Svala – hin svala súperstjarna!

Þær stórfréttir ráku á fjörur íslenskra Eurovision aðdáenda í janúar síðastliðnum að Svala Björgvinsdóttir yrði með kombakk í Söngvakeppninni. Hún keppti að sjálfsögðu sem höfundur hins goðsagnakennda Wiggle Wiggle Song í Söngvakeppninni árið 2008 og við vitum að margir hafa beðið í ofvæni eftir að hún tæki þátt í keppninni sem flytjandi. Að margra mati var Wiggle Wiggle Song langt á undan sinni samtíð og ruddi brautina fyrir alternative lög í keppninni (og að auki með svo hrikalega svala dansrútinu að það hálfa hefði verið nóg!). Nú keppir Svala með lagið Ég veit það eða Paper á ensku. Lagahöfundar eru Svala sjálf, Einar Egilsson maðurinn hennar, Lily Elise og Lester Mendez. Textahöfundar ensks texta eru Svala og Lily en Stefán Hilmarsson samdi íslenska texta lagsins.

Fréttaritarar FÁSES.is hittu Svölu í Garðabænum þar sem hún dvelur núna ásamt krúttlegustu kistu í heiminum, honum Mola (fylgist með honum – og Svölu – á instagram undir svalakali). Við forvitnuðumst m.a. um hvort Bandaríkjamenn viti eitthvað um Eurovision sem að sögn Svölu er ekki margt. Þegar Svala sagði meðhöfundum sínum frá þátttöku sinni í Söngvakeppninni fannst þeim þetta æðislegur vettvangur fyrir lagahöfunda og flytjendur. Svala gat þess einnig að mjög er sótt í viðtöl við hana utan úr heimi, t.d. frá hinum ýmsum Eurovision vefmiðlum og einnig hefur henni þótt gaman að heyra frá Steed Lord aðdáendum. FÁSES.is gerðist að auki svo djarft að spyrja hvort Svala væri sigurviss. Að hennar sögn er hún ekki þessa sigurvissa týpan en finnst gaman að finna fyrir stuðningnum og hún er þakklát fyrir hann. Svala segir að það yrði gríðarlegur heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision en það veit enginn hvernig Söngvakeppnin fer! Hún lítur á þetta sem ferlega flott gigg og vill snerta fólk með laginu og sinni sviðsframkomu.

Endilega kíkið á viðtalið sem við tókum við Svölu en við fengum m.a. að vita af hverju Svala ákveður loks að taka þátt í Söngvakeppninni en það var frekar tilviljanakennt þar sem lagið Paper átti upphaflega að vera fyrir hljómsveitina hennar Blissful. Hún fjallar um fyrri þátttöku sína í Söngvakeppnina, texta lagsins og sviðsetninguna en á sviðinu með Svölu verða fimm bakraddir úr Gospelkór Reykjavíkur. Auðvitað fengum við svo Svölu til að taka lagstúf úr Ég veit það fyrir okkur.