RÚV kynnti keppendur í Söngvakeppninni 2018 í sérstökum kynningarþætti sem sýndur var í gær. Í ár er boðið upp á nokkuð gott jafnvægi á milli ballaða og laga sem hægt er að dilla bossanum við. Nýliðar eru áberandi í hópi flytjenda Söngvakeppninnar 2018 en þó sjáum við þrjú andlit í hópi flytjenda sem Söngvakeppnisaðdáendur ættu að kannast við.
Aron Hannes – Gold digger (lag eftir Svein Rúnar Sigurðsson, Jóel Ísaksson og Oskar Nyman, íslenskur texti eftir Valgeir Magnússon, enskur texti eftir Valgeir Magnússon og Tara Nabavi)
Samstarfs Sveins Rúnars og Arons Hannesar sem byrjaði í Söngvakeppninni fyrir ári síðan heldur áfram en Gold digger er fjórða lagið þeirra saman (lögin Sumarnótt og Morgunkoss komur út 2017). Sveinn Rúnar er sá íslenski lagahöfundur sem hefur stundað Söngvakeppnina og Eurovision af mestu kappi. Með aðstoð Alls um Júróvisjón telst okkur til að þetta sé 16. lagið hans, ef Heaven frá 2004 er talið með en það ár var ekki haldin Söngvakeppni heldur lagið valið af RÚV. Aron Hannes keppti að sjálfsögðu í Söngvakeppninni í fyrra með lagið Tonight og endaði í 3. sæti á eftir Svölu og Daða Frey.
Áttan, Sonja Valdín og Egill Ploder – Hér með þér / Here for You (lag og textar eftir Egil Ploder Ottósson og Nökkva Fjalar Orrason)
Vinsælasta samfélagsmiðlafyrirbrigði unga fólksins, Áttan, tekur þátt í Söngvakeppninni í fyrsta sinn í ár. Þó ekki með týpískt Áttulag eins og hafa verið vinsæl hjá landanum undanfarin misseri en Hér með þér verður flutt af Agli Ploder og Sonju Valdín. Egill tók reyndar þátt í Söngvakeppninni 2014 með F.U.N.K. hópnum sem söng lagið Þangað til ég dey ásamt bróður sínum Franz (sem einnig þekktur fyrir að hafa keppt með Bláum opal í Söngvakeppninni 2012). FÁSES.is mælir með myndbandinu við lagið en Áttan fékk 18 Íslendinga til að kyssast í fyrsta skipti fyrir framan myndavél. Í viðtali við RÚV sagði Nökkvi Fjalar að hann hefði verið að vinna hörðum höndum að því síðastliðinn áratug að komast í Söngvakeppnina – við getum því ekki annað en hlakkað til að sjá þann afrakstur!
Ari Ólafsson – Heim / Our choice (lag og textar Þórunn Erna Clausen)
Ari Ólafsson tekur þátt í Söngvakeppninni í fyrsta skipti í ár – en óttist ei, hann er frændi Páls Óskars og Diddúar! Ari er tenór sem sló fyrst í gegn í Óliver Twist og hefur ekki bara sungið á tónleikum með Sissel Kyrkebø heldur hefur honum hlotnast sá heiður að fá inngöngu í hinn virta Royal Academy School of Music í London á fullum skólastyrk. Þórunni Ernu Clausen þekkja allir Eurovisionaðdáendur því hún er Íslandsmethafi í júróvisjóntextagerð og er þetta 11. Söngvakeppnislagið sem hún gerir texta við. Þórunn er líka lagtækur lagasmiður og er þetta þriðja lagið sem hún semur í Söngvakeppninni (höfundur Hugur minn er 2016 og Þú hefur dáleitt mig 2017).
