Hildur hittir FÁSES – Engin baðkör en kannski selfie með Måns!

Hildur Kristín Stefánsdóttir flytur lagið Bammbaramm í Söngvakeppninni næsta laugardag. Hún er höfundur lags og texta og lítur á Söngvakeppnisþáttökuna sem gott framhald af sólóferli sínum í poppinu sem fór á flug fyrir ári síðan. Hildur hefur gefið út ákaflega skemmtilegt japönsku skotið myndband við lagið – ekki missa af því.

FÁSES.is hitti á Hildi á æfingu í Listaháskólanum og fengum við hana meðal annars til að taka lagið fyrir okkur – eitt klassískt japanskt, Sukiyaki, og síðan uppáhalds Eurovisionlagið hennar, Undo með Sönnu Nielsen (takk fyrir að vera svona til í þetta!). Við fengum einnig að heyra aðeins hvernig lagið hennar verður flutt á sviði (ekki baðkar fyrir þá sem voru að spá í það!), ræddum að sjálfsögðu fyrri þátttöku hennar í Söngvakeppninni og tungumálaregluna sem allir keppendur hafa skoðun á.

Aðspurð hvort það væri ekki auka stress þegar margir aðdáendur spá henni velgengni í keppninni sagði Hildur „Nei í raun og veru ekki, því ég set þá pressu á mig sjálfa. Mér finnst bara gaman að fólk spái mér áfram. Mig langar bara að syngja í Laugardagshöll, því í hittifyrra voru úrslitin í Háskólabíó. Þannig að núna væri rosa spennandi að fara í úrslitin þar. Ekki væri verra að fá selfie með Måns þar sem ég er mikill júróaðdáandi.“