Nú liggja fyrir úrslit í stóru OGAE kosningunni 2014 og hafa allir 40 aðdáendaklúbbarnir, sem tilheyra OGAE samtökunum, sent sínar niðurstöður til OGAE International sem heldur utan um kosninguna.
Það er hin sænska Sanna Nielsen með lagið Undo sem vann kosninguna með yfirburðum. Hlaut hún 354 stig í kosningunni – 92 stigum á undan Ungverjanum András Kállay-Saunders sem endaði í öðru sæti með 262 stig. Í því þriðja var hin ísraelska Mei Finegold með lagið Same Heart. Sanna hefur verið á toppi kosningarinnar frá upphafi en 20 aðdáendaklúbbar gáfu henni 12 stig. Þess má geta að síðustu tvö árin hefur OGAE kosningin verið sannspá um sigurvegara þess árs – árið 2012 gáfu úrslitin til kynna að hin sænska Loreen myndi sigra með hinu frábæra lagi Euphoria auk þess sem niðurstaða kosningarinnar árið 2013 gaf fyrirheit um sigur hinnar dönsku Emmelie de Forest. Það verður spennandi að sjá hvort það sama gerist í ár með Sönnu Nielsen!
Félagsmenn FÁSES tóku að sjálfsögðu þátt í kosningunni og niðurstaða þeirra var eftirfarandi:
- 1 stig – Ítalía
- 2 stig – Bretland
- 3 stig – Ísrael
- 4 stig – Austurríki
- 5 stig – Svartfjallaland
- 6 stig – Holland
- 7 stig – Armenia
- 8 stig – Noregur
- 10 stig – Ungverjaland
- 12 stig – Svíþjóð
Pollapönkararnir okkar riðu því miður ekki feitum hesti frá kosningunni en alls hlutu þeir 7 stig frá sama klúbbinum – OGAE í Rússlandi. Við þurfum samt engar áhyggjur að hafa! Strákarnir eru komnir út, æfingar hafnar og þeir byrjaðir að breiða út boðskapinn um enga fordóma sem virðist leggjast betur og betur í Evrópubúa með hverjum deginum. Þó OGAE kosningin hafi verið sannspá um sigurvegara síðustu ára er ekki þar með sagt að aðrar niðurstöður hafi á sama tíma verið jafn sannspáar. Við höfum fulla trú á Pollapönkurunum okkar! Áfram Ísland.
Á vefsíðu OGAE International má sjá stigatöfluna úr kosningunni í ár í heild sinni eða hér. Niðurstöður fyrri ára getur þú nálgast hér.