Fókus hópurinn – Aldrei gefast upp / Battleline (lag eftir Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósu Björg Ómarsdóttur, Michael James Down og Primoz Poglajen, textar eftir Þórunni Ernu Clausen og Jonas Gladnikoff)
Fókus hópurinn samanstendur af Rósu Björg Ómarsdóttur, Eiríki Þór Hafdal, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, Karítas Hörpu Davíðsdóttur og Sigurjóni Erni Böðvarssyni en þau kynntust í gegnum Voice Ísland 2017 og hafa síðan verið að gigga saman hér og þar um bæinn. Einhverjir úr hópnum hafa komið að Söngvakeppninni áður en Sigurjón og Rósa voru bakraddir og dansarar í laginu Hypnotised í fyrra og Eiríkur Hafdal tók einnig þátt sem bakrödd í þeirri keppni í laginu Tonight. Við höfum heyrt að þau hafi lengi langað að taka þátt í Söngvakeppninni og Eurovision og eru skilaboð lagsins, um að láta mótlætið ekki stoppa sig og elta drauma sína, því eflaust ekki úr lausu lofti gripin.
Dagur Sigurðarson – Í stormi / Survivor (lag eftir Júlí Heiðar Halldórsson, íslenskur texti eftir Júlí Heiðar og Þórunni Ernu Clausen, enskur texti eftir Júlí Heiðar og Guðmund Snorra Sigurðarson)
Dagur er nýliði í Söngvakeppninni en það er Júlí Heiðar svo sannarlega ekki. Júlí keppti með Spring yfir heiminn í Söngvakeppninni 2016 og Heim til þín í fyrra. Dagur ætti nú samt ekki að vera sjónvarpsáhorfendum mjög ókunngur því hann sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna 2011, tók þátt í Músíktilraunum 2008, var þátttakandi í X-factor í Bretlandi 2012 ásamt því að hafa gert garðinn frægan á Fiskidagstónleikum og tónleikasýningum RIGG events síðustu árin. Lagið ku vera baráttusöngur fyrir breytingum og er samið undir áhrifum menningarbyltinga síðustu mánuði hér heima og erlendis.
Stefanía Svavarsdóttir, Agnes Marínósdóttir og Regína Lilja Magnúsdóttir – Svaka stuð / Heart Attack (lag eftir Agnesi Marínósdóttur, Aron Þór Arnarsson og Marino Breka Benjamínsson, íslenskur texti eftir Agnesi Marínósdóttur, Stefaníu Svavarsdóttur og Lovísu Rut Kristjánsdóttur, enskur texti eftir Agnesi Marínósdóttur).
Stefaníu Svavars þarf vart að kynna fyrir Eurovision aðdáendum enda er þetta í fjórða skiptið sem hún tekur þátt í Söngvakeppninni og nú er hún með stelpuband með sér. Regína Lilja keppti einnig í Söngvakeppninni 2015 sem hluti af Hinemoa ásamt Rakel Pálsdóttur, sem einnig keppir í ár. Lagið Svaka stuð er hresst diskópopp og Stefanía, Agnes og Regína verða örugglega ekki í vandræðum með að koma áhorfendum í stuð þetta árið!
Þórunn Antonía – Ég mun skína / Shine (lag eftir Þórunni Antoníu og Agnar Friðbertsson, textar eftir Þórunni Antoníu)
Þórunni Antoníu þekkja flestir landsmenn enda hafa lögin hennar So high og Too late verið mikið spiluð á öldum ljósvakans. Hún hefur einnig verið dómari í Ísland Got Talent, leikið fyrir sjónvarp og síðustu mánuði höfum við séð henni bregða fyrir sem stjórnanda kareókís. Þórunn hefur ekki tekið þátt áður í Söngvakeppninni en hefur að eigin sögn oft verið boðin þátttaka. Hefur hún hingað til ekki viljað taka þátt nema með rétta lagið og þá eftir hana sjálfa. Lagið hennar Ég mun skína fjallar um að sjá jákvæðu hlutina í lífinu og að breiða ást og sólskin yfir heiminn. Atriðið verður eflaust spennandi að sjá á sviði en Þórunn Antonía hefur sagst ætla leggja jafn mikinn metnað í atriðið sitt í Söngvakeppninni og hún lagði í lagasmíðina.
Guðmundur Þórarinsson – Litir / Colours (lag og textar eftir Fannar Frey Magnússon og Guðmund Þórarinsson)
Litli bróðir Ingó úr Veðurguðunum (sem hefur keppt tvisvar í Söngvakeppninni 2009 og 2016), Gummi Tóta eins og hann er kallaður, stimplar sig heldur betur inn í Söngvakeppnina í ár ásamt vini sínum Fannari en nýliðarnir eru með tvö lög í keppninni. Guðmundur er knattspyrnumaður sem spilar í Svíþjóð og þarf því að samtvinna tónlist og fótbolta næstu vikurnar. Lagið litir verður flutt af Guðmundi sjálfum.
Þórir Geir Guðmundsson og Gyða Margrét Kristjánsdóttir – Brosa / With You (lag og textar eftir Fannar Frey Magnússon og Guðmund Þórarinsson)
Brosa er annað lag Fannars og Guðmundar í Söngvakeppninni 2018. Gyða Margrét hefur ekki áður keppt í Söngvakeppninni en hún tók þátt í Músíktilraunum 2016 og var í Voice Ísland. Þórir er einnig nýliði en var ásamt Gyðu í Voice Ísland.
Tómas Helgi Wehmeier og Sólborg Guðbrandsdóttir – Ég og þú / Think It Through (lag eftir Tómas Helga Wehmeier, Sólborgu Guðbrandsdóttur og Rob Price, íslenskur texti eftir Davíð Guðbrandsson og enskur texti eftir Tómas Helga Wehmeier, Sólborgu Guðbrandsdóttur og Rob Price)
Tómas og Sólborg eru nýliðar í Söngvakeppninni. Tómas tók nýlega þátt í the Voice Ísland og var þar undir handleiðslu Svölu Björgvins. Sólborg hefur einnig tekið þátt í the Voice, gefið út kraftmikil lög síðustu misseri og stutt UNICEF með því að raka af sér hárið. Eftir því sem FÁSES.is kemst næst kom Sólborg fram á Söngvakeppninni 2013 með hljómsveitinni White Signal sem flutti lagið All out of luck. Tómas og Sólborg flytja lagið Ég og þú í Söngvakeppninni og fjallar það um þær hugsanir sem sveima í kollinum eftir sambandsslit.
Rakel Pálsdóttir – Óskin mín / My Wish (lag og íslenskur texti eftir Hallgrím Bergsson, enskur texti eftir Hallgrím og Nicholas Hammond)
Söngvakeppnisaðdáendur ættu að þekkja Rakel en hún var bakrödd hjá Grétu Mjöll í Eftir eitt lag árið 2014, keppti síðan með Hinemoa 2015 með lagið Þú leitar líka að mér og síðan í fyrra ásamt Arnari Jónssyni með lagið Til mín. Hallgrímur Bergsson er höfundar lags og fjallar það um að eignast afabarn. Í viðtali við RÚV sagði Rakel að hún tengdi mjög við textann því hann væri uppskrift af því sem henni langaði að segja við dóttur sína.
Heimilistónar – Kúst og fæjó (lag og texti eftir Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Elvu Ósk Ólafsdóttur, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur og Vigdísi Gunnarsdóttur).
Heimilistónar er íslensk kvennahljómsveit sem fagnar 21 árs afmæli á þessu ári. Sveitin, sem skipuð er þekktum íslenskum leikkonum, hefur lagt sig eftir að íslenska vinsæl erlend dægurlög og halda rómuð dansiböll reglulega þar sem gestir mæta í sínu fínasta pússi. Eftir því sem FÁSES.is kemst næst er þetta frumraun hljómsveitarmeðlima í Söngvakeppninni. Lagið er létt og skemmtilegt og á að vekja hlýju og minna fólk á vinskapinn.
Þetta verður svo sannarlega spennandi keppni ár. Endilega fylgist vel með á FÁSES.is á næstunni því við ætlum að gera okkur besta í að fjalla um undankeppnir Eurovision hér heima og erlendis!