9 dagar í úrslit Eurovision


Í dag eru 9 dagar í úrslit Eurovision og fyrstu þjóðirnar sem keppa í undanúrslitum 14. maí stíga á sinni annarri æfingu. Dagurinn er þéttskipaður og munu 15 lönd prófa sviðið aftur í dag. Æfingin í dag er mjög mikilvæg fyrir sendinefndirnar því eftir hana er ekki hægt að breyta neinu og myndvinnslan og ljósin eru fest niður fyrir atriðin.

Fréttaritarar FÁSES.is verða í beinni útsendingu á meðan að Ísland æfir í dag á Facebooki FÁSES klukkan 13:25 á íslenskum tíma.

Síðustu daga hafa sendinefndirnar verið að tínast til Ísrael og í dag er von á fulltrúum stóru þjóðanna fimm og gestgjafanna sem fara sjálfkrafa í úrslit. Fyrstu æfingarnar sem við á FÁSES.is höfum verið að segja frá í pistlum okkar eru fyrstu skiptin sem keppendurnir sjá sviðið, ljós og hvernig söngur og dans koma út í sjónvarpi. Um leið kynnast keppendur keppnishöllinni og hvernig allt fer fram hér í Tel Aviv Expó höllinni. Á fyrstu æfingunum fengu keppendur 30 mínútur á sviðinu og náðu þremur til fjórum rennslum í gegnum atriðið á þeim tíma. Í dag á annarri æfingu fá keppendur 20 mínútur og flestir ná þremur rennslum í gegnum atriðið á þeim tíma. Fram á sunnudag munu keppendur stóru landanna fimm ásamt gestgjöfunum klára sínar fyrstu æfingar og allir keppendur aðra æfingu.

Á sunnudagskvöldið er appelsínuguli dregillinn og formleg opnunarhátíð keppninnar á Habima torginu við þjóðleikhús Ísraels.

Mánudaginn 11. maí hefjast rennsli á sýningunni í heild sinni, klukkan 13 (að íslenskum tíma) er svokallað pressurennsli sem fjölmiðlar og aðdáendur hafa aðgang að. Klukkan 19 er dómararennslið sem dómnefndirnar horfa á og gefa stig. Þriðjudaginn klukkan 13 er fjölskyldurennslið og á þriðjudaginn klukkan 19 eru svo komið að fyrri undanúrslitunum í beinni útsendingu þar sem Hatari stígur á svið. Á miðvikudag og fimmtudag er sama fyrirkomulag fyrir seinni undanúrslitin.

Lögin sem komast áfram úr hvorri undankeppni mæta á föstudaginn á opnunaratriðisæfingu sem er frá 08:30-10:00. Svo er pressurennsli klukkan 11:00 og dómararennsli klukkan 19:00. Á laugardeginum er svo loksins komið að úrslitunum þar sem nýr sigurvegari verður krýndur.