona. Í ár eru líka liðin 50 ár síðan að Spánverjar unnu keppnina seinast, en árið 1968 vann Massiel með laginu “La La La” en hún hafði sigurinn af með einungis einu stigi framyfir hinn heimsfræga hjartaknúsara Cliff Richard. Í fyrra var það strandgæinn Manel Navarro sem fór fyrir hönd Spánar til Kænugarðs, en blessuðum öðlingnum gekk ekki alveg nógu vel, því hann endaði í 26. sæti með fimm stig, og vilja margir kenna því um að hann fór allsvakalega út af laginu og galaði eins og stressaður hani þegar á reyndi. Landar hans voru reyndar aldrei á hans bandi, því að það þótti sitthvað rotið í forvalinu árið 2017 og vildu margir meina að Manel hefði unnið á óheiðarlegan hátt. En til Kænugarðs fór hann engu að síður, en sú ferð var ekki til fjár. Angastrákurinn.

En hvernig sem fer fyrir þessum ofursætu AA-batteríum í Lissabon, að þá hafa þau þó alltaf hvort annað. En ég ætla samt að taka mér það bessaleyfi að spá því að þau fái meira en bara fimm stig, annað en greyið Manel í fyrra. Já, heyrðu, hvar var hann annars á mánudaginn? Honum var greinilega ekki boðið í partýið. Illa gert og það er ekki frá því að ég hafi bara saknað hans. Manel? Manel minn? Galaðu tvisvar ef þú heyrir í mér